fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Kolbrún gerðist grænmetisæta því hún var skotin í strák – Grænmetisætur „fullar af kynorku“

Máni Snær Þorláksson
Sunnudaginn 8. nóvember 2020 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvað þýðir það að ætla að gerast grænmetisæta? Þarf það að þýða að maður þurfi að taka upp einhverja nýja heimspekistefnu, ný trúarbrögð eða að stokka upp í bragðlaukunum?“ Þessi spurning var borin upp í Þjóðviljanum í ágúst árið 1984. Tilefnið var að „feykilega mikið úrval“ var af grænmeti á boðstólum í verslunum á þeim tíma. Þeim sem vildu gerast grænmetisætur var ráðlagt að byrja þá á þessu nýja fæði þar sem úrvalið var svo gott.

Þá var spurningunni svarað: „Nei ekkert af þessu þarf að vera til staðar, því hægt er að búa til mat úr grænmeti með nákvæmlega sama bragði og maður á að venjast í þeim mat sem maður hefur verið að borða árum saman, fyrir utan það, auðvitað, að kjötið lætur maður eiga sig.“

Það að fólk borði eingöngu grænmeti, er langt frá því að vera nýtt af nálinni. Talið er að hluti mannfólks hafi lifað eingöngu á grænmeti löngu áður en maðurinn varð nógu klár til að skrá niður sögu sína.

„Þetta er ógurlegt vesen“

Á Íslandi var þó aðallega byrjað að fjalla um grænmetisætur í fjölmiðlum á níunda áratugnum. Til að mynda var fjallað um grænmetisætur í fangelsum í Helgarpóstinum árið 1986. Þar var rætt við Guðmund Finnbogason, bryta á Litla-Hrauni, en hann var spurður hvort það kæmu stundum grænmetisætur í fangelsið. „Já, það kemur fyrir af og til,“ svaraði Guðmundur.

„Núna er til dæmis ein grænmetisæta. Þetta er ógurlegt vesen, því ef einn byrjar á einhverju, vilja allir fá eins – þó þeir hafi aldrei viljað það áður. Ég reyni auðvitað eins og ég get að hafa þetta sérfæði, en mér er bölvanlega við svona kreddur. Það verður að láta menn á sérfæði borða annars staðar í húsinu því svona er hreinlega smitandi í fangelsum.“

„Fullar af kynorku“

Þá fjallaði Tíminn um mataræðið árið 1982. „Er það rétt að þeir sem nærast á heilsufæði séu gjarna ímyndunarveikir og sjálfselskir?“ var spurt og vísað var í rannsókn sem hópur sálfræðinga í Bandaríkjunum gerði á matarvenjum fólks.

„Það eru órjúfanleg tengsl milli þess sem fólk leggur sér til munns og þess sem fer fram í kollinum á því,“ sagði í inngangi umfjöllunarinnar í Tímanum. Fjallað var sérstaklega um grænmetisætur, en þær voru sagðar vera „alvörugefnar“ og „fullar af kynorku“. Þá var sagt að ekki væri líklegt að finna mikla brandarakarla í hópi grænmetisæta. Þær hafi frekar áhuga á þjóðdönsum, saumaskap og útréttingum innan veggja heimilisins.

„Grænmetisætur eru kjötætum eilíf ráðgáta, hvað er það eiginlega sem grænmetisætur nærast á?“ var síðan spurt. „Jú, það er ýmislegt, og mataræðið verður eðlilega fjölbreytilegra eftir því sem löndin eru hlýrri og frjósamari. Hér á Íslandi eiga grænmetisætur af skiljanlegum orsökum erfitt uppdráttar, eða svo var að minnsta kosti þar til farið var að flytja inn aðskiljanlegar tegundir af baunum og grænmeti. En það sem grænmetisætan lifir helst á er gróft korn, dökk hrísgrjón, baunir af ýmsu tagi og auðvitað allra handa grænmeti – bæði hrátt og soðið.“

Grænmetisfæðið hjálpaði mikið

DV fjallaði ítarlega um grænmetisætur í nóvember árið 1986. Þá var heil opna í blaðinu með viðtölum við íslenskar grænmetisætur. Til dæmis var rætt við Marinó L. Stefánsson sem hafði þá ekki borðað kjötbita í 40 ár, en hann breytti mataræðinu samkvæmt ráðleggingum læknis.

„Breytt mataræði hjálpaði mér mikið en ég hafði þjáðst af maga- og ristilbólgum og var búinn að vera frá vinnu í 7 ár vegna veikinda,“ sagði Marinó, sem sagðist einnig alltaf hafa verið mikið fyrir grænmeti. Jónas Kristjánsson, læknir í Hveragerði á þeim tíma, kenndi Marinó á þetta „nýja fæði“ og eftir það borðaði Marinó ekki kjötbita.

„Ég er ekki í neinum vafa um það að grænmetið á sinn þátt í hressleikanum,“ sagði Mar- inó, sem var 85 ára gamall og við hestaheilsu á þessum tíma. Á sumrin fór hann út að tína grös til að búa til te, en hann drakk ekki kaffi. Hann fékk sér frekar te sem hann bjó til úr blóðbergi, vallhumli og rjúpnalaufi. Þá fékk hann sér líka stundum grænmetissoð í staðinn fyrir kaffi.

Þegar Marinó var spurður hver aðalmaturinn hans væri svaraði hann að það væru sojabaunir og hýðishrísgrjón. „Sojabaunirnar eru nokkurs konar kjötígildi og Guðbjörg [eiginkona Marinós] býr oft til bollur eða búðinga úr þeim. Yfir veturinn er vissulega minna úrval af fersku grænmeti og þá borða ég mikið af gulrófum, gulrótum og hvítkáli í meðlæti. Þetta er ýmist soðið eða hrátt.“

Var skotin í græntmetisætu

Þá var einnig rætt við Kolbrúnu Halldórsdóttur, sem var á þeim tíma dagskrárgerðarkona á Rás 2, en hún átti síðan eftir að verða þingmaður og ráðherra. „Það eru tíu ár síðan ég hætti að borða kjöt og það var þá vegna þess að ég var skotin í strák sem var grænmetisæta og mér fannst þetta smart,“ sagði Kolbrún í viðtalinu við DV á sínum tíma. „Ég sleppti samt ekki fiskinum fyrr en tveim árum síðar þegar ég kynntist manninum mínum sem var og er líka grænmetisæta.“

Þrátt fyrir að Kolbrún hafi hætt að borða kjöt vegna stráksins sem hún var skotin í voru fleiri ástæður fyrir því að hún hélt sig áfram við grænmetisfæðið. „Í upphafi var það ekki vegna þess að ég væri á móti dýradrápi, en núna er ég mjög á móti því. Við erum að kikna undan landbúnaðinum og mér finnst mun skynsamlegra að rækta frekar grænmeti, ekki síst þar sem við höfum í raun enga þörf fyrir þetta stöðuga kjötát,“ sagði Kolbrún

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki