fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

30 brjálaðar staðreyndir um Baywatch

Fókus
Laugardaginn 28. september 2019 21:00

Stuð á strönd Hér má sjá lífverðina með Baywatch-brimbretti.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þættirnir Baywatch fóru upprunalega í sýningar á sjónvarpsstöðinni NBC í september árið 1989, eða fyrir þrjátíu árum. Þótt upphafið hafi gengið brösulega og fáir haft trú á þáttunum urðu þeir fljótt vinsælustu þættir í heimi, sem hafa síðan þá alið af sér hliðarþætti (e. Spin-off), sjónvarpsmyndir og kvikmynd í fullri lengd. Fókus leit á þrjátíu magnaðar staðreyndir um þættina á þrjátíu ára afmælinu.

1. Titillinn

Nafnið Baywatch vísar í björgunarbáta sem hafa haft eftirlit með ströndum Suður-Kaliforníu áratugum saman.

2. Upphafið

Það var lífvörðurinn Greg Bonann sem fékk hugmyndina að þáttunum þegar hann byrjaði að starfa við öryggisvörslu á ströndum í Los Angeles árið 1970, þá aðeins sautján ára gamall.

3. Þrautaganga

Bonann kynnti þáttinn fyrir öllum í sjónvarpsbransanum sem hann fékk fund hjá í heilan áratug. Hann hélt áfram að vinna sem lífvörður í hlutastarfi en hóf einnig störf hjá markaðsfyrirtæki.

4. Örlögin

Svo gripu örlögin í taumana og systir Bonann trúlofaðist handritshöfundinum Doug Schwartz sem hafði gert fjölmargar sjónvarpsmyndir með frænda sínum og viðskiptafélaga, Michael Berk. Bonann bauð þeim Schwartz og Berk að koma með sér á árlegu lífvarðaleikana og þeir sannfærðust um að hugmyndin væri góð.

5. Loksins kom tækifærið

Brandon Tartikoff, fyrrverandi forstjóri NBC, var sá fyrsti sem kveikti á hugmyndinni og pantaði sjónvarpsmynd árið 1988 sem myndi verða fyrsti þátturinn (e. Pilot) af Baywatch. Bonann, Berk og Schwartz skrifuðu handritið á þremur mánuðum.

Flestir tengja Hasselhoff við Baywatch.

6. Hasselhoff ekki fyrsta val

Meðal leikaranna sem komu til greina í hlutverk lífvarðarins Mitch Buchannon voru hjartaknúsarinn Lorenzo Lamas úr Falcon Crest, The Dukes of Hazzard-stjarnan Tom Wopat og breski leikarinn Adrian Paul, sem átti síðar eftir að slá í gegn í sjónvarpsþáttunum Highlander. Tartikoff stakk upp á að prófa David Hasselhoff í hlutverkið, en hann hafði leikið í þáttunum Knight Rider sem voru sýndir á NBC.

7. Óviss í fyrstu

Hasselhoff var á þessum tíma mjög vinsæll söngvari í Þýskalandi og Austurríki og vildi ekki leika í Baywatch í fyrstu. Hann kallaði þáttinn „Knight Rider í sundfötum“. Hann lét hins vegar sannfærast að lokum.

8. Tók óvænta stefnu

Framleiðendur þáttanna vildu fyrst gera þætti um hversdagsleg ævintýri lífvarða en NBC vildi tvinna það saman við morðgátur og dularfull sakamál.

9. Playboy-hneykslið

Erika Eleniak, sem lék Shauni McClain, var næstum því rekin þegar að forsvarsmenn NBC komust að því að hún hefði setið fyrir nakin fyrir Playboy. Framleiðendur börðust fyrir henni, en þeir töldu hana betri í hlutverkið en til að mynda Teri Hatcher, Neve Campbell og Alicia Silverstone, sem allar komu til greina. Susan Glicksman, sem sá um leikaravalið, sagði í viðtali við Esquire árið 2012 að leikkonan Sandra Bullock hefði einnig verið orðuð við hlutverkið en hefði hætt við á síðustu stundu. Svo fór að Erika hélt hlutverkinu.

10. Hrædd við vatnið

Shawn Weatherly var ráðin til að leika Jill Riley á síðustu stundu og kom þar í staðinn fyrir Pamelu Bowen eftir að hún fríkaði út á settinu. Þá kom í ljós að Bowen var logandi hrædd við vatn.

11. Hákarlahasar

Þó að fyrsti þátturinn hafi verið tekinn upp í Los Angeles í þægilegum hita þá var samt ekki nógu heitt þannig að framleiðslan var flutt til Havaí. Þar var hitastigið fullkomið en hins vegar svamlandi hákarlar í hafinu. Því þurftu menn með deyfibyssur að passa upp á „lífverðina“.

12. Öðruvísi markaðir

Það var tekinn upp annar fyrsti þáttur fyrir evrópskan markað en helsti munurinn á bandaríska og evrópska þættinum var að það var nekt í þeim síðarnefnda.

13. Bjargaði lífi drengs

Bonann ákvað að fara með framleiðendum og handritshöfundum þáttanna á Venice Beach til að skoða tökustaði eftir að þeir fengu þær fréttir að þeir þyrftu að gera tólf þætti til viðbótar af Baywatch. Skyndilega hljóp drengur að Bonann og sagði honum að bróðir sinn væri að drukkna. Bonann stakk sér til sunds, fann drenginn, hóf endurlífgun og bjargaði lífi hans. Hann fékk sérstaka viðurkenningu frá Los Angeles fyrir björgunina.

Pamela Anderson vakti mikla lukku í þáttunum.

14. Grimm endalok

Shawn Weatherly fékk fljótt leiða á hlutverki Jill þannig að hún ákvað að yfirgefa þáttinn eftir eina þáttaröð. Hún var skrifuð út með því að hákarl réðst á hana með þeim afleiðingum að hún lét lífið.

15. Sótthreinsaðir líkamar

Á þessum tíma var sjórinn fullur af rusli og öðrum vafasömum efnum þannig að sjúkraliðar þurftu að sótthreinsa leikarana um leið og þeir komu úr vatninu. Þá voru öll líkamsop úðuð með sótthreinsi eins og Billy Warlock, sem lék Eddie Kramer, hefur lýst.

16. Hætt við allt saman

Þó að Baywatch hafi verið vinsælasti þáttur NBC á föstudagskvöldum þá voru viðtökurnar ekki í samræmi við það. Þess vegna var framleiðslu á þáttunum hætt eftir 22 þætti. Enn fremur var verið að loka kvikmyndaverinu á bak við framleiðsluna, GTG.

17. Tíu dollarar margfölduðust

Frændi Berk og Schwartz, Sherwood Schwartz, maðurinn á bak við Gilligan‘s Island og The Brady Bunch, ráðlagði frændum sínum að kaupa réttinn að þáttunum af GTG, sem þeir gerðu fyrir tíu dollara. Þeir báðu Hasselhoff um að taka á sig fimmtíu prósenta launalækkun og fá hlutverk framleiðanda. Hann samþykkti það og tengsl hans í Þýskalandi tryggðu þeim þrjú hundruð þúsund dollara fjármagn á þátt frá meginlandi Evrópu. Þess vegna lifði þátturinn áfram til ársins 2001 og náði þegar mest lét til rúmlega milljarðs manna í 142 löndum í hverri viku.

18. Leikur verður raunveruleiki

Eleniak og Warlock, sem léku Shauni og Eddie, voru ástfangin bæði fyrir framan og aftan myndavélina. Sögusagnir fóru á kreik um að þau hafi beðið um of há laun og þess vegna hafi þau hætt eftir annan þátt í þriðju þáttaröð. Þau giftu sig síðan og fluttu til Ástralíu, en ástin slokknaði að lokum. Warlock sneri aftur til að leika í þáttunum Baywatch Nights og sjónvarpsmyndinni Baywatch: Hawaiian Wedding, en Eleniak sneri aldrei aftur.

19. „Þetta er fjölskylduþáttur“

Pamela Anderson sló síðar í gegn sem C.J. Parker en Hasselhoff vildi ekki ráða hana í fyrstu. „Ég vil ekki neinn úr Playboy. Þetta er fjölskylduþáttur,“ sagði hann í viðtali við New York Times. Honum snerist hugur þegar hann hitti Anderson.

20. Kynlífsmyndbandið

Þegar kynlífsmyndbandi Anderson og þáverandi eiginmanns hennar, Tommy Lee, var lekið um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, fóru einhverjar sjónvarpsstöðvar fram á að Baywatch yrði tekinn af dagskrá. Á sama tíma ruku áhorfstölur upp vegna myndbandsins alræmda.

Jeremy Jackson lék Hobie, en hann hefur sagt að hlutverkið hafi eyðilagt feril hans.

21. Leo vildi hlutverkið

Brandon Call lék son Mitch, Hobie, í fyrstu þáttaröð. Leikarinn Leonardo DiCaprio vildi hlutverkið en Hasselhoff vildi yngri leikara. Í framhaldinu fékk hinn tíu ára Jeremy Jackson hlutverkið og það eyðilagði leiklistarferil hans. Hann féll í heim vímuefna og frægðin steig honum til höfuðs.

22. Dópdjöfullinn

Jackson var ekki sá eini sem var í klípu því leikkonan Yasmine Bleeth hætti í þáttunum árið 1997 þegar vímuefnadjöfullinn hélt henni í heljargreipum. Hún fékk síðar hlutverk í þáttunum Nash Bridges og fór í meðferð.

Svo fór að Yasmine Bleeth fór í meðferð eftir að hún lék í Baywatch.

23. Öll fjölskyldan með

Leikkonan Mila Kunis kom tvisvar fram í þáttunum, í fyrsta sinn árið 1994 sem stúlka sem kallaði á hjálp þegar vinkona hennar var að drukkna og í seinna skiptið árið 1995. Þá lék hún blinda stúlku sem þurfti að bjarga úr eldsvoða. Öll fjölskylda hennar kom með á settið til að sjá Pamelu Anderson með berum augum.

24. Þrjár eiginkonur

Önnur eiginkona Mitch Buchannon, Neely Capshaw, var leikin af þremur mismunandi leikkonum; Heather Campbell, Genu Lee Nolin og Jennifer Campbell.

25. Æ efnisminni

Engir af rauðu sundbolunum sem kvenkyns lífverðirnir klæddust voru eins heldur voru þeir sérsaumaðir á hverja konu. Sundfatafyrirtækið TYR hjálpaði til við hönnun á upprunalegu sundbolunum en að sögn forsvarsmanna þáttanna var hugmyndin aldrei sú að bolirnir væru sexí, heldur nytsamlegir og góðir í briminu. Sundbolirnir urðu efnisminni með tímanum.

26. Innrammaður

Það var í raun partur af áheyrnarprufum að láta sjá sig í sundbol. Carmen Electra er með sinn sundbol í ramma heima hjá sér, en hún þurfti frá að hverfa eftir eina þáttaröð þegar móðir hennar varð veik. Hún sneri hins vegar aftur í hlutverki Lani í sjónvarpsmyndinni Baywatch: Hawaiian Wedding árið 2003.

27. Strangar kröfur

Alexandra Paul fór upprunalega í prufu sem C.J. en endaði á að leika Stephanie Holden í fimm þáttaraðir. Hún sagði í viðtali árið 2014 að það hefði verið klausa í samningum leikara að þeir mættu ekki þyngjast um meira en rúm tvö kíló á meðan þeir léku í þáttunum.

Nicole Eggert ákvað að fara í brjóstastækkun sjálf.

28. Enginn þrýstingur

Nicole Eggert, sem lék Summer Quinn í tveimur þáttaröðum, hefur talað opinskátt um að hún sjái eftir að hafa leikið í þáttunum. Mikið var slúðrað um að framleiðendur þáttanna hefðu þrýst á hana um að fara í brjóstastækkun en í viðtali við Opruh Winfrey árið 2015 sagði Eggert að það hefði algjörlega verið hennar eigin ákvörðun. Berk sagði einnig við Esquire að enginn í leikaraliðinu hefði verið beðinn um að gangast undir lýta- eða fegrunaraðgerðir þótt þónokkrir hefðu gert það.

29. Í hættu

Anderson hætti í þáttunum árið 1997 og þátturinn Baywatch Nights var tekinn af dagskrá eftir tvær þáttaraðir. Hætt var við að Baywatch-þættirnir yrðu teknir úr umferð í nóvember árið 1998 en þá var framleiðslan flutt til Ástralíu til að spara peninga.

30. Endalok Mitch Buchannon

Síðustu tvær þáttaraðirnar voru hins vegar teknar upp á Havaí og hétu þættirnir þá Baywatch Hawaii. Kvenkyns lífverðir skiptu rauðu sundbolunum út fyrir gula til að líkja eftir lífvarðafatnaði á Havaí. Hasselhoff hætti eftir fyrri af þessum tveimur þáttaröðum og var klipptur út í lokin og látinn deyja í sprengingu. Hasselhoff vissi það ekki fyrr en hann sá þáttinn í sjónvarpinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki