fbpx
Fimmtudagur 26.nóvember 2020
Fókus

Kórdrengur í Kaupmannahöfn: Tíminn frá því í kringum 1970 lifnar við í nýrri bók eftir Jón Óskar Sólnes

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 24. október 2020 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Óskar Sólnes er mörgum Íslendingum á miðjum aldri og þar yfir að góðu kunnur. Hann vakti fyrst athygli landsmanna fyrir vasklega framgöngu sem íþróttafréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu frá miðjum níunda áratugnum og fram yfir 1990. Hann færðist þá yfir í erlendar fréttir og sagði meðal annars fréttir frá átakasvæðum á Balkanskaga í borgarastyrjöldinni, úr návígi. Var hann ófeiminn við að hætta sér inn í hringiðu átaka. Meðal annarra fréttatengdra verkefna Jóns Óskars má nefna heimildarmynd og bók um borgarastyrjöldina í Sri Lanka og heimildarmynd um Ásgeir Sigurvinsson knattspyrnumann.

Á nýrri öld sneri Jóns Óskar sér meðal annars að friðargæslustörfum fyrir NATO og fleiri alþjóðlegar stofnanir. Hann hefur í auknum mæli stundað ritstörf undanfarin ár. Eiginkona Jóns Óskars er Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Washington.

Jón Óskar hefur nú sent frá sér forvitnilega bók sem ber heitið Kórdrengur í Kaupmannahöfn. Þar er brugðið upp bráðlifandi myndum af þjóðlífi á Íslandi og Danmörku á árunum um og upp úr 1970. Um er að ræða endurminningar ritaðar í skáldsagnaformi. Jón Óskar, sem er 58 ára gamall, hefur lifað mjög viðburðaríka ævi. Þó að Kórdrengur í Kaupmannahöfn sé hlaðin hversdagslegum smámyndum frá tíðaranda fyrri tíma þá virðast það hafa verið örlög höfundar að lenda snemma á stóra sviðinu. Grunlaus um meðfædda sönghæfileika sína og blautur bak við eyrun varð hann fyrirvaralítið forsöngvari í drengjakór Frúarkirkju – dómkirkju Kaupmannahafnar.

Munurinn á stórviðburðum og smámunum óljós

Jón Óskar ræddi nýju bókina í viðtali við DV og var spurður út í vægi litlu hlutanna en ljóst er af lestri bókarinnar að höfundur hefur dálæti af hversdagslegum smámunum, en er jafnframt maður sem oft hefur staðið í ströngu.

„Ég var einmitt að velta því fyrir mér við skrif bókarinnar hvað eru stórviðburðir og hvað hversdagslegir smámunir, bæði fyrir börn og fullorðna. Strax í fyrsta kafla þar sem sögusviðið er teiknað upp kemur í ljós að sumt sem virðist hversdagslegt gæti líka verið stórmál. Til dæmis að byggja einbýlishús, það er stórmál fyrir fullorðið fólk en hversdagslegt fyrir börnin í þessu tilviki þar sem þau leika sér við nýbygginguna á fallegum sólardögum og leiða kannski ekki hugann að því hvað þetta er stórbrotin áskorun sem foreldrarnir eru að glíma við. Sennilega grunar engan að hálfu ári síðar búi fjölskyldan okkar í erlendu landi og temji sér að tala framandi tungumál sem erfiðlega hefur gengið að læra fyrir Íslendinga. Það er til dæmis stórmál fyrir börn að skipta um skóla, hvað þá tungumál og heimahaga. En krakkar aðlagast vel, kannski ótrúlega vel, eins og ég hef getað fylgst með hjá börnunum mínum sem hafa til skiptis búið á Íslandi og í útlöndum.  En þúsundir Íslendinga hafa um árabil átt viðdvöl í Kaupmannahöfn í gegnum tíðina, þannig að í sjálfu sér er það ekkert voða framandi þegar litið er á það heildstætt.“

Jón Óskar lýsir efni bókarinnar í stórum dráttum:

„Þetta eru minningarbrot ungs íslensks drengs sem fyrir ótrúlega röð tilviljana verður kórdrengur í gamla söngskólanum í Kaupmannahöfn. Við kynnumst honum og fjölskyldu hans í gegnum súrt og sætt á nýjum heimaslóðum eftir búferlaflutninga til Danmerkur. Sagan á að gerast í lok sjöunda áratugarins þegar skall á efnahagskreppa á Íslandi og erfitt atvinnuástand leiddi til þess að margir fluttust til hinna Norðurlandanna til að afla sér lífsviðurværis. Þetta voru erfiðir umbrotatímar í lýðveldinu unga og kannski ákveðin vonbrigði að þurfa að leita á náðir gamla konungsríkisins. Á næstu árum urðu líka ótrúlega örar og afgerandi samfélagsbreytingar, ekki síst hvað réttarstöðu barna varðaði, einnig spratt upp öflug kvenréttindabarátta og hugað var að því að virða rétt samkynhneigðra og styrkja norræna velferðakerfið sem varð til í Skandinavíu á þessum árum. Hér er reynt að skynja þetta og skilja breytingarnar. Sumir Íslendinga soguðust inn í danska fyrirmyndaríkið að fullu en aðrar fjölskyldur héldu heim á leið þegar leið á áttunda áratuginn. Það má hins vegar kannski segja að Kórdrengurinn haldi í öfuga tímaátt því hann er valinn ásamt bekkjarbræðrum sínum til að hefja kórnámið í mjög svo gamaldags skóla niðri í bæ þar sem sumar kennsluvenjur virðast vera fornar og úreltar miðað það sem er að gerast almennt í nútíma skólahaldi.

Söguhetjur eiga sér sumar fyrirmyndir, en mjög frjálslega er farið með það og sumar persónur urðu bara til í handritinu sisvona!“

Var kastað í djúpu laugina

Jón Óskar er spurður hvernig upplifun það hafi verið fyrir kornungan dreng að vera fyrirvaralaust varpað upp á stórt svið Frúarkirkjunnar í Kaupmannahöfn.

„Ég vona að það sé einn styrkur bókarinnar að ég hafi frjálsar hendur hvað frásögnina varðar og þurfi ekki að hengja mig í formsatriði eins og þau hvernig þetta gerðist nákvæmlega. Ég reyni þó að veita lesanda innsýn í hvernig þetta ferli átti sér stað þótt ekki sé alltaf farið eftir einhverjum sannleiksbókstaf. En til að segja ekki of mikið fyrirfram þá má geta þess að agentar skólans gerðu víðreist um alla Kaupmannahöfn til að leita upp efnilega söngpilta. Það kann eftir á að virðast vera eins og að leita að saumnál í heysátu. En svona gekk þetta nú engu að síður. Það er ekki fyrr en mörgum árum seinna að stúlkum er leyft að ganga í skólann, en þá var hann líka fluttur í móðins nýbyggingu í útjaðri borgarinnar.  En fyrstu kórminningarnar eru frá þeim tíma er drengjakórinn söng alltaf í beinni útsendingu úr Frúarkirkju í sunnudagsmessunni.  Við vorum stoltir af því að koma fram á matrósafötum og ég held að bekkjar- og kórbræðrum hafi öllum þótt afskaplega gaman að því að syngja. Enda er kannski fátt skemmtilegra, nema kannski að spila fótbolta. En það er hliðarsaga sem of langt mál yrði að fara út í hér.“

Við spyrjum Jón Óskar hvort höfuðborgirnar Reykjavík og Kaupmannahöfn hafi breyst mikið frá sögutíma bókarinnar.

„Í minningunni voru almenningssamgöngur mjög öflugar og þótti ekki sjálfsagt að aka um á einkabíl. Kórdrengir komu því sjálfir í skólann hvaðanæva að úr hverfum borgarinnar og voru því með kort í strætó, sporvagna og borgarlestir. Þeir upplifðu gamla tímann í bland við nýjan í skólahverfinu niðri í bæ rétt hjá Kongens Nytorv, en þá voru alls kyns hverfisbúðir, slátrari, bakarí og þess háttar áður en keðjurnar lögðu helsta verslunarhúsnæði undir sig í miðborginni. Það voru nokkur slömm í borginni þar sem þótti ekki par fínt að búa, eins og úti á Christianshavn, utarlega á Vesturbrú og á Nörrebro, þar sem voru rónar, eiturlyfjaneytendur, veggjakrot og hústökufólk. Nú er búið að hreinsa þessi hverfi upp og Nyhavnen sem hýsti gleðikonur, ógæfumenn og húðflúrstofur er orðin hrein og  strokin og algjör túristagildra þegar viðrar til að sitja úti. Kaupmannahöfn er ein fegurst borga og hefur stórkostlega vel tekist til með borgarskipulag og nýbyggingar við höfnina og nýju Óperuna.  Strikið kom þarna á þessum tíma og hefur lítið breyst finnst mér. Það má alltaf reglulega heyra Íslendingana spjalla saman á röltinu, glaða yfir því að vera komnir til útlanda og dálítið háværa út af því að þeir halda að enginn skilji hvað þeir eru að segja.

Í gamla háskólahverfinu við Frúarkirkju hefur tíminn hins vegar staðið í stað og inni í sjálfri dómkirkjunni hefur að því er virðist ekkert breyst á hálfri öld. Stytturnar af postulunum eftir Thorvaldsen standa á sínum stað sem og Kristlíkneskið fyrir aftan altarið.

Reykjavík hefur margfaldast að flatarmáli frá sögutíma bókarinnar. En það er svo sem ekkert nýtt undir sólinni hvað það varðar. Mesti krafturinn var í byggingabransanum og eftirspurnin eftir góðu en viðráðanlegu húsnæði hefur markað lífsbaráttu Reykvíkinga öll þessi ár og sama gildir um Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Á þessum tíma byggðist Breiðholtið og þar fyrir ofan var Árbærinn.  Það voru allir að reyna að byggja og sumir sennilega af miklum vanefnum. Það sem kannski kemur manni á óvart núna þegar maður sér myndir frá þessum tíma er hvað eru fáir bílar á götunum en einnig hvað virðist hafa verið fjörugt niðri á Lækjartorgi alla jafna. Þá er skrýtið að sjá að það eru engin tré að ráði í borginni eins og til dæmis á Klambratúni.

Á  minni ævi hef ég séð Grafarvoginn verða til, nýjan miðbæ, Kringluna og Leitin, Smáralindina, Grafarholtið og núna alveg nýja byggð uppi í Úlfarársdal.

Í þá daga voru helstu umferðaræðar vissulega malbikaðar niðri í bæ en malarvegir voru áberandi í austurbænum og til dæmis úti á Seltjarnarnesi. Öskuhaugar voru innan borgarmarkanna þar sem Kringlan er núna og líka á mörkum Vesturbæjar og Seltjarnarness. Í búðinni var keypt ýsa sem var vafin inn í Morgunblaðið frá því deginum á undan, sem og kjötfarsið. Það var enginn prentaður síðasti söludagur og ekki mikið látið með „neytendur“. Í sjónvarpinu var fátt skemmtilegt fyrir krakka nema Kanasjónvarpið með „Felix the Cat“.  Einhvern veginn var samt alltaf líf og fjör og krakkar að leika út um allt.  Ekki síst í Háaleitinu og Múlahverfinu niður að Skeifu en þá var leikið í fokheldum blokkum og innan um spýtnabrak sem átti oft eftir að naglhreinsa og gat verið varasamt.“

Tvíburasystkinin Jón Óskar og Inga Björk Sólnes frá Kaupmannahafnarárunum

Reyndi að skapa góðan anda á blaðsíðunum

Maður sem sest niður á miðjum aldri við að skrifa sögu sem gerist fyrir hálfri öld verður eðlilega upptekinn af tímanum. Jón Óskar reifar sumt af því sem leitaði á hugann við sköpun verksins:

„Þegar ég skrifaði fyrri helminginn af bókinni var ég dálítið upptekinn af eigin forgengileika, fannst furðulegt að vera orðinn fimmtugur, kornungur maðurinn. Ég hafði smá aldurstengdan kvíða sumsé. Ég var auk þess mjög meðvitaður um þá miklu loftslagsvá sem við komandi kynslóðum blasir og mér fannst umhugsunarvert að skógar væru að hverfa, sem og dýrategundir. Dóttir mín kom einn daginn heim úr skólanum í Brussel ellefu ára gömul og sagðist vera hætt að borða kjöt. Hún hafði séð fræðslumynd um nautgriparækt. Það væri ekki verjandi gagnvart umhverfinu.  Umræður um aðbúnað ellilífeyrisþega voru líka mér í huga og hvernig tækist að fjármagna norræna velferðarmódelið, þegar samfélagið gránaði af öldrun.  Ég var líka dálítið hrifinn af því að nota meðvitað Danmörku sem sviðsmynd bæði fyrir ævintýri kórdrengsins en líka fyrir það samfélag sem við síðan höfum þekkt á Norðurlöndum og vanist svo mjög, að það kynni að koma okkur mjög á óvart ef það færi að breytast eitthvað drastískt.

Þá kom eins og ég hefði farið með galdraþulu til mín í huganum þessi ungi piltur sem var áhugasamur um veröldina eins og hún var fyrir fimmtíu árum.

Hann gat fylgst með samfélaginu breytast á sínum tíma án þess kannski að gera sér miklar grillur út af því, enda upptekinn við söngverkefni. En nú gat ég rifjað upp og fylgst með honum breytast og þroskast. Það er svo sem ekki nákvæm frásögn, heldur margt fært í stílinn. En ég á með honum sammerkt að hafa sungið fyrir hálfri öld og haft afskaplega mikla ánægju af þótt söngnámið hefði bæst ofan á venjulega skólanámið svo þetta gat verið heilmikið puð. Stundum svo að ekki mátti miklu muna að söngfuglinn gæfist hreinlega upp. Þannig að þetta er saga um þrautseigju og áskoranir en líka hlýleg fjölskyldusaga. Það er enginn drepinn í bókinni, þótt það sé afskaplega vinsælt stef þessa dagana.

Ég ákvað sum sé að reyna að skrifa skemmtilegt handrit byggt á mörgum köflum sem fléttist saman í sannfærandi heild. Ég reyndi að skrifa flestar persónur af hlýhug og var umhugað um að góður andi ríkti í bókinni. Ég fór svo yfir hana alla aftur með þetta í huga þannig að það hefur tekið mörg ár að fullvinna þetta. Vonandi hefur fólk ánægju af lestrinum, það var takmark mitt og einnig að segja þessa sögu sem ég var löngu búinn að gleyma en bankaði upp á einn góðan veðurdag.

Núna þegar bókin er komin út verður fróðlegt að sjá hvernig henni vegnar. Kannski er hún einmitt að lýsa því samfélagi sem við erum að kveðja núna á þessum síðustu og verstu veirutímum. Samfélagi sem hefur virkað vel í hálfa öld og verður kannski veruleg eftirsjá í þegar fram líða stundir.“

Gæti aldrei skrifað á kaffihúsum

Aðspurður um hvernig Jón Óskar beri sig að við skrifin þá segist hann fara sér hægt. „Ég skrifa ekki alla daga. Best finnst mér að sitja á heimaskrifstofunni minni og hugsa um næstu skref.  Ég þarf helst að hafa svona ramma upp á fjóra tíma minnst til að komast í gang, en þá gerast líka hlutirnir. Ég get ekki skrifað ef einhver annar í fjölskyldunni er heima. Þá hef ég oft pælt í því að koma mér upp kompu úti í bæ til að „fara í vinnuna“, en aldrei hefur orðið úr því. Það er of dýrt finnst mér í Reykjavík og í útlöndum er það vesen vegna leigusamninga og þess háttar. Auk þess hefur verið svo mikill þvælingur á mér og fjölskyldunni í áratug að þessi hugmynd um að skapa betri umgjörð um skriftir hefur orðið að engu.  Kannski hefst það einhvern tímann en á móti kemur sérviskan. Ég þarf helst að skrifa í sæmilega stóru opnu rými og helst vera einn.  Ég gæti aldrei skrifað ærlegt textabrot á kaffihúsi!

Þess má svo geta að það hefur ekki bara verið áskorun að skrifa bók sem gerist fyrir fimmtíu árum og fara nokkurn veginn rétt með sögusviðið. Ég byrjaði að skrifa fyrir nokkrum árum um fjölskylduna í Kaupmannahöfn og kórdrenginn en það var þrautinni þyngri að komast almennilega af stað. Ég gerði mér því góða ferð til gömlu borgarinnar við Eyrarsund. Skoðaði alla staði sem koma fyrir í bókinni og tók myndir af skiltum og götuhornum, byggingum, hjólastígum og gömlum fótboltavelli þar sem eitt sinn var skorað merkilegt mark úr frekar misheppnaðri vítaspyrnu.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Arna grét þegar hún sá myndina af sér – „Mér fannst ég bara skítug“‘

Arna grét þegar hún sá myndina af sér – „Mér fannst ég bara skítug“‘
Fókus
Fyrir 2 dögum

Konan sem uppljóstraði um framhjáhald í Reykjavík Síðdegis fræg á ný – „Klárlega í topp 5“

Konan sem uppljóstraði um framhjáhald í Reykjavík Síðdegis fræg á ný – „Klárlega í topp 5“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hjón á áttræðisaldri ósammála um sóttvarnaraðgerðir – „Mamma er eiginlega orðin hrædd við pabba“

Hjón á áttræðisaldri ósammála um sóttvarnaraðgerðir – „Mamma er eiginlega orðin hrædd við pabba“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Grænn heilsudrykkur og jólaskreytingar í Matur & heimili

Grænn heilsudrykkur og jólaskreytingar í Matur & heimili
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gekk í gegnum sáran missi -„Mér finnst ég sjálf hafa verið að koma upp úr kafinu“

Gekk í gegnum sáran missi -„Mér finnst ég sjálf hafa verið að koma upp úr kafinu“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sakamál: Lifði tvöföldu lífi eftir skilnaðinn – Kynlífsvinna, karlmannshárkollur og stinningarlyf

Sakamál: Lifði tvöföldu lífi eftir skilnaðinn – Kynlífsvinna, karlmannshárkollur og stinningarlyf