fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

„Þegar þú ert með fleiri skópör en setningar veistu að þú ert með lítið hlutverk”

Íris Hauksdóttir
Miðvikudaginn 22. janúar 2020 19:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hallgrímur Ólafsson leikari hefur komið víða við en hann fer með eitt af aðalhlutverkunum í kvikmyndinni Gullregn sem frumsýnd var fyrr í mánuðinum. Þar túlkar hann meðvirka mömmudrenginn Unnar og segist ekki hafa þurft að leita lengi til að finna sinn hlut í karakternum þar sem textinn sé að mestu leyti sprottinn frá honum sjálfum.

Hallgrímur er ekki einn af þeim sem vissi alltaf að hann ætlaði að verða leikari. Hann flosnaði snemma upp úr skóla og sótti sjóinn ásamt föður sínum sem stýrði útgerð í sjávarplássinu þar sem hann er alinn upp.

„Æskan var á Akranesi, en ég er svona týpískur út á landi-gaur,” segir Hallgrímur þegar blaðakona hittir hann heim einn hrákaldan morgun í janúar. Nær óhjákvæmilega fljótt minnist Hallgrímur á draum sinn að flytja suður um höf, þó ekki væri nema í um eitt ár og njóta bættari veðurskilyrða. „Ég hata þetta veður. Það væri geggjað að prófa að búa úti í a.m.k. eitt ár og sjá hvernig það færi. Annars hef ég verið rosalega heppinn með vinnu hér heima, verið á föstum samningi frá útskrift og alltaf spenntur yfir því hvað næstu verkefni fela í skauti sér.”

Og talandi um næstu verkefni því fyrr í vikunni hófust fyrstu æfingar á nýju verki sem frumsýnt verður innan skamms í Þjóðleikhúsinu, Útsending í leikstjórn Guðjóns Davíðs Karlssonar. Hallgrímur segir æfingar fara vel af stað en um leið og þeim ljúki taki svo við æfingar á Kardimommubænum þar sem hann mun fara með hlutverk eins þriggja ræningja sem flestir kannast við. „Það er mikill munur að leika fyrir börn og fullorðna, ég viðurkenni það. Sem foreldri finnst mér svo gaman þegar barnasýningar virka líka fyrir fullorðna og þegar ég tek þátt í barnasýningum er ég alltaf með hugann við það að fullorðnir verði að geta skemmt sér líka.”

Elsti pabbinn í bekknum
Sjálfur á Hallgrímur þrjú börn á aldrinum fimm til tuttugu ára. Hann hóf leiklistarnámið tuttugu og sex ára, þá með fjögurra ára gamalt barn í farteskinu og þrætir ekki fyrir að það hafi verið talsvert ólíkt hinum bekkjarfélögunum þótt bekkurinn hafi í heild verið frekar gamall – miðað við það sem gengur og gerist.

„Leiklistardraumurinn var alltaf ansi langsóttur í mínum huga,“ segir Hallgrímur og heldur áfram. „Ég held ég hafi skrifað fjórar umsóknir áður en ég lét verða af því að sækja um, en svo komst ég inn í fyrstu tilraun. Það var mikið gert grín af mér í skólanum enda var ég varla með grunnskólapróf. Ég vissi ekkert um stefnur eða strauma, hafði ekkert lesið af bókmenntum og kunni ekki staf í því sem bekkjarsystkini mín höfðu lært á sinni menntaskólagöngu. En ég vissi að þetta var eitthvað sem ég vildi gera. Það var bara smáborgarinn í mér sem hélt aftur að mér, að ég gæti ekki látið verða af þessum draumi því hann var of fjarlægur á Akranesi. Það er svona að alast upp í litlu samfélagi, manni finnst maður ekki geta komist neitt en þar fyrir utan þekkti ég ekki þennan leikhúsheim, maður heyrði bara sögur um erfið inntökupróf þar sem fleiri hundruð manns sækja um en einungis átta fá inngöngu. Ég hafði aldrei leikið neitt en í þau skipti sem ég sótti leikhúsið fann ég að þetta væri mögulega eitthvað sem ég gæti gert. Ég vissi hins vegar ekkert hvað ég var að fara út í enda hafði ég alltaf bara séð fyrir mér lokaniðurstöðuna. Það er að segja sviðsverkið á frumsýningu en aldrei gert mér í hugarlund hvað fælist í ferðalaginu þangað. Eftir fjögur ár af náinni vinnu vorum við bekkjarsystkinin öll góðir vinir þótt við hefðum ekki endilega verið sterkasti hópurinn, við erum öll sammála því og það er alveg algengt í þessu. Auk þeirra kynntist ég svo fullt af fólki úr öðrum bekkjum sem og kennurum en ég einsetti mér frá byrjun að drekka í mig allt sem ég gat lært þarna.“

Þegar maður er ungur og graður er engin hætta á kulnun
Eftir útskrift lá leið Hallgríms norður á Akureyri þar sem hann lék í ríflega tvö hundruð sýningum á einu leikári. Hann segir þá reynslu hafa kennt sér mun meira en árin fjögur í leiklistarskóla.

„Fyrsti veturinn eftir útskrift var frábær, þarna lék ég í Fló á skinni, Ökutímum og Óvitunum, að meðaltali níu sýningum á viku. Ég skólaðist helvíti mikið á því. Ég myndi ekki nenna þessari keyrslu í dag en þegar maður er ungur og graður er engin hætta á kulnun. Magnús Geir Þórðarson var þarna leikhússtjóri og ég vann með fullt af frábærum leikurum. Ég segi það oft, að leikhúsið getur verið mjög erfiður vinnustaður, maður þarf að vera fókuseraður, vel undirbúinn og gefa bókstaflega allt sem maður á. Þegar vel tekst til er hvergi skemmtilegra að vera en leikhúsið getur líka verið leiðinlegt. Þú þarft að vinna með alls konar fólki sem býr yfir ólíkum hugmyndum og er ekkert endilega alltaf á sömu skoðun og þú en vinnan snýst um að verða sammála því ef maður er það ekki verður niðurstaðan aldrei góð. Maður þarf alltaf að finna sitt jafnvægi. Auðvitað eru líka margir að berjast um bitann, það er bara eins og það er en ég hef verið mjög heppinn hvað þetta varðar, hef fengið nóg að gera og leikið í skemmtilegum uppfærslum.“

Hallgrímur Ólafsson

Spurður hvort hann fái aldrei leið á sýningum segir Hallgrímur öllu máli skipta að stilla hugann rétt áður en hann stígur á svið.

„Við sýndum Mary Poppins 147 sinnum en þar fór ég með mjög lítið hlutverk. Ég var engu að síður með í öllum dansatriðunum og mér finnst satt best að segja ekkert gaman að dansa, ja, eða ég er öllu heldur ekki góður í að dansa, ég er lengi að læra sporin og finnst þetta allt eitthvað svo erfitt. Þess vegna fannst mér þetta svolítið leiðinlegt og fyrir hverja sýningu fór ég með möntru í hausnum á mér niður í bílakjallara þar sem ég sagði sjálfum mér, ef þetta verður leiðinlegur dagur er það alfarið þér sjálfum að kenna. Ég fann að ég var að verða pirraði gaurinn og vildi ekki vera sá gaur, ég þurfti að passa mig þarna. Það getur verið mjög erfitt að vera í hlutverki sem gefur manni lítið, en svo eru auðvitað lítil hlutverk sem eru mikilvæg fyrir verkið og þá er gaman. Mér finnst alveg jafn skemmtilegt að leika stór eða lítill hlutverk svo framarlega sem það hefur einhverja merkingu fyrir verkið. Stanislavski sagði einhverju sinni að það væru engin lítil hlutverk bara litlir leikarar en það er kjaftæði – ég er búinn að afsanna það. Það eru víst til lítil hlutverk og þegar þú ert með fleiri skópör en setningar þá veistu að þú ert með lítið hlutverk.“

Við þekkjum öll þetta fólk
Þegar talið berst að eftirminnilegum mistökum á sviði er Hallgrímur fljótur til svars.

„Ég hef oft gleymt texta og dottið út en þá er alltaf einhver sem grípur mann. Ég hef hins vegar aldrei lent í því eins og sumir tala um að verða alveg tómur, ég hef alltaf náð að redda mér. Svona lagað á sér stað mun oftar en áhorfendur átta sig á og mótleikararnir fatta alltaf um leið ef eitthvað er að klikka og grípa inn í. Eitt af því eftirminnilegasta er samt stjórnlaust hláturskast sem við lentum í þegar við vorum að leika Risaeðlurnar eftir Ragnar Bragason í Þjóðleikhúsinu. Við sátum öll við langborð á miðju sviðinu og Pálmi Gestson átti að minnast á lambakjöt, nema það sem kom upp úr honum var algjörlega samhengislaust bull. Birgitta Birgisdóttir lék líka í sýningunni og byrjar í kjölfarið að flissa, en við erum miklir flissarar bæði tvö. Edda Björgvinsdóttir ætlaði eitthvað að reyna að bjarga þessu en segir eitthvað algjört bull svo við enduðum á að grenja öll úr hlátri. Salurinn var löngu búinn að fatta að þetta væri ekki hluti af sýningunni og hló með okkur en að endingu þurftum við bara að byrja senuna aftur. Þetta var mjög fyndin uppákoma.”

Hallgrímur Ólafsson

Hallgrímur segist sjaldan finna fyrir kvíða áður en hann stígur á svið en það séu helst sýningar sem reyni á stórar tilfinningar sem taki á taugarnar.

„Ég varð alltaf kvíðinn áður en við lékum Gullregn, en sú sýning gekk fyrir fullu húsi í heilt ár í Borgarleikhúsinu og uppskar alltaf mikil og góð viðbrögð. Þar fór maður í gegnum mikinn tilfinningarússíbana og það getur reynt á að komast þangað, fara inn í þetta ferðalag svo sagan virki. Ég kvíði alltaf fyrir hlutverkum þar sem ég þarf að sýna stórar tilfinningar og birta eitthvað sem er erfitt og sárt. Ég er engu að síður gríðarlega stoltur af þessari sýningu og gaman að sjá hana núna sem kvikmynd á hvíta tjaldinu. Þessi tvö listform eru samt ótrúlega ólík og maður tekur eftir einhverjum smáatriðum í bíósalnum sem maður tengir ekkert við úr leikhúsinu enda hneigir maður sig þar bara og fer út af sviðinu. Þarna situr maður hins vegar í salnum meðal áhorfenda – það er pínu skrítið. Það besta er þó það að ég virka ekkert lítill á hvíta tjaldinu. Það kom kona til mín í eftirpartíinu og furðaði sig á því hvað ég væri lágvaxinn því ég virkaði svo stór á skjánum. Ég hafði mjög gaman að því og var í heildina mjög ánægður, ég hafði ekkert séð úr myndinni fyrir frumsýningu en hún hefur fengið frábær viðbrögð. Það var alltaf mikil stemning á hverri sýningu í leikhúsinu, fólk hló þegar það átti að hlæja en svo varð atburðrrásin líka sorgleg og erfið og maður fann að fólk kunni að meta það. Við vissum alltaf að til stæði að gera kvikmynd upp úr þessu handriti. Raggi viðraði þá hugmynd strax í upphafi svo við höfðum það alltaf á bak við eyrað. Pressan var bara sú að nálgunin við leikhús og bíó er svo ólík, maður þarf að skrúfa niður í öllu – enginn þarf að drífa á aftasta bekk í bíósalnum. En þetta var aldrei þvingandi heldur upplifði ég þetta sem rökrétt framhald af hinu og ótrúlega gaman að framkvæma þetta, alveg virkilega skemmtilegt tímabil sem fór í að taka þetta í sumar enda þekkjumst við öll svo vel sem komum að þessu. Sigrún Edda, Halldóra Geirharðs og Halldór Gylfa komu öll að uppsetningunni á sínum tíma en Karolina Gruszka kemur í stað Brynhildar Guðjónsdóttur sem lék kærustuna mína í sýningunni. Svo koma auðvitað fullt af öðrum persónum fyrir í myndinni sem við ræddum bara í sýningunni en sáust aldrei á sviðinu. Ég tengi vel við persónuna sem ég leik, einfaldlega af því ég bjó hann til. Við unnum handritið allt í spunaformi en Raggi kom með hugmyndir af senum og síðan spunnum við samtölin út frá þeim. Ég tengi ekki beint við þennan meðvirka dreng en það er auðvelt að sækja hann – við þekkjum nefnilega öll þetta fólk.”

Lifði og dó fyrir Bubba
Eins og fyrr segir ólst Hallgrímur upp á Akranesi og ól um stund þann draum að verða trúbador. Fyrstu og einu plötuna gaf hann út nítján ára og segist loksins hafa tekið hana í sátt eftir margra ára eftirsjá. Platan bar viðurnefni Hallgríms, Halli melló, hálfgert uppnefni sem hefur loðið við hann frá unga aldri.

„Halli melló er búið að vera fast við mig frá því ég var níu ára en þá voru eldri strákar að stríða okkur. Foringinn í hópnum kastaði svo fram þeim fyrirmælum að strákarnir ættu að láta hann Halla vera því hann væri svo melló. Þannig kom þetta og festist við mig. Ég hef margoft reynt að afmá þetta en ég átti aldrei sjens – ætli ég taki þetta ekki upp sem ættarnafn, hver veit. Það var alltaf draumur að gera þessa plötu og ég var hvattur til þess en ég sá lengi vel eftir því. Hún var einfaldlega ekki nógu vel gerð en auðvitað er þetta fyndið í dag, ég hef alveg sætt mig við þetta. Þarna var ég búinn að spila á börum frá sextán ára aldri úti um allt land en fann með tímanum að þessi lífsstíll átti ekki við mig – að sitja á trékolli og spila fyrir drukkið fólk. Ég var þó undir svo miklum áhrifum frá Bubba – lifði og dó fyrir hann sem barn og ég á margar minningar tengdar honum. Þegar hann var að spila á Akranesi reiknaði ég út hvaða Akraborg hann myndi taka og beið svo á bryggjunni til þess eins að sjá honum bregða fyrir. Svo hjólaði ég á eftir þeim upp að hóteli og fékk að kíkja inn.“

Hallgrímur Ólafsson

Og þeir Bubbi og Hallgrímur eiga ekki aðeins söngferilinn sameiginlegan því Hallgrímur sótti jafnframt sjóinn, rétt eins og Bubbi.

„Ég er alinn upp á sjómannsheimili þar sem átti að ríkja þögn í hádeginu því þá voru sagðar veðurfréttir. Það var alltaf fiskur í matinn og ég segi stundum að ég sé búinn að borða fisk fyrir lífstíð. Pabbi rak smábátaútgerð svo það var þægilegt fyrir strák sem hékk ekki í skóla að geta fengið fullt af pening, en þetta var ekkert fyrir mig. Ég prófaði líka að fara á togara en það var einhver mesta martröð sem ég hef upplifað. Það var svo ógeðslega kalt og skrítin standpínustemning um borð. Þess fyrir utan var ég einfaldlega ekki nógu sterkur í þetta, það þurfti mikil átök og djöfulmennsku í svona starf. Sjóferilinn endaði ég svo á Akraborginni, þá sem háseti að vísa bílum inn í skipið og það kunni ég mun betur við, ég er stoltur að hafa hætt þar.”

Hallgrímur Ólafsson

Spurður hvort óvissan sem óhjákvæmilega fylgir starfinu sé aldrei ógnvekjandi segir Hallgrímur svo ekki vera.

„Það er aðallega þegar maður er að koma úr miklu álagi að maður óttist að það haldi áfram en annars er ég ekki mjög kvíðinn maður. Ég hef verið heppinn að hafa nóg að gera og það er frekar að maður sé spenntur hvað taki næst við. En ef þetta verður leiðinlegt þá fer ég einfaldlega að gera eitthvað annað.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“