fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Nærmynd af Magnúsi Geir – Hrekkjalómur úr Vesturbænum sem elskar pabbahlutverkið – „Hörð lína undir ljúfu yfirbragði“

Auður Ösp
Sunnudaginn 24. nóvember 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnús Geir Þórðarson var aðeins níu ára gamall þegar hann skrifaði og setti upp sitt fyrsta leikrit og nokkrum árum síðar varð hann yngsti leikhússtjóri landsins. Hann hefur náð undraverðum árangri í leikhúsrekstri á Íslandi og sömuleiðis við að rétta af rekstur Ríkisútvarpsins. Svo virðist sem allt sem hann snerti verði að gulli. Og nú er hann orðinn leikhússtjóri Þjóðleikhússins. DV bregður hér upp nærmynd af Magnúsi Geir.

Varð snemma hrókur alls fagnaðar

Magnús Geir Þórðarson er fæddur þann 7. janúar 1973 og ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík. Foreldrar eru þau Þórður Magnússon, einn aðaleigandi og stjórnarformaður Eyrir Invest, og Marta María Oddsdóttir menntaskólakennari. Eldri bróðir Magnúsar er Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, og yngri bróðir hans er Árni Gunnar Þórðarson leikstjóri. Árni Oddur lýsti Magnúsi Geir bróður sínum þannig í viðtali við Morgunblaðið árið 2009:

„Við lékum okkur mikið úti, eins og krakkar gerðu. Allir krakkarnir í hverfinu hópuðust saman og við lékum okkur í útileikjum jafnvel langt fram á kvöld. Þetta voru krakkar á öllum aldri. Svona var stemningin í Vesturbænum. Það er mikill kraftur í Magnúsi Geir og hann á gott með að drífa fólk áfram. Strax sex, sjö ára gamall fór hann að hafa gaman af því að vera hrókur alls fagnaðar og skemmta fólki í fjölskylduboðum.“

Magnús Geir gekk í Melaskóla, Hagaskóla og MR en hann steig sín fyrstu skref á sviði í Melaskólanum, undir stjórn Magnúsar Péturssonar tónlistarkennara. Fyrsta hlutverkið var kötturinn, sem drap fugl lamaða drengsins, í sögu H.C. Andersen og kviknaði leiklistaráhugi Magnúsar þar, þó svo að hlutverkið hefði ekki verið stórt.

Alræmdur hrekkjalómur

Magnús Geir ræddi við DV í júlí 1993, þegar hann hafði nýlega fengið inngöngu í leiklistarskóla í Bretlandi. Í því viðtali kom fram að hann hefði oftast verið kallaður Maggi þegar hann var yngri. Sagðist hann hafa verið hnellinn sem krakki og alræmdur hrekkjalómur.

„Einhverju sinni hringdi síminn þegar hann var í matreiðslu í Hagaskóla. Maggi svarar í einhverjum prakkaraskap og þegar spurt er um húsvörðinn segir guttinn að það sé hann sem talar. Á línunni var sölumaður sem var að staðfesta pöntun á 90 rúllum af klósettpappír. „Maður á nú ekki að vera að segja frá þessu en ég sagði honum víst að eitt núllið hlyti að hafa dottið út. Okkur bráðvantaði 900 klósettrúllur og hvort hann gæti ekki komið þeim til mín í snatri. Ég frétti nú aldrei hvernig þetta endaði en þetta voru risastórar rúllur.“

Níu ára gamall fór Magnús Geir með hlutverk í kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar Hrafninn flýgur. Á þeim tíma var hann farinn að semja leikrit á fullu.

„Magnús Geir Þórðarson heitir 9 ára skólapiltur úr Melaskóla, sem hefur verið að dunda sér við að skrifa leikrit í frítíma sínum. Leikritin eru nú orðin 15 og verður eitt þeirra, „Keisarinn“, flutt á barnaskemmtun í tilefni 10 ára afmælis Flugleiða um næstu helgi,“ segir í frétt Helgarpóstsins í september 1983.

Leikhópurinn samanstóð af krökkum úr Vesturbænum og Magnús leikstýrði verkinu sem hann samdi sjálfur.

Magnús varð langyngsti leikhússtjóri landsins þegar hann og félagar hans settu á stofn Gamanleikhúsið árið 1985. Leikfélagið, sem samanstóð af Magnúsi og æskufélögum hans, setti upp fjölmargar sýningar, meðal annars í Gamla Bíói og Þjóðleikhúsinu.

Einstök leiðtogahæfni

Á menntaskólaárunum í MR tók Magnús Geir meðal annars þátt í starfsemi Herranætur en leiðtogahæfni hans kom enn og aftur í ljós þegar hann hlaut afbragðskosningu sem inspector scholae. Árni Oddur hafði einnig orð á því í fyrrnefndu viðtali við Morgunblaðið:

„Það sem einkenndi hann strax þegar hann fór í leiklistina var þessi leiðtogahæfni hans, að geta myndað hóp og fengið hann með sér í stór verkefni.“

Eftir stúdentspróf lá leið Magnúsar Geirs til Englands. Þar stundaði hann nám í virtum leiklistarskóla, Bristol Old Vic Theatre School. Að loknu námi í Englandi sneri Magnús Geir aftur heim og tók að sér starf verkefnastjóra hjá Leikfélagi Reykjavíkur, auk þess sem hann leikstýrði tveimur sýningum hjá Herranótt í MR. Hann stofnaði Leikfélag Íslands ásamt Pétri Blöndal og tveimur öðrum og settu þeir upp  leikritið Stone Free í Borgarleikhúsinu, sem varð mesta sótta leiksýning ársins með 26 þúsund áhorfendur.

„Ég held að kostnaður fram að frumsýningu hafi numið yfir tíu milljónum en það var mjög lærdómsríkt að fylgjast með Magnúsi vinna. Daglega hélt hann fund með öllum listrænum stjórnendum sýningarinnar sem voru formfastari en sjálfir ríkisstjórnarfundirnir, það fór enginn tími til spillis. Þarna áttaði ég mig fyrst á því að galdrar leikhússins felast ekki í því að fá leikara til að flytja texta á sviði. Það er öll umgjörðin sem skapar galdurinn og leyniformúla Magnúsar er að hafa auga fyrir því,“ rifjaði Pétur Blöndal upp í samtali við Frjálsa verslun árið 2014.

Magnús var leikhússtjóri Leikfélags Íslands næstu fimm árin en á meðal sýninga sem hann leikstýrði fyrir félagið í Iðnó voru Stjörnur á morgunhimni, Rommí, Leitum að ungri stúlku, Þúsund eyja sósa og Rúm fyrir einn. Þá leikstýrði hann óperunum Dídó og Eneas og Krýningu Poppeu í Borgarleikhúsinu og Sweeney Todd í Íslensku óperunni. Einnig leikstýrði hann sýningunum Veðmálið, Hedwig og Eldað með Elvis í Loftkastalanum, Stars in the Morning Sky í Edinborg og Vicious Circle í Bristol og London. Árið 2003 lauk hann meistaranámi í leikhúsfræðum frá University of Wales og MBA-námi frá HR 2005.

Guðrún Ásmundsdóttir leikkona fékk Magnús til að leikstýra sýningu sinni Heilagir syndarar árið 1998. Magnús Geir var þá 25 ára. Guðrún rifjaði upp þann tíma í samtali við Frjálsa verslun árið 2014.

„Hann var afskaplega ljúfur og þægilegur en mjög harður ef upp komu einhver vafaatriði. Ég var hissa á því hvað það var hörð lína undir ljúfu yfirbragði. Við sáum fljótt að við gátum ekkert spilað með þennan unga mann.Við leikararnir og reynsluboltarnir gátum ekkert tekið af honum völdin.“

„Ég á mér draum“

Magnús Geir var rétt orðinn þrítugur þegar honum bauðst að taka við starfi leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar. „Leikfélag Akureyrar á að verða það sem maður getur kallað alvöru „player“, sagði hann meðal annars í viðtali við DV í apríl 2004 og nokkrum mánuðum síðar sagði hann í viðtali við Fréttablaðið:

„Ég á mér þann draum að Leikfélag Akureyrar verði, eins og það hefur oft verið, frábært leikhús sem gefi því besta sem gerist á Íslandi og annars staðar í Evrópu ekkert eftir.“

Óhætt er að segja að áætlanir Magnúsar Geirs hafi gengið eftir en honum tókst á eftirtektarverðan máta að rífa starfsemina upp og snúa við gríðarlegum taprekstri á þeim fjórum árum sem hann starfaði hjá leikfélaginu. Setti hann upp gríðarlega vinsælar sýningar, svo sem farsann Fullkomið brúðkaup og söngleikina Oliver og Litlu Hryllingsbúðina. Aðsókn jókst gríðarlega, skuldir voru greiddar upp og varasjóður myndaður og fjöldi áskriftargesta margfaldaðist.

„Það er stundum eins og fólk haldi að það hljóti að gilda allt önnur lögmál um leikhús en önnur fyrirtæki, en það er alls ekki svo að mínu mati. Þetta er auðvitað öðruvísi „vara“ en önnur fyrirtæki framleiða, en það eru samt sömu grunnviðmið í stjórnun og rekstri,“ sagði Magnús Geir í samtali við Viðskiptablaðið árið 2008.

„Hann er ekki hræddur við að taka erfiðar ákvarðanir og skorast ekki undan því sem þarf til að ná árangri. Hann er ætíð meðvitaður um markmið hverju sinni og hvert leikhúsið eigi að stefna og keyrir starfsemina áfram út frá þeirri vissu,“ sagði Árni Oddur, bróðir Magnúsar Geirs, í samtali við Morgunblaðið á sínum tíma.

Undraverður viðsnúningur

Árið 2008 var tilkynnt að Magnús hefði verið ráðinn sem leikhússtjóri Borgarleikhússins. Og sagan endurtók sig: aðsókn í Borgarleikhúsið í leikhússtjóratíð Magnúsar varð sú mesta í sögu íslenskra leikhúsa. Það hafði ekki áhrif að sama vetur og Magnús Geir tók við starfi leikhússtjóra blasti við niðurskurður á opinberu framlagi til leikhússins vegna efnahagshrunsins. Búist var við að þetta myndi leiða til niðurskurðar á starfsemi leikhússins. Hinn nýráðni leikhússtjóri brást við með því að að auka sýningarhald enn frekar, sækja fleiri gesti og auka tekjur.

„Ég hef brýnt fyrir mínu fólki að gæta þess að við verðum ekki fangar eigin velgengni. Við erum ekkert að keppast við að auka enn aðsókn, enda má segja að þetta hús, með þennan sætafjölda, geti ekki annað meiru,“ sagði Magnús Geir í samtali við DV árið 2012.

Pabbahlutverkið það mikilvægasta af öllu

Magnús Geir er kvæntur Ingi­björgu Ösp Stef­áns­dótt­ur, for­stöðumanni mennta- og mannauðsmá­la Sam­taka iðnaðar­ins. Þau kynntust á Akureyri þegar Magnús Geir starfaði þar sem leikhússtjóri, en það var ekki fyrr en mörgum árum síðar að þau fóru að draga sig saman og urðu þau þá áberandi í menningarlífi borgarinnar. Ingibjörg átti þrjú börn fyrir en saman eiga þau synina Árna Gunnar, sem er fæddur 2013, og Dag Ara, sem er fæddur árið 2014. Magnús Geir var á fertugasta aldursári þegar hann eignaðist sitt fyrsta barn en í samtali við Fréttatímann árið 2014 sagði hann að pabbahlutverkið væri „það besta af öllu“: „Það var alveg komin uppsöfnuð löngun. Auðvitað setur þetta allt annað í samhengi.“ Magnús Geir og Ingibjörg giftu sig í Dómkirkjunni í Reykjavík í ágúst 2016 og buðu síðan til veislu í Borgarleikhúsinu.

300 milljóna viðsnúningur hjá RÚV

Árið 2014 var tilkynnt að Magnús Geir Þórðarson væri nýr útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins. Á þeim tíma höfðu verið mikil átök innan Ríkisútvarpsins, meðal annars vegna óánægju starfsfólks, áhorfenda og hlustenda með niðurskurðaraðferðir þáverandi yfirstjórnar. Við blöstu krefjandi verkefni, meðal annars að bæta bága fjárhagsstöðu RÚV. Magnús Geir greip meðal annars til þess ráðs að leigja út efri hæðir útvarpshússins við Efstaleiti og flytja skrifstofur yfirstjórnar niður á jarðhæð þar sem starfsemin fer að mestu fram.

Árið 2015 var tilkynnt að hagnaður Ríkisútvarpsins á tímabilinu 1. september 2014 til 31. ágúst það ár hefði numið 30,5 milljónum króna, samanborið við 271 milljónar tap á sama tímabili árið áður.

„Við höfum hagrætt eins og við getum miðað við þær kröfur sem gerðar eru til okkar í lögum og þjónustusamningi, en höfum reynt að hagræða frekar í umbúðum en innihaldi. Þá höfum við leigt út tæplega þrjú þúsund fermetra í húsinu og í vikunni seldum við byggingarrétt á lóðinni. Þetta hjálpar allt til, en félagið er enn mjög skuldsett. Við teljum okkur þó hafa gert það sem við getum gert til að vinna á þeim vanda,“ sagði Magnús Geir í samtali við Viðskiptablaðið á sínum tíma.

Í samtali við Viðskiptablaðið í mars síðastliðnum sagði Magnús útvarpsstjóri að árið 2018 hefði einkennst af grósku og nýsköpun í starfsemi RÚV. „Innleiðing nýrrar stefnu gengur vel og aukin áhersla á íslenskt efni og þjónustu við börn virðist falla í kramið hjá landsmönnum.“

Spennandi tímar framundan

Fyrr á árinu var ljóst var ráðningartími Ara Matthíassonar þjóðleikhússtjóra væri að renna út nú um áramótin. Í kjölfarið fóru að berast út sögusagnir þess efnis að Magnús Geir væri orðaður við stöðuna. Magnús Geir hafði þá verið endurráðinn útvarpsstjóri um áramótin eftir að hafa tekið við starfinu árið 2014, en í samtali við Fréttablaðið í apríl síðastliðnum blés hann á þennan orðróm: „Ég er í öðru krefjandi starfi núna. Það eru engin áform um breytingar á því enda fjölmörg spennandi verkefni fram undan.“ Í júlí síðastliðnum var hins vegar greint frá því að Magnús Geir hefði sótt um starfið, og sendi hann starfsmönnum RÚV orðsendingu þar sem hann tilkynnti þeim fréttirnar og sagðist meðal annars hafa fengið mikla hvatningu frá leikhúsfólki um að bjóða sig fram í stöðuna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Í gær

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“
Fókus
Í gær

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 2 dögum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Eiginmaður Katrínar segir þau hafa farið að rífast þegar þau hittust fyrst

Eiginmaður Katrínar segir þau hafa farið að rífast þegar þau hittust fyrst
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Uppnám á tónleikum Laufeyjar – Hundruð falsaðra miða í umferð og sviknir aðdáendur grétu

Uppnám á tónleikum Laufeyjar – Hundruð falsaðra miða í umferð og sviknir aðdáendur grétu
Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell