„Þetta er óhugnanlegt mál ef rétt reynist. Fólk sem þekkir til þessa heims er mjög slegið yfir þessu. Þetta er ekki bara vont fyrir þá sem starfa að heilun og þerapíu heldur hefur líka verið hringt til að spyrjast fyrir um þá sem vinna á ljósastofum og þvíumlíku.“ Á þessa leið hófst umfjöllun Helgarpóstsins þann 19. október árið 1995 um þekktan, íslenskan læknamiðil sem tvær konur kærðu til Rannsóknarlögreglu fyrir að beita þær grófu kynferðisofbeldi í valdi stöðu sinnar sem læknamiðill. Þeir sem eru ekki kunnugir starfi læknamiðla er því best lýst sem miðli sem tengir saman sjúklinga í raunheimi og lækna úr öðrum heimum, með það að leiðarljósi að lifandi sjúklingar fái bót sinna meina.
Helgarpósturinn nafngreindi ekki manninn, en honum var lýst sem rúmlega fertugum læknamiðli sem búsettur væri á höfuðborgarsvæðinu. Spjótin beindust þá að Erlingi Kristinssyni, landsþekktum læknamiðli og vinsælum á þessum tíma. Hann var hins vegar blásaklaus. Í viðtali við Helgarpóstinn sagði hann málið hafa haft mikil og erfið áhrif á hans fjölskyldulíf, auk starfa hans sem læknamiðill.
„Maður er hálfsjokkeraður eftir þessa frétt. Burtséð frá því hve illa hún kemur niður á læknamiðlum almennt eru ekki margir rúmlega fertugir læknamiðlar búsettir á höfuðborgarsvæðinu, – hvað þá margir þekktir. Kæra á nafnlausan rúmlega fertugan læknamiðil fyrir kynferðislega áreitni kemur því eðlilega illa við mig og fjölskyldu mína. Fólk fer að ímynda sér allskyns hluti,“ sagði hann við Helgarpóstinn. Þá hafði Erling starfað í faginu í ellefu ár, með prófgráðu úr virtum heilunarskóla í Bretlandi. Vegna námsins sagðist hann ávallt fara yfir siðareglur sem kenndar eru í Bretlandi.
„Líkt og fyrir hefðbundnum læknum var brýnt fyrir mér sem nemanda í heilunarfræðum á Bretlandi að halda trúnað við sjúklinga. Mjög strangar reglur eru um það til dæmis að karlkyns læknamiðill sé aldrei einn þegar hann meðhöndlar kvenkyns sjúkling.“
Þegar Helgarpósturinn grennslaðist frekar um læknamiðilinn kom ýmislegt upp á yfirborðið. Samkvæmt heimildarmönnum blaðsins úr dulspekiheiminum var honum lýst sem fúskara sem hefði orðið „læknamiðill á einni nóttu“. Mikið fór að bera á honum í nýaldarkreðsunni snemma árs 1995 og efaðist fólk innan kreðsunnar um miðilshæfileika hans. Þegar maðurinn var kærður var innan við ár síðan hann starfaði sem formaður sálarrannsóknarfélags úti á landi, en staldraði stutt við þar því honum lynti ekki við félagsmenn. Þá hermdu heimildir Helgarpóstsins að „óþægilegt ástarmál“ hefði einnig leikið stórt hlutverk. Auk þess fullyrti Helgarpósturinn að maðurinn hefði skilið eftir sig sviðna jörð í viðskiptalífinu áður en hann sneri sér að læknamiðlun. Var hann sagður einn þekktasti rúmasölumaður landsins, þó ekki af góðu einu. Hann var þekktur fyrir að biðja konur um að leggjast við hliðina á sér í rúmum og talaði um hve gott væri að stunda kynlíf í rúmunum. Þá rak hann einnig fiskbúð og pylsuvagn svo dæmi séu tekin. Í tímaritsviðtali sem birtist um það leyti sem hann sneri sér að dulspekinni hafði hann þetta að segja um fortíðina:
„Í hinum veraldlega heimi er ég búinn að tapa miklu, það er búið að svíkja mig, en mér er orðið alveg sama. Ég bið bara fyrir fólkinu, þetta skiptir mig engu máli því ég er að hefja nýtt líf.“
Þessi tiltekni læknamiðill hafði oft orð á því að Einar Jónsson á Einarsstöðum, einn virtasti miðill Íslands fyrr og síðar, starfaði í gegnum hann. Einar fæddist 5. ágúst árið 1915 að Einarsstöðum í Reykjadal og lést 24. febrúar árið 1987. Hann sinnti búskap fram yfir fertugsaldurinn en upp úr árunum 1955 til 1956 sneri hann sér að læknamiðlun. Hann sinnti þó búskapnum ávallt samhliða því og var talað um að bústörfin ættu hug hans og hjarta á daginn en á kvöldin fylltist biðstofan af sjúklingum í leit að hjálp. Sögurnar sögðu að Einar hefði aldrei þegið greiðslu fyrir störf sín sem læknamiðill og þannig skorið sig úr hópnum. Hann fékk vissulega aldrei beinar greiðslur en þáði sporslur hér og þar til að eiga í sig og á. Fjölmargir eiga góðar sögur af Einari á Einarsstöðum og því misbauð Sigurði Jónssyni, bróður Einars, að nafn bróður síns væri dregið niður í hringiðu kæra um kynferðisbrot. Í viðtali við Helgarpóstinn sagðist hann vita um nokkra sem notuðu nafn Einars til eigin framdráttar, en mál kærða læknamiðilsins væri grófasta dæmið.
„Ég ber mikla virðingu fyrir Einari bróður mínum og veit að hann hefði aldrei lagst eins lágt og þessi miðill þarna,“ sagði Sigurður. Í sama viðtali sagðist hann telja nýaldarstarfsemina algjört bull, ekkert annað en „gamlar lummur sem hitaðar hafa verið í örbylgjuofni í 15 sekúndur.“ Hann dró ekki lækningarmátt bróður síns í efa beinlínis en að sama skapi sagðist hann engar sannanir hafa fyrir honum.
„Á bak við hans störf blasir miklu fremur við sú staðreynd að trúin flytur fjöll; trúi maður nógu heitt á mátt lækninga að handan þá læknast maður. Ég held að lækingarmáttur Einars hafi verið fólginn í því að hann vissi ekki betur sjálfur,“ sagði hann og bætti við: „Einar var afskaplega ljúfur og skemmtilegur maður og ég hef þá trú að út á við hafi hann haft sefandi áhrif á fólk eða jafnvel náð að dáleiða það. Á ókunnuga virkaði Einar dulur maður, en það er vegna þess að hann var svo feiminn. Einar var svo ágætur maður. Þess vegna finnst mér voðalega leiðinlegt að misvel gert fólk skuli vera að misnota nafn hans. Ég vil bara að Einar fái að hvíla í friði fyrir þessum lýð. Hvað sem hver segir er ekki hægt að vekja fólk upp frá dauðum.“
Ekkert var fjallað um málið á sínum tíma nema í Helgarpóstinum. Blaðamaður blaðsins fékk það staðfest hjá Rannsóknarlögreglunni að tvær kærur væru á borði lögreglunnar vegna læknamiðilsins, en kærurnar voru ekki taldar „stóralvarlegs eðlis“ og að margar alvarlegri kærur bærust embættinu en þessar. Í sömu umfjöllun birti Helgarpósturinn nafnlaus viðtöl við konurnar tvær sem kærðu læknamiðilinn. Á frásögnum þeirra sést að málið var grafalvarlegt.
„Ég er niðurbrotin manneskja eftir samskipti mín við þennan mann, sem gefur sig út fyrir að vera læknamiðill. Í fyrstu virkaði hann á mig sem algjört eðalmenni en annað kom í ljós,“ sagði fyrri konan sem kærði miðilinn. Hún leitaði til hans eftir að hún sá hann í vinsælum sjónvarpsþætti, en hún glímdi við brjósklos í baki. Hún sagði fyrstu tvo tímana með miðlinum hafi lofað góðu.
„Hann heillaði mig strax í fyrsta tímanum þegar hann sagðist sjá að ég væri mjög veik í baki. Ég er nefnilega með brjósklos og hvernig átti hann svosem að vita það? Svo virkaði hann bara eitthvað svo blíður, var alltaf að taka utan um mig og kyssa mig; hann bar svo mikla umhyggju fyrir manni, að því er virtist í fyrstu,“ sagði hún. Það sló konuna hins vegar að hann notaði nudd til að lækna hana en það var ekki fyrr en í þriðja tímanum sem hann færði sig upp á skaftið.
„Hingað til hafði hann bara nuddað á mér bakið, en nú bað hann mig að leysa niður um mig buxurnar því hann þyrfti líka að nudda á mér mjaðmirnar til að vinna bug á bakverknum. Til þessa hafði ég mætt í venjulegum undirfötum, en fyrir þriðja tímann gafst mér ekki tími til að skipta um undirfatnað og var í fínum undirfötum. Án þess að það eigi eitthvað að koma málinu við í hvernig undirfötum ég er segir hann þegar ég er komin úr buxunum: „Nei, er mín bara í skvísunærbuxum?“,“ sagði konan. „Hann var allt í einu farinn að nudda á mér rassinn af miklum ákafa. Ég var þá ekki mikið að velta því fyrir mér hvort hann væri að áreita mig eða ekki, enda var hann enn mjög ljúfur að öðru leyti.“
Konan ákvað að þrjóskast við og mæta í fjórða tímann, þótt henni fyndist miðillinn ganga henni nærri. Í þeim tíma skipaði hann henni að fara bæði úr að ofan og neðan. Í þriðja tímanum hafði konan sagt miðlinum frá kynferðislegri misnotkun sem hún varð fyrir þegar hún var þriggja ára. Í fjórða tímanum spurði hann hana um kynlífið hennar um þær mundir, en hún sagðist alla tíð hafa átt erfitt með kynlíf sökum áfallsins í æsku.
„Í framhaldi af því tjáir hann mér að sjálfur sé hann kynferðislega sveltur heima fyrir. Þarna stóð mér orðið ekki á sama. Fyrr en varði var hann líka búinn að snúa mér við og farinn að nudda á mér brjóstin.“
Í lok tímans réðst maðurinn á hana.
„Áður en ég vissi var hann búinn að stinga tungunni upp í mig. Ég bara fraus. Næsta skref var að troða hendinni ofan í leggings-buxurnar mínar og í senn var hann með tunguna uppi í mér og kominn með puttann upp í leggöngin á mér. Þetta gerðist allt svo snöggt að ég náði ekki að ýta honum frá mér, en sem betur fer heyrðist þrusk þarna frammi þannig að hann kipptist við og ég rauk út.“
Seinni konan sem kærði gerði það í krafti kæru fyrri konunnar. Hún gat vart haldið aftur af tárunum þegar hún sagði Helgarpóstinum sína sögu.
„Hann útskýrði ekki hvernig hann ætlaði að framkvæma það, en vegna orkuleysis sem hrjáir mig sagðist hann þurfa að það sem hann kallar jarðtengja mig í gegnum kynfærin, eða leggöngin og endaþarminn, til að ég fengi orkuflæði niður í fæturna . Öðruvísi gæti ég ekki náð upp orku,“ sagði hún. „Hann sá hvað ég var slegin á svip en útskýrði þetta þó ekki nánar heldur mildaði það eitthvað, sagði að krem úr Dauðahafinu, sem hann ætti, myndi duga. Engu að síður sagðist hann nauðsynlega þurfa að bera kremið á svæðið milli legganganna og endaþarmsins, því þar væri orkustöð sem mikið flæddi úr. í trúgirni minni fer ég úr buxunum og hann byrjar að bera krem á lappirnar á mér og færir sig svo ofar. Síðan biður hann mig að snúa mér við. Vegna hræðslu við hann vissi ég vart hvað hann var að gera, en að minnsta kosti bar hann krem á mjög viðkvæma staði.“
Í fyrrnefndu viðtali við Erling Kristinsson sagði hann það í hæsta máti óeðlilegt að læknarmiðlar biðu fólk að fækka fötum.
„Í skólanum var einmitt lagt til að maður snerti ekki sjúklingana, en því eru ekki allir sammála. Sjálfur reyni ég að komast hjá því nema hvað stundum er nauðsynlegt að snerta axlir eða höfuð og í sumum tilfellum klappa ég á iljarnar á fólki. Allt fer það eftir því hvað læknarnir að handan leggja manni fyrir. En það er af og frá að fólki þurfi nokkru sinni að fara úr fötum.“
Sama ár, 1995, og árið eftir heyrðist ekkert meira af kærum á hendur læknamiðlinum. Má telja líklegt að málið hafi verið látið niður falla sökum þess að lögregluyfirvöld tölu kærurnar ekki „alvarlegar“.