fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

10 kostulegustu Facebook-hóparnir á Íslandi

Fókus
Sunnudaginn 29. mars 2020 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á stærsta samskiptamiðli heims leynist óneitanlega margt skemmtilegt. Facebook-hópar, opnir sem lokaðir, eru þar eins og lítil samfélög, uppfull af fjölbreytilegu fólki og alls konar skoðunum. 

Það er óhætt að fullyrða að allir geti fundið sér eitthvað við hæfi, hvort sem viðkomandi hefur eitthvað að selja, þarf létta á sér, þrasa eða einfaldlega leita að nýjum tækifærum til þess að fiska eftir upplýsingum eða finna fólk með sameiginleg áhugasvið. Galdurinn er vissulega að vita hvar á að leita.

 

Hópur um hópa

Ertu með valkvíða og veist ekkert hverju skal „adda.“ Eins og nafn hópsins gefur til kynna er hér breiður samtíningur á hópum á Facebook, ásamt því sem er „inn“ núna. Maður finnur ekki betri byrjunarreit.

 

Samtök um bíllausan lífsstíl

Samtök um bíllausan lífsstíl eru hópur fólks sem hefur það sameiginlega áhugamál að vinna að því að gera bíllausan lífsstíl á höfuðborgarsvæðinu að vænlegri kosti en nú er. Gísli Marteinn Baldursson hefur verið leiðtogi hópsins. Kannski er kominn tími á að segja skilið við bílinn eða blása rykið af reiðhjólinu, sérstaklega í ljósi þess að farið er að birta aðeins til.

 

Heimur batnandi fer

„Hérna á ekki heima nein svartsýni eða bábilja, né það sem má kalla óttastjórnun,“ segir í lýsingu stjórnenda hópsins Heimur batnandi fer. Kjarnamarkmið þessa hóps er að benda á það góða og jákvæða sem er allt í kringum okkur, enda er af nægu að taka. Birtar eru upplífgandi fréttir og skilaboð sem vinna gegn þeim hremmingum sem aðrir miðlar eiga til að einblína á og ekki síður falskar fréttir eða villandi tölfræðiupplýsingar um þá hrörnandi veröld sem við búum í. Er glasið þitt hálffullt? Þá er um að gera að líta við með bros á vör og neikvæðnina í aftursætinu.

 

Pabbahúmor í Cher-flokki

Ef svokallaðir pabbabrandarar eru að þínu skapi, þá þarftu ekki að leita lengra. Chertrúarsöfnuðurinn er gjörsamlega morandi í orðagríni og trommusláttarbröndurum þar sem hver notandi á fætur öðrum keppist við að finna húmorinn í Cher. Mögulega getur þessi hópur verið of mikið fyrir suma, en sum innslögin eru hugmyndarík og skemmtilega myndskreytt. Það eitt og Cher gerir hópinn þess virði að fá meðmæli á þessum alvarlegu tímum.

 

Hraðamælinga Tips

Það er frekar óvinsælt sport að vera stöðvaður af lögreglunni. Í hópnum Hraðamælinga Tips er að finna samansafn af miskunnsömum samverjum sem fylgjast grannt með hvar lögreglan mælir hraða á götum og lætur aðra vita. Þarna er einnig bent á hæga umferð, vegaframkvæmdir eða aðrar seinkanir. Hvernig upplýsingarnar sem finnast í þessum hópi eru notaðar er alfarið á ábyrgð hvers og eins, en eflaust hafa ófáir sloppið við hraðasektir vegna hópsins. Svo getur hver og einn velt fyrir sér hvort það sé gott eða slæmt.

 

Áhugafólk um skegg

Á tímum COVID-19 hafa skegg og mottur gjarnan þurft að fjúka í þágu samfélagsöryggis. Markmið grúppunnar Áhugafólk um skegg gengur sérstaklega út á að deila fróðleik og skemmtun í tengslum við andlitshár. Og vissulega eru myndir með!

 

Hrós dagsins

Það er ekkert sem gleður meira, gefur meiri orku og gerir fólk ánægðara en hrós sem er sett fram af einlægni, eins og segir í lýsingu hópsins Hrós dagsins. Í þessum hópi þykir ekki töff að vera neikvæður og mætti gera ýmislegt verra en að sjá samlanda sína deila alls konar jákvæðum fréttum og gullhömrum, og tilheyrandi umræður í því samhengi.

 

Bylt fylki

Þessi hópur stækkar ört, sem er engin furða því hann er stórskemmtilegur. Þarna er á ferðinn hópur áhugafólks um kvikmyndir og orðagrín. Tilgangur hópsins er að viðhalda þeirri hefð, sem því miður er að hverfa af sjónarsviðinu, að íslenska heiti erlendra mynda og þá með húmorinn að vopni. Heiti hópsins er tilvísun í svipað orðagrín. Á árum áður var heiti stórmyndarinnar The Matrix þýtt sem Fylki á íslensku. Þriðja myndin í þríleiknum hét The Matrix Revolutions og þaðan er nafnið komið: Bylt Fylki. Segja má að hið heilaga gral slíkra þýðinga sé þegar sakamálaþættirnir „Law & Order: Criminal intent“ var þýtt sem „Lög og regla: Glæpamaður í tjaldi“ í sjónvarpsdagskrá einni um árið. Sá brandari fór víða á samfélagsmiðlum.

 

Bachelor Beibs

Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að Íslendingar eru óðir í raunveruleikaþáttinn The Bachelor. Í hópnum Bachelor Beibs er stöðugt rætt um nýjustu þættina, pörin og slúðrið í kringum þau. Einnig er deilt alls konar glensi í formi svokallaðra jarma (e. memes). Afar hressandi hópur fyrir hressa aðdáendur, en nú eru yfir sjö þúsund manns í hópnum.

 

Það sem enginn viðurkennir

Ef Hrós dagsins er of glaðlynt fyrir þig þá er eflaust kominn tími til að taka neikvæða pólinn. Þar kemur sterkur inn hópurinn Það sem enginn viðurkennir, en þar skiptast Facebook-notendur á að birta alls konar umdeildar skoðanir. Hópurinn er sjálfsagt í barnalegri kantinum en umræðurnar sem skapast oft eru betri en margt afþreyingarefni. Hátt í 22 þúsund Íslendingar tilheyra umræddum hópi.

 

Tölvuleikir – Spjall fyrir alla

Tölvuleikjasamfélagið á Íslandi er stórt en heldur dreift og oft skipað yngri kynslóðinni. Þessi tiltekni Facebook-hópur er vinalegur vettvangur þar sem rætt er um alls kyns leiki, gamla og nýja, og tengd málefni án fordóma, eineltis eða almennra leiðinda. Svoleiðis á það að vera.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar