fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Stefán Máni um ofbeldið – „Ég sagði fólki að vera ekkert að lesa hana. Hélt að þetta væri kannski of mikið.“

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 31. október 2020 10:30

Stefán Máni rithöfundur. Mynd. Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forsíðuviðtal DV sem birtist 23 október sl.

Stefán Máni Sigþórsson er flókinn karakter. Það flóknasta við hann er líklega að hann hefur ákaf-lega lítinn áhuga á að tjá sig um sín innri mál, hann afgreiðir sjálfan sig sem pirraðan karl og hef-ur mjög takmarkaða þörf fyrir félagsskap annarra. Það þarf þó ekki að sitja lengi með honum til að skynja hlýjuna sem hann felur undir lopapeysunni. 

Stefán Máni sprangar í áttina að mér á Ægisíðu í lok vinnudags. Hvernig ertu? spyr ég.
Það er örugglega rúmlega ár síðan ég sá honum bregða síðast fyrir, í Sundlaug Vesturbæjar þar sem hann syndir oft í viku.
„Ég er drulluþreyttur á þessu. Ég er bugaður.“
„Er það sundið?“
„Já, sundið og ræktin. Geðheilsa þjóðarinnar er í heitu pottunum.“
Það er eitthvað nýtt í fasi hans. Síðustu ár hefur svarti liturinn sem hann lagði mörg ár, áratugi, í að mála líf sitt með, lekið út til hliðanna og harði naglinn í leðurjakkanum með ofbeldissögurnar er orðinn annar.
Gamla myrkravélin er farin að taka á sig lit.

Ofbeldið er ekki grafískt í skrifum Stefáns og þeir sem ekki hafa lesið skrif hans gætu freistast til að hugsa til kvikmyndarinnar Svartur á leik sem gerð var eftir einni bóka hans og frumsýnd fyrir átta árum. Myndin var gríðarlega vinsæl, gróf og dró upp ljóta mynd af undirheimaofbeldi og eiturlyfjaneyslu sem erfitt var að horfa á yfir popppoka.
Bækurnar um Hörð Grímsson eru öðruvísi.
Stefán Máni er öðruvísi. Enda komin 17 ár frá því að Svartur á leik kom út og Stefán hefur þróast mikið bæði sem manneskja og rithöfundur en áttunda bókin um Hörð, Dauðabókin, kom út í vikunni.

Stefán Máni varð fimmtugur í sumar og heldur rígfast í að reyna að þykjast geðvondur, smellir í „við Miðflokksmenn“ við og við og talar um að nú sé stutt eftir. Sín bíði lítið nema sjúkdómar og dauði. Þetta leikrit eyðileggur hann svo strax með djúpri sefandi röddu og hlýlegu augnaráði. Hann ætlar sumsé að skipta út töffaranum fyrir tuðara.

Þegar líður á samtalið verður það ljóst að tuðið er pirringur. Tilfinning sem margir tengja við um þessar mundir.
„Maður á að hætta að horfa á fréttir um fertugt. Horfa bara á Gossip Girl. Fréttir eru mannskemmandi.“

Einn með mannýgum

Stefán Máni á einn bróður og félagslynda foreldra. Þau búa öll enn í Ólafsvík þar sem hann er fæddur og uppalinn. Stutta útgáfan er sú að hann er mjög ólíkur foreldrum sínum. Þegar önnur börn léku sér við hvolpa og ketti óð hann þriggja ára gamall inn í girðingu með mannýgum nautum.
„Ég hef alltaf verið sjúkur í dýr, öll dýr. Mýs og allt. Einu sinni vorum við í heimsókn á sveitabæ. Ég var í mesta lagi þriggja ára. Þar voru naut í girðingu, alveg stór svört og mannýg naut. Ég skreið gegnum girðinguna til að hitta „mumu“.
Fólkið á bænum og mamma og pabbi kölluðu á eftir mér en ég hlýddi ekki enda hef ég aldrei hlýtt skipunum að ofan. Enginn þorði samt á eftir mér. Ég fór og knúsaði stóru bolana og rölti svo aftur í öryggið. Lifði þetta af eins og allt annað.“

Stefán Máni hefur lýst árum sínum sem ungur og leitandi maður á Ólafsvík þar sem óhófleg áfengisneysla og slagsmál lituðu umhverfið. Sjálfur var hann ekki á góðri braut, flosnaði upp úr námi og þvældist á milli starfa, allt frá garðyrkju að umönnun geðsjúkra, en fann sig hvergi.
Tómleikinn tók yfir og hann sá sér þann leik á borði að flytja til Reykjavíkur og reyna fyrir sér sem rithöfundur 26 ára gamall. „Ef ég þyrfti að nefna eitthvað sem ég er stoltastur af, annað en að eiga þessi frábæru börn sem ég á, þá væri það þessi þrautseigja. Þetta hark. Ég byrjaði sjálfur að gefa út. Gekk á milli og seldi. Svo gaf ég út hjá forlagi. Það seldust 300 bækur. Ég reyndi aftur. Þá seldust kannski 700 bækur. Þetta er þrautaganga. Ég er stoltur af úthaldinu. Að halda áfram og gefast ekki upp.“

Vatnaskil og viðgerðir 

Fyrsta saga Stefáns kom út árið 1996. Hann hefur talað opinskátt um harkið að baki því að velja sér ritstörf sem aðalstarf. Bíllinn mátti ekki bila og íbúðin sem hann bjó í var helst til of lítil fyrir hann og börnin tvö. Það var svo fyrir þremur árum sem það urðu vatnaskil hjá rithöfundinum.
„Ég tók þá ákvörðun að gerast dagvinnumaður. Ástæðurnar voru helst tvær. Mig vantaði einfaldlega meiri tekjur og svo var mér pínu farið að leiðast. Ég er orðinn mjög sjóaður rithöfundur og ég er ekki lengur allan daginn að skrifa. Ég hafði í raun bara mikinn frítíma. Gæðin á efninu eru orðin mun meiri og ég þarf að henda miklu minna af því sem ég skrifa.“

Stefán starfar hjá Innnesi og er ánægður í starfinu. „Ég er svona viðgerðarkarl. Mér finnst það fínt. Ég er góður í því. Ég hef alltaf haft gaman af vélum, skrúfa sundur og saman.“
Stefán Máni hefur lært þó nokkuð af föður sínum Sigþóri Guðbrandssyni sem er bifvélavirki og ekki er hún Magnea Sigurbjörg Kristjánsdóttir móðir hans minna handlagin. Prjónar, bakar og mokar inn á sjóstöng án þess að blása úr nös.

Aðspurður hvort hann eigi engin venjuleg áhugamál önnur en hreyfingu, eins og til dæmis veiðar, segir hann svo ekki vera. „Ég gæti aldrei drepið neitt. Ekki einu sinni fisk þó að ég borði hann. Ég væri orðinn vegan ef ég væri ekki svona latur. Ég er að bíða eftir því að kjöt verði bannað. Ég væri bara feginn.“

 

Viðbjóður víða

Stefán Máni á 15 ára dreng og 19 ára stúlku. „Ég er heppinn með það að þau vilja ennþá gera hluti með mér og við erum miklir vinir. Það að foreldrar séu svo hallærislegir held ég að byrji bara um leið og maður eignast barn. Þá er maður orðinn gamall og fáránlegur. Ég er mátulega fáránlegur, þau vilja allavega ennþá gera hitt og þetta með mér og það er ennþá einhver rútína í heimsóknum þó að þetta sé auðvitað orðið fullorðið fólk.“

Börn Stefáns Mána nálgast sögupersónur föður síns hratt í aldri en í Svartur á leik eru þolendur ofbeldis ungt fólk og í nýju bókinni koma táningar við sögu með sorglegum hætti. Hræðist hann ekki að börnin hans séu á þessum aldri, vitandi hvaða hættur og hreint út sagt viðbjóður leynist víða?
„Ég er það heppinn – 7, 9, 13 – að krakkarnir mínir eru það heilbrigð og skynsöm að þau eru mjög langt frá þessum hliðarvegi í lífinu. Ef maður fer að velta sér upp úr því ljóta sem getur gerst og hvað heimurinn er hættulegur hættir maður að geta sofið.“

En þú vinnur við að velta þér upp úr því ljóta? „Já, en ég velti mér ekki mikið upp úr því þess á milli. Kannski losa ég þetta bara út í skrifum,“ segir Stefán og viðurkennir að sig dreymi þó stundum illa en það eigi líklega við um flesta.

Hefur of beldi breyst á þessum rúmu tveimur áratugum sem þú hefur skrifað spennu- og glæpasögur?
„Já, þegar þú segir það. Þetta var alltaf þetta handrukkunardót og undirheimadæmi. Mér finnst hafa verið miklu minna að frétta af ógeðslegum handrukkunum, þar sem er verið að halda fólki í gíslingu þó að það gerist enn. Mér finnst eins og að undirheimaógeðið sé ekki eins og það var. Kynferðisbrot og heimilisofbeldi er mun meira finnst mér og það er ofbeldið sem mér finnst allra verst.“

Í skrifum sínum spilar Stefán Máni oft inn á hræðslu og taugaveiklun. Hann segist þó ekki muna eftir því hvenær hann varð fyrst sjálfur hræddur. „Ég held að ég hafi bara alltaf verið hræddur. Bara við allan fjandann, maður. Ég var myrkfælinn sem barn. Ef þú skilur mig eftir í sumarbústað úti í rassgati þá verð ég hræddur. Ég er veðurhræddur. Þoli ekki að keyra úti á landi í vondu veðri. Ég get líka verið alveg hrikalega draugahræddur.“

Til að trúa á drauga þarf maður að trúa á eitthvað annað og meira. „Já. Það er svo helvíti óspennandi ef það er ekkert annað og meira.“

Stefán Máni rithöfundur

Fleiri kvikmyndir

Stefán segist sjálfur hafa minnkað ofbeldið í eigin skrifum og ekki vera að bæta í með hverri bók. „Ég hef eiginlega farið í þveröfuga átt. Ég hef enga löngun til þess að skrifa eða lesa svona grafískt. Það er vandmeðfarið. Spenna skiptir máli og spenna er ekki það sama og ógeð. Ég hef alveg skrifað hluti sem sjokkera mig og mér finnst virkilega óþægilegir og ég í raun veit ekki alveg hvernig ég gerði það. Það skiptir mestu máli að það sé spennandi. Ég er ekki að reyna að sjokkera. Ég held ég geri það nú heldur ekki.“

Nautið kom út árið 2015 og segir Stefán að hún sé ein af bestu bókum sínum en hún sé ekki fyrir alla enda komi gróft ofbeldi þar við sögu. Bókin fékk fljótt mikið lof og var strax byrjað að ræða hversu myndræn hún væri og fram komu hugmyndir um að hún yrði að kvikmynd eða sjónvarpsþætti. „Ég sagði jafnvel fólki að vera ekkert að lesa hana til að byrja með. Hélt að þetta væri kannski of mikið. En maður má ekki hugsa það þegar maður skrifar. Hvort þetta sé of mikið fyrir fólkið í kringum mann. Þá er maður búinn að missa það.“

Stefán játar því að það sé til umræðu að kvikmynda Nautið og bækurnar um Hörð Grímsson. „Þetta tekur allt svo langan tíma. Það liðu níu ár frá því að Svartur á leik kom út þar til að hún var frum-sýnd sem kvikmynd. Hlutirnir gerast ekki hratt í kvikmyndaheiminum en þetta var rosalega skemmtilegt og það á meira eftir að gerast,“ segir Stefán og dregur seiminn. Eins og til að minna sjálfan sig á að allt tekur tíma – eða til að kenna mér þolinmæði. Kannski hvort tveggja.

Aðspurður hvort hann ætli sér ekki að skrifa fyrir sjónvarp, eins og eina skandinavíska glæpaseríu, þá lifnar yfir honum. „Jú, það væri eitthvað sem ég þarf að skoða. Skrifa það í samvinnu við gott fólk.“

Þarna skín það í gegn. Tregðan til að trana sér fram. Hugsanlega tæmdist framfærnin á níunda áratugnum þegar hann á þrautseigjunni einni seldi fyrstu bækurnar með handafli. „Ég kannski skoða það.“
Hugrekkið má ekki yfirgefa þig þó að þér finnist gott að vera einn. Þú getur unnið með fólki þó að þú sért eins og þú ert?
„Já já. Að vinna með fólki er ekkert mál.“
En hvað?
„Það er meira í stórum hópum sem ég vil geta komið mér undan. Komið mér burt þegar ég fæ nóg. Betra að vera gestur en að vera með gesti.“

Ástin og heitu pottarnir

Á þessum nótum verður breytingin á honum allt í einu ljós. Hafandi fylgst með Stefáni Mána í næstum áratug er ljóst að það er ein stór umbreyting. Hingað til hefur hann blómstrað upp undir vegg, svörtum blómum með blóðugum þyrnum sem gefa lítið af sér nema einn veglegan knúpp á ári. Í fyrsta skipti í áratug er spennuvargurinn í sambúð. Hann er ástfanginn – og það upp fyrir haus af Önnu Lilju Jóhönnudóttur.

Alls ekki í stíl við reiða glæpasagnahöfundinn.
„Við erum búin að vera saman í eitt og hálft ár og búa saman í sjö mánuði.“

Tónlistarmenn semja oft allt öðruvísi í ástarvímu. Skrifar þú öðruvísi hamingjusamur?
„Nei, það er alltaf eins.“
Þú gafst út fyrstu ástarsöguna þína í sumar, Mörgæs með brostið hjarta. Bókin er tileinkuð Önnu Lilju – heimsendaástinni þinni?
„Ég skrifaði þá bók reyndar 2017 en góður punktur samt! Ætli ástin hafi ekki blundað innra með mér, svo fann ég hana. Heimsendaástina mína – sálufélaga minn. Heimsendaást. Það er þema í mörgæsa-bókinni. Tvær manneskjur eftir á jörðinni. Hún er heims-endaástin hans, og öfugt.“

Það eru 19 ár á milli Stefáns Mána og Önnu Lilju en það skiptir engu máli. Þau eiga ákaflega vel saman, kannski eins vel og mörgæsir sem velja sér maka fyrir lífstíð.
Hvað er það f lippaðasta sem þið gerið um helgar?
Hann hlær. „Flippaðasta? Við erum oft að gera eitthvað skemmtilegt. Förum mikið út á land, göngum á fjöll og bara eitthvað. Við erum furðu lík. Tveir einfarar.“

Hann segir félagsþörf þeirra beggja vera mjög takmarkaða auk þess sem COVID-ástandið hefur haft sín áhrif.
„Það er ekki eins og maður megi stunda félagslíf eða fara á mannamót hvort eð er. Það er helst að maður fari í bíó, leikhús eða út að borða. Það er lítið um það núna.“
Þú færð venjulega útrás fyrir félagsþörfina í sundi?
„Nei, ég tala ekki við neinn í sundi. Nema um daginn. Þá kom strákur um þrítugt til mín í heita pottinum. Hann bar það dálítið með sér að hafa verið mikið í ræktinni en var orðinn aðeins svona mjúkur. Dálítill bangsi. Hann gæti hafa verið að koma af Hrauninu. Ég fékk það á tilfinninguna. Hann spurði hvort ég tryði á Jesú. Við vorum bara tveir í pottinum. Ég sagði já. Þá spurði hann hvort hann mætti blessa mig. Og ég sagði já. Þá lagði hann svona hendur á höfuðið á mér og bringuna og fór með einhverjar bænir. Ég bara slakaði á og leyfði honum að blessa mig. Og svo bara fór hann. Ég hugsaði bara „fokk it“. Ég var alveg sultuslakur. Þetta voru falleg samskipti. Ég er búinn að gleyma hvað hann heitir.“
En annars talar þú ekki við neinn í heita pottinum?
„ Nei.“

Nærveran truflar

Stefán Máni er góðu heilli ekki eins og fólk er flest. Örlítið á skjön, jafnvel mikið. Aldrei óþægilegur, frekar óútskýrður.
Er ljótt að fylgja megin-straumnum?
„Nei, það er bara fallegt. Ég geri bara það sem mig langar. Ef mig myndi langa í partí eða út að dansa myndi ég gera það. En það bara hvarflar ekki að mér. Ég verð að geta sloppið í burtu. Ef ég meika ekki meira.“ Hann pírir augun. „Þú skilur þetta ekki. Á ákveðnum tímapunkti fara raddir og nærverur að trufla mann. Þá verður maður að geta farið. Ég get fengið óþol fyrir fólki. Mjög auðveldlega.“

Hans besti vinur er tröllvaxinn, með ryðrautt hár, einrænn, svartklæddur frá toppi til táar með gott hjarta og býr innra með honum. Hann heitir Hörður Grímsson og er aðalsögupersóna átta bóka hans. Stefán Máni kynnti Hörð fyrir lesendum sínum árið 2009 í bókinni Hyldýpi en Dauðabókin er áttunda bókin um þennan sérlundaða lögreglumann. Það er ekki að undra að einfari eins og Stefán búi sér til vini sem hægt er að taka upp og leggja frá sér þegar óþolið gerir vart við sig. Samband Stefáns Mána og Harðar er einlæg vinátta en skilin eru þó ekki alltaf skýr.

„Hann er inni í hausnum á mér þessi maður. Hann er bara til. Þegar ég er leiðinlegastur þá er hann búinn að taka yfir. Ég veit alltaf hvað honum finnst. Ég get verið andsetinn af honum. Ég ótt-ast að ég hætti að skrifa og verði búin að breytast í hann, skapvondan fúlan karl.“
Það gerist ekki. Þú ert ástfanginn! Heldurðu að þú eignist kannski fleiri börn?
Það er bara aldrei að vita,“ segir Stefán Máni með hlýju. Skapvondi, fúli karlinn er nefnilega svo helvíti notalegur.

Stefán Máni. Mynd: Sigtryggur Ari

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bríet kom vinkonu sinni rækilega á óvart með nýju hári – „Lít ég ekki út eins og ódýr hóra?“

Bríet kom vinkonu sinni rækilega á óvart með nýju hári – „Lít ég ekki út eins og ódýr hóra?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart
Fókus
Fyrir 5 dögum

Markle hneykslar enn á ný – Stal sviðsljósinu og sagði annarri að færa sig

Markle hneykslar enn á ný – Stal sviðsljósinu og sagði annarri að færa sig