fbpx
Laugardagur 15.ágúst 2020
Fókus

Hættulegt svelti í Hollywood – Borðaði bara epli og túnfisk: „Ég vissi að ég var á réttri leið ef ég var svangur“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 19. október 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stórmyndin Jókerinn hefur hlotið misjafna dóma en margir eru sammála um að Joaquin Phoenix eigi stórleik sem hinn seinheppni Arthur Fleck. Joaquin léttist um tæp 25 kíló fyrir hlutverk sitt í myndinni og hefur hlotið mikið lof fyrir, jafnvel komið af stað flökkusögum um Óskarstilnefningu.

„Nánast ómennskur, hann er svo grannur, húðin svo þröng yfir bakinu að sést í hryggjarsúluna og rifbeinin. Phoenix túlkar karakter sem er meira framandi og tilviljunarkenndari en áður hefur sést,“ stendur til að mynda í gagnrýni A.V. Club um myndina.

Joaquin Phoenix er mærður fyrir þyngdartapið og telja gagnrýnendur útlitsbreytingar hans spila stóra rullu í stórleik hans. Að sama skapi er leikarinn heillaður af þeim áhrifum sem þyngdartapið hafði á líf hans meðan á tökum stóð.

Bilaður Joaquin Phoenix ku standa sig ágætlega í hlutverki Jókersins.

„Það breytist allt þegar maður kemst í þá þyngd sem maður stefndi að,“ sagði Joaquin í viðtali við The Associated Press. „Það verður erfitt að vakna og maður fær nokkur grömm til og frá á heilann. Maður þróar með sér röskun. En ég held að það áhugaverða fyrir mig hafi verið tilfinning óánægju, hungurs, varnarleysis og veiklu sem ég hafði búist við með þyngdartapinu. En ég bjóst ekki við þeirri tilfinningu sem ég fann líkamlega sem er best lýst sem flæði. Mér fannst ég geta hreyft líkama minn á vegu sem ég gat ekki áður.“

Grínast með átröskun

Þá dásamaði hann þyngdartapið á léttu nótunum hjá spjallþáttastjórnandanum Jimmy Kimmel og bætti við að hann hefði forðast að horfa á sjónvarpið til að komast hjá því að sjá auglýsingar fyrir mat. Allt á léttu nótunum, líkt og um grín væri að ræða. Jimmy Kimmel hlóð einnig í ýmsar skrýtlur um þyngdartapið og þessa átröskun sem Joaquin var greinilega haldinn er hann bjó sig undir hlutverk Jókersins. Það virðist vera ákveðin lína dregin í sandinn um upplifun leikara annars vegar og leikkvenna hins vegar þegar kemur að dramatísku þyngdartapi fyrir kvikmyndahlutverk. Í grein á E! Online er því velt upp hvort þessi röskun sem Joaquin talar um hefði ekki verið rædd á talsvert alvarlegri nótum ef um leikkonu hefði verið að ræða, sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt rannsókn frá árinu 2011 voru átta milljónir manna í Bandaríkjunum með átröskun – sjö milljónir af þeim konur.

„Staðfesta“ og „metnaður“

Joaquin er langt frá því að vera fyrsti leikarinn sem talar um þyngdartap fyrir hlutverk á svo léttvægan máta. Það er ákveðin tilhneiging í Hollywood að hylla þá leikara sem ná að létta sig svo óhugnanlega mikið fyrir hlutverk og oftar en ekki fá þeir tilnefningu til fjölda verðlauna vegna „staðfestu“ og „metnaðs“ til að breyta útliti sínu á svo dramatískan hátt.

Bæði Matthew McConaughey og Jared Leto hlutu Óskarinn árið 2013 fyrir hlutverk sín í Dallas Buyers Club, þar léku bæði Matthew og Jared eyðnismitaða menn, sem áttu stoðir í raunveruleikanum. Því grenntust þeir mikið í tökuferlinu. Jared, sem alla jafna er grannur, léttist um fimmtán kíló og var rétt rúm fimmtíu kíló þegar hann var léttastur.

Óþekkjanlegur Matthew McConaughey í Dallas Buyers Club.

„Ég bara borðaði ekki neitt,“ sagði hann í viðtali við E! News og bætti við að þyngdartapið hefði verið nauðsynlegt. „Ég hafði gert svipaða hluti með þyngdina en þetta var öðruvísi. Það þurfti staðfestu í þetta hlutverk. Þetta snerist um hvaða áhrif þyngdin hefði á hvernig ég gekk, hvernig ég talaði, hver ég var, hvernig mér leið. Mér leið eins og ég væri brothættur, viðkvæmur og óöruggur.“

Matthew gekk skrefinu lengra og léttist um tæp 23 kíló. Hann sagði sjálfur að mataræðið sem hann fór eftir til að verða ríflega 65 kíló hafi verið afar strangt.

„Ég léttist um þrjú kíló á viku,“ sagði hann við Daily Mail. „Ég fékk mér Diet Coke, tvær eggjahvítur á morgnana, smá kjúkling og síðan aðra Diet Coke. Það var erfitt,“ bætti hann við. Þá æfði hann líka mikið meðan á tökum stóð til að brenna fleiri hitaeiningum.

Rúm fimmtíu kíló Jared Leto var bara skinn og bein.

Þrýstingur frá leikstjóra

Það er vinsælt stef hjá leikurum að halda því fram að þyngdartapið sé nauðsynlegt fyrir söguna og leikstjórar hvetja oft til þess að leikarar leggi mikið á sig til að umbreyta sér. Leikstjórinn Martin Scorsese vildi til dæmis að aðalleikararnir Andrew Garfield og Adam Driver í myndinni Silence frá árinu 2016 litu út eins og þeir hefðu gengið þrautagöngu. Það endaði þannig að Adam léttist um rúmlega tuttugu kíló og Andrew um rúmlega átján. Martin Scorsese lét hafa eftir sér að hungrið hefði gert frammistöðu þeirra í myndinni stórkostlega. Því var síðan ljóstrað upp í viðtali við E! News að sérstakur þjálfari hefði verið á tökustað til að kenna leikurunum að stjórna hungrinu.

Grannir Úr kvikmyndinni The Silence.

„Það er ekki gaman,“ sagði Andrew. „En þegar til lengdar lætur er það mjög, mjög ánægjulegt og fullnægjandi. Maður lærir mikið á því að tæma sig.“

Eitt epli og túnfiskdós

Leikarinn Jake Gyllenhaal léttist um tæp fjórtán kíló fyrir myndina Nightcrawler og uppskar lof fyrir. Hann leitaði sér ekki sérfræðihjálpar heldur hætti bara að borða. Hann tuggði tyggjó í gríð og erg til að blekkja líkamann.

Treysti á tyggjó Jake Gyllenhaal í Nightcrawler.

„Ég reyndi að borða eins fáar hitaeiningar og hægt var. Ég vissi að ég var á réttri leið ef ég var svangur,“ sagði hann í viðtali við Variety. „Árangurinn var sýnilegur líkamlega en þessi vegferð var enn meira heillandi andlega. Þetta varð að innri baráttu.“

Ókrýndur konungur þyngdartapsins í Hollywood er hins vegar Christian Bale. Óhugnanlegasta breyting á honum var án efa fyrir kvikmyndina The Machinist árið 2004, en fyrir hana léttist hann um tæplega þrjátíu kíló. Hann var aðeins 55 kíló þegar hann var sem grennstur.

„Það er stórkostleg reynsla að upplifa þetta,“ sagði hann í viðtali við The Guardian. „Maður öðlast skýra hugsun þegar maður er svo horaður að maður getur varla gengið upp nokkrar tröppur. Það er eins og maður yfirgefi líkamann.“

Mataræði hans á degi hverjum samanstóð af vítamínum, einu epli og túnfiskdós.

„Ég varð forvitinn að sjá, í mínu öfugsnúna eðli, hvort ég gæti farið lengra en það sem var öruggt og í lagi og sjá hvort ég gæti farið út fyrir mörkin,“ sagði Christian Bale enn fremur.

Óhugnanlegt Christian Bale í The Machinist.

„Ég sá bara bein“

Eins og sést var þyngdartapið í augum þessara leikara „áhugaverð“ og „spennandi“ tilraun. Það er hins vegar ekki raunin þegar leikkonur ganga í gegnum svipað ferli.

Black Swan-leikkonurnar Natalie Portman og Mila Kunis æfðu stíft og fóru eftir ströngu mataræði þegar þær undirbjuggu sig fyrir að túlka ballettdansara. Þær hafa báðar sagt að þetta ferli hafi tekið sinn toll, sér í lagi andlega.

Andlega erfitt Mila Kunis í hlutverki ballettdansara í Black Swan.

„Ég sá af hverju þessi iðnaður er svona brenglaður því ég horfði á mig í spegli og hugsaði: Guð minn góður. Ég er ekki með neinar línur, engin brjóst, engan rass,“ sagði Mila við Daily Mail. „Ég sá bara bein. Og ég hugsaði: Þetta er ógeðslegt.“

Hún sagði síðar í viðtali við Howard Stern að hún hefði léttust verið 43 kíló. Hún náði því með því að borða tólf hundruð hitaeiningar á dag og reykja sígarettur. „Ég mæli ekki með því. Þetta var hræðilegt.“

Natalie Portman hlaut Óskarinn fyrir hlutverk sitt í myndinni. Hún léttist um tæplega tíu kíló og sagði við EW að sumar nætur hafi hún haldið að hún væri að fara að deyja. Í viðtali við Daily Mail sagðist hún hafa borðað lítið sem ekkert og æft sextán klukkustundir á dag.

„Þetta var í fyrsta sinn sem ég skildi hvernig maður gat týnst í hlutverki og það eyðilagt þig.“

Eyðilögð Það tók á Natalie Portman að leika í Black Swan.

Logandi hrædd

Sumar leikkonur upplifa að slík umbreyting fyrir hlutverk geti ýtt undir átröskun eða komið á óheilbrigðu sambandi við mat. Lily Collins glímdi við átröskun á yngri árum og tók að sér hlutverk stúlku með lystarstol árið 2017 í kvikmyndinni To the Bone. Hún sagði í viðtali við Shape að hún hefði verið dauðhrædd við áhrifin sem myndin hefði á hennar eigin bata.

Á vigtinni Lily Collins í kvikmyndinni To the Bone.

„Ég var logandi hrædd um að hlutverk mitt í myndinni myndi þýða afturför fyrir mig persónulega en ég varð að minna mig á að ég var ráðin til að segja sögu, ekki að vera í ákveðinni þyngd. Að lokum var það gjöf að geta stigið til hliðar í sporin sem ég var í, en nú sem þroskaðri einstaklingur.“

Ógnvekjandi

Zoë Kravitz, sem er hvað þekktust í dag fyrir leik sinn í Big Little Lies, hefur einnig opnað sig um átröskun og það sem heillaði hana við að taka að sér hlutverk konu með lystarstol í kvikmyndinni The Road Within árið 2014.

„Ég glímdi við átröskun í miðskóla og fram á þrítugsaldurinn. Sá partur laðaðist að hlutverkinu. Ég held að það sé mikilvægt að tala um líkamsímynd og baráttuna við mat, sem margar konur heyja – sérstaklega í skemmtanaiðnaði. Ég tengdi við persónuna á margan hátt,“ sagði hún í viðtali við Nylon. Í viðtali við Complex sagði Zoë að hún hefði glímt við bæði lystarstol og lotugræðgi á yngri árum og kallaði þetta „hræðilega sjúkdóma“. Hún segir að farið hafi um foreldra hennar þegar hún grenntist fyrir hlutverkið í The Road Within en hún varð léttust aðeins fjörutíu kíló.

„Maður sá beinin í brjóstkassanum mínum. Ég var að reyna að grennast meira fyrir kvikmyndina en sá ekki að ég var búin að því og þurfti að hætta. Þetta var ógnvekjandi.“

Gamlir djöflar Zoë Kravitz glímdi við átröskun frá unga aldri.

Ekki afrek

Þessi umbreyting fyrir kvikmyndir virðist því hafa talsvert meiri og alvarlegri áhrif á konur en karla. Konur nota fremur orð eins og „ógnvekjandi“ og „hræðilegt“ þegar ferlinu er lýst. Einnig er umbreytingu þeirra ekki jafn stíft fagnað og karlleikaranna og því virðist það ekkert sérstakt afrek fyrir konur að breyta líkama sínum á svo dramatískan hátt. Burt séð frá því þá má ekki gleyma að átröskun er alvarlegur sjúkdómur sem hægt er að halda í skefjum og lækna. Ef grunur er um átröskun getur verið gagnlegt að byrja á að leita á heilsugæsluna. Þar getur heimilislæknir metið vandann og sent tilvísun í átröskunarteymið með samþykki sjúklings. Einnig er tekið við tilvísunum frá fagfólki innan og utan LSH, skólum og öðrum fagaðilum. Fólk getur einnig haft sjálft samband við átröskunarteymið með því að senda tölvupóst á atroskun@landspitali.is. Í kjölfarið hefur starfsmaður átröskunarteymis samband símleiðis og metur þörf fyrir beiðni um meðferð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 3 dögum

Netverjar hafa Samherja að háði og spotti – „Samherji vill að ALLIR viti að þeir séu hálfvitar“

Netverjar hafa Samherja að háði og spotti – „Samherji vill að ALLIR viti að þeir séu hálfvitar“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Logi Pedro selur hús í hjarta Reykjavíkur – Sjáðu myndirnar

Logi Pedro selur hús í hjarta Reykjavíkur – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Margir feður sem teldu það tómt rugl að hætta í skóla til þess að láta berja sig“

„Margir feður sem teldu það tómt rugl að hætta í skóla til þess að láta berja sig“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Antonio Banderas með COVID-19

Antonio Banderas með COVID-19
Fókus
Fyrir 1 viku

Hrafnhildur Gunnars: Áður fyrr óhugsandi að tvær lesbíur og tveir hommar myndu eignast barn saman

Hrafnhildur Gunnars: Áður fyrr óhugsandi að tvær lesbíur og tveir hommar myndu eignast barn saman
Fókus
Fyrir 1 viku

Góður undirbúningur skilar sér í vel heppnaðri útilegu

Góður undirbúningur skilar sér í vel heppnaðri útilegu