fbpx
Þriðjudagur 09.ágúst 2022
Fókus

Ritdómur um Aðventu: Íslamskir hryðjuverkamenn í Reykjavík

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 26. nóvember 2019 18:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stefán Máni: Aðventa

Spennusaga

Útgefandi: Sögur

295 bls.

 

Þeir eru líklega orðnir meira en tveir áratugirnir, tíminn sem Stefán Máni hefur kafað í myrkur mannssálarinnar í drungalegum verkum sínum og líklega hefur hann gefið út minnst eina bók árlega frá aldamótum. Stefán Máni hóf feril sinn sem hefðbundinn skáldsagnahöfundur. Svartur á leik, þekktasta skáldsaga Stefáns Mána til þessa, dró upp mynd af nöturlegum undirheimum Reykjavíkur en flokkast þó mun frekar undir raunsæisverk en spennusögu. Svartur á leik lagði þó líklega grunninn að ferli Stefáns Mána sem spennusagnahöfundar og ljóst var að hann, með sinn mergjaða stíl og dimmu lífssýn, hafði allt til að bera til að geta náð langt sem spennusagnahöfundur. Og það hefur hann svo sannarlega gert.

Ein helsta sögupersóna Stefáns Mána er rannsóknarlögreglumaðurinn Hörður Grímsson sem hefur verið mjög áberandi á síðari hluta ferils höfundarins. Hörður missti ungur fjölskyldu sína í snjóðflóði fyrir vestan og síðan hefur hann farið lífsleiðina með myrkur í sálinni en hefur líka hjarta úr gulli. Hann er drykkfelldur og andfélagslegur og í undanförnum bókum hafa lesendur upplifað með honum gífurlega togstreitu á milli smáborgaralífs og ólifnaðar í drykkjuæði. Smáborgaralífið er stundum svo ömurlega leiðinlegt og innantómt að lesandi skilur Hörð mjög vel að þrá mest að flýja það inn í heim vímu og brjálæðis – sérstaklega rétt fyrir jólin, en nýja bókin, Aðventa, gerist einmitt á þeim árstíma.

Eins og margir krimmahöfundar tekst Stefán Máni á við þjóðfélagsmál og gerir það vel. Í síðustu bókinni, Krýsuvík, var erlent vinnuafl og önnur kynslóð innflytjenda í brennidepli og djúp innsýn höfundar í þau mál styrkti góða sögu. Núna beinir Stefán Máni sjónum að flóttamönnum og hælisleitendum og mögulegri hættu á hryðjuverkum íslamista hér á landi. Umfjöllunin er hófsöm og öfgalaus, gerir málflutning þeirra sem setja alla múslíma undir einn hatt hlægilegan, en á hinn bóginn virðist höfundar vara við andvaraleysi gegn íslamisma og afneitun á þeim vanda sem fylgir straumi hælisleitenda frá Miðausturlöndum.

Það leiðist engum við lestur einnar einustu bókar Stefáns Mána en verk hans eru samt misjöfn að gæðum eins og vænta má af höfundi sem gefur út bók í það minnsta á hverju ári, og sumar þeirra hnausþykkar. Ég hafði gaman af lestri Aðventu en mér þótti hún samt ekki jafnáhrifamikil og mörg fyrri verk höfundar. Gallarnir eru þessir helstir:

Hryðjuverkin sem eru í uppsiglingu í sögunni eru fáránleg. Hryðjuverk eru það vissulega en höfundur gerir ekki minnstu tilraun til að setja lesandann inn í hugarheim hryðjuverkamannana og því tengir hann sig aldrei almennilega við áform þeirra og skynjar því ekki almennilega þá hættu sem á líklega að vera helsti spennuvaldur verksins.

Annar galli við verkið er sú uppbygging að lesandinn veit miklu meira en lögreglan um þá glæpi sem framdir hafa verið í sögunni, sem og þá sem verið er að leggja drög að, en lögreglan sjálf. Því er ýmislegt mikilvægt í söguþræðinum sem aldrei kemur lesanda á óvart.

Sögupersónur utan Harðar Grímssonar eru ekki sérstaklega áhugaverðar en Stefán Máni hefur í gegnum tíðina skapað mörg eftirminnileg illmenni.

Aðventa er skemmtileg aflestrar en mun seint fara í hóp með eftirminnilegustu verkum Stefáns Mána. Núna bíðum við eftir alvöru bombu frá meistaranum. Hún er eflaust ekki langt undan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Sigrún Gyðja á von á barni

Sigrún Gyðja á von á barni
Fókus
Fyrir 6 dögum

Frægar bíómyndir sem aldrei yrðu gerðar í dag

Frægar bíómyndir sem aldrei yrðu gerðar í dag