Fimmtudagur 20.febrúar 2020
Ekki missa afFókus

R. Kelly – skrímsli eða saklaus? Sakaður um barnaníð og ofbeldi: „Hann eyðilagði fullt af fólki“ – „Fyrir það brennur þú í helvíti“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 26. janúar 2019 20:00

Ásakanir dynja á R. Kelly.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Robert Sylvester Kelly þekkja flestir sem tónlistarmanninn R. Kelly sem á eitt vinsælasta lag tíunda áratugar síðustu aldar, I Believe I Can Fly, auk fjölmargra annarra R&B-slagara. Nánast allan hans feril hafa dúkkað upp ásakanir á hendur tónlistarmanninum um að hann girnist ungar stúlkar, allt niður í tólf ára gamlar. Hingað til hefur R. Kelly fengið að njóta vafans, líklegast vegna frægðar sinnar og þeim gríðarlegu fjárhæðum sem myndu tapast ef hann yrði læstur á bak við lás og slá. Ný heimildarþáttaröð í sex hlutum, Surviving R. Kelly, gæti hins vegar breytt því og hafa fjölmiðlar vestan hafs haldið því fram að saksóknari í Georgíufylki hafi tekið mál tónlistarmannsins upp og rannsaki nú meint brot söngvarans.

Í heimildarmyndinni segja fjölmargar konur sína sögu af tónlistarmanninum og hvernig þær hafi mátt þola ofbeldi af ýmsum toga. Einnig opnar fyrrverandi eiginkona hans, dansarinn Andrea Kelly, sig upp á gátt í þáttunum og lýsir svæsnu heimilisofbeldi sem hún bjó við þau þrettán ár sem hún var gift tónlistarmanninum.

Hætti ekki fyrr en hún fékk fullnægingu

Ungur R. Kelly.

R. Kelly fæddist þann 8. janúar árið 1967 í hverfinu Hyde Park í Chicago í Bandaríkjunum. Hann, ásamt þremur systkinum sínum, var alinn upp af einstæðri móður en þekkti föður sinn ekkert. Fjölskyldan bjó í félagslegu húsnæði og bjó við mikla fátækt. Samkvæmt frásögnum í ævisögu söngvarans frá árinu 2013, Soulacoaster: The Diary of Me, þurfti hann að þola gróft kynferðisofbeldi í uppvextinum. Einn af gerendum var fjölskylduvinur, maður sem bað R. Kelly um að fróa sér gegn greiðslu. Tónlistarmaðurinn þáði ekki það boð.

„Þetta var brjálæðislega skrýtin lífsreynsla,“ skrifar hann. „Kynferðisleg snerting – nei. Kynferðisleg sýn – klárlega. Hann sýndi mér getnaðarliminn sinn og allt,“ bætir hann við.

Í ævisögunni lýsir hann einnig kynferðislegri misnotkun sem varði í mörg ár, frá því hann var sjö ára og þar til hann var nærri fimmtán ára. R. Kelly lýsir gerandanum sem kvenkyns fjölskyldumeðlimi og að ofbeldið hafi byrjað þegar að hann sofnaði fyrir framan sjónvarpið ein daginn. Hann vaknaði við það að konan var að káfa á sér.

„Ég reyndi að ýta henni í burtu en hún stoppaði ekki fyrr en hún fékk fullnæginu. Þegar hún var búin sagði hún: „Þú skalt ekki segja neinum frá þessu því þá færðu rækilega flengingu,“ skrifar hann. „Ég man að mér leið skringilega. Ég man að ég skammaðist mín. Ég man að ég lokaði augunum eða hafði hendurnar fyrir þeim,“ heldur hann áfram og bætir við að þetta hafi gerst reglulega í öll þessi ár.

Í ævisögunni segir hann líka frá fyrstu kærustunni sinni, Lulu en þau felldu hugi saman þegar hann var átta ára gamall. Þau léku sér mikið saman og hétu því að vera kærustupar að eilífu. Sambandið endaði hins vegar á sorglegan hátt. Einn dag var hópur af krökkum að leika sér við læk og einhver ýtti Lulu í vatnið. Hún barst með straumnum á meðan hún öskraði nafn R. Kelly og stuttu síðar fannst hún látin.

R. Kelly hefur verið gríðarlega vinsæll tónlistarmaður um árabil í skugga ásakana um barnaníð.

Áminntur fyrir talsmáta

R. Kelly byrjaði að syngja með kirkjukórnum þegar hann var átta ára og var síðar virkur í kórnum í miðskólanum sínum Kenwood Academy. Þar fór hann undir verndarvæng goðsagnakennda tónlistarkennarans Lenu McLin sem kallar hann „tónlistarsnilling“ í heimildarþáttunum Surviving R. Kelly. Hún bætir hins vegar við að hann hafi verið áminntur fyrir talsmáta sinn í skólanum.

„Hann var mjög, mjög ofstopafullur,“ segir hún. „Líka þegar kom að kynferðislegum talsmáta. Við þurftum að ræða það og ég sagði að þessi talsmáti væri ekki viðeigandi í skólanum. Þetta væri ekki viðeigandi, punktur.“

R. Kelly er lýst sem feimnum krakka sem þorði varla að horfa í augun á fólki. Hann kunni hvorki að lesa né skrifa og var strítt á því. Þegar hann uppgötvaði hins vegar að hann væri tónlistarhæfileikum gæddur jókst sjálfstraustið og hann einsetti sér að ná frama í tónlistarheiminum. Hann tók þátt í hæfileikakeppni í skólanum og myndaði síðar strákasveitina MGM. Stóra tækifærið kom árið 1989 þegar strákasveitin keppti í hæfileikakeppninni Big Break í sjónvarpinu. R. Kelly hlaut hæstu peningaverðlaunin í þáttunum, eða hundrað þúsund dollara. MGM gaf út eitt lag árið 1990 og ári síðar fékk R. Kelly samning hjá Jive Records.

Hin tólf ára Aaliyah

Það má segja að tónlistarmaðurinn hafi fyrst komist á kortið árið 1992 þegar hann gaf út plötuna Born into the 90s í félagi við sveitina Public Announcement. Það má segja að lagið Honey Love hafi stolið senunni á þeirri plötu en lagið á enn sérstakan stað í hjörtum margra. Þetta samstarf varð þó ekki langlíft og ári síðar ákvað R. Kelly að fara sínar eigin leiðir. Sama ár kom fyrsta sólóplata kappans út, 12 Play. Á henni var að finna lagið Bump N‘Grind sem varð gríðarlega vinsælt og sat í tólf vikur í fyrsta sæti á Billboard Hot R&B-smáskífulistanum. Eftir útgáfu 12 Play varð R. Kelly eftirsóttur lagahöfundur og upptökustjóri og þannig komst söngkonan Aaliyah undir hans verndarvæng, en hún var aðeins tólf ára gömul þegar þau kynntust. Fyrsta platan hennar, Age Ain‘t Nothing But a Number, innihélt eingöngu lög eftir R. Kelly. Myndband við titillag plötunnar vakti mikla athygli, enda fjallar textinn um unga stúlku sem reynir að heilla eldri mann upp úr skónum. Var þetta fyrirboði fyrir það sem koma skyldi.

„Hún var enn svo ung. Hún var tólf ára,“ segir Jovante Cunningham í Surviving R. Kelly, en hún var bakraddasöngkona R. Kelly um langa hríð. „Við kenndum henni að vera listamaður þegar kom að nærveru. Við laumuðum henni út af hótelinu og fórum með henni úti um allt. Það var gaman. Við fórum með hana heim til pabba míns og við sungum og dönsuðum í stofunni. Aaliyah, ég og Tia urðum mjög nánar. Við vorum öll svo náin. Samband okkar var náið og á milli okkar myndaðist sterk vinátta. Þetta voru gömlu, góðu dagarnir. En þetta eru líka hlutirnir sem láta mann gráta,“ bætir hún við.

„Robert var að stunda kynlíf með Aaliyah“

Í heimildarmyndinni er einnig rætt við aðra fyrrverandi starfsmenn tónlistarmannsins sem segjast hafa spurt R. Kelly margoft hvort hann væri í sambandi við Aaliyah. Hann neitaði því staðfastlega en fjölmiðlar voru einnig farnir að velta þessari undarlegu vináttu fyrir sér vegna gríðarlegs aldursmunar. Það leið ekki á löngu þar til sannleikurinn kom í ljós. Það gerðist í rútunni sem hópurinn í kringum R. Kelly gisti í á tónleikaferðalagi.

Jovante Cunningham.

„Allt í einu opnaðist hurðin á rútunni. Robert var að stunda kynlíf með Aaliyah,“ segir Jovante þegar hún rifjar upp atvikið, tári næst. „Ég vil vernda Aaliyah og þess vegna get ég ekki sagt…,“ bætir hún við og heldur áfram. „Hann eyðilagði fullt af fólki. Eyðilagði fullt af fólki. Fullt af fólki sem elskaði og dáði hann og ég get ekki undirstrikað það nóg hvernig fólk þjáist enn tuttugu árum síðar.“

Árið 1994, þegar að R. Kelly var 27 ára og Aaliyah 15 ára, gengu þau í hjónaband. Starfsmaður tónlistarmannsins falsaði skilríki söngkonunnar til að láta líta út fyirr að hún væri átján ára. Hjónabandið var ógildað sama ár og sömdu báðir aðilar um að tala aldrei um þetta aftur.

Aaliyah og R. Kelly.

Hópur af nöktum stúlkum í hljóðverinu

Í fyrrnefndum heimildarþáttum segja fyrrverandi starfsmenn að R. Kelly hafi sótt stúlkur í gamla miðskólann sinn í Kenwood sem og heimsótt verslunarmiðstöðvar til að finna ungar stúlkur til að tæla. Konurnar sem lentu í tónlistarmanninum eiga það allar sameiginlegt að hafa stefnt á frama í tónlistarheiminum og hafi því talið það gott fyrir ferilinn að koma á sambandi við R. Kelly. Tónskáldið og upptökustjórinn Craig J. Williams lýsir lífsstíl R. Kelly í Surviving R. Kelly og segir að það hafi verið daglegt brauð að ungar stúlkur hafi gengið um fáklæddar, jafnvel allsnaktar, heima hjá honum.

„Ég fór í nokkur partí heima hjá Rob. Í ett skipti sem ég var þar fór ég niður í hljóðverið. Það stóð stúlka við hliðina á Rob og hún var nakin og að þukkla á rassinum sínum. Þetta er stór stjarna sem lifir þessu lífi. En þegar þú sérð þessar stúlkur, sem líta út fyrir að vera mjög ungar, þá varð þetta mjög vafasamt. Og ég kíkti ekki á nein skilríki og ég bað ekki um nein skilríki en maður sá klárlega að þetta voru bara börn. Og það var eitthvað sem ég vildi ekki vera í kringum,“ segir hann og lýsir ástandinu enn frekar.

„Það var svefnherbergi í aðalherberginu í hljóðverinu. Það voru stelpur alls staðar. Það var ung stúlka sitjandi og hún hlýtur að hafa verið á milli 15 til 18 ára – hún var táningur. Hún var ung. Ég veit ekki hvort þau voru saman. Þegar ég fór inn í annað herbergi var stúlka þar líka. Ljósin slökkt. Hún var að bíða. Í forstofunni var önnu stúlka. Ljósin slökkt. Hún var að bíða. Og ég sagði við Reed, viðskiptafélaga minn: Hvað í andskotanum er í gangi?“

„Hann stal lífinu mínu“

Söngkonan Tiffany Hawkins, sem tjáir sig ekki í heimildarþætti Lifetime, kærði R. Kelly árið 1996 og vildi tíu milljónir dollara í skaðabætur. Í dómsgögnum heldur Tiffany því fram að hún hafi hitt R. Kelly þegar hún var fimmtán ára en hann 24 ára. Hún segir að hún hafi stundað „óviðeigandi“ kynlíf með honum, bæði einsömul og í hópi við aðrar stúlkur undir lögaldri. Þá segist hún einnig hafa íhugað sjálfsvíg þegar að tónlistarmaðurinn hætti með henni. Sáttir náðust í málinu árið 1998 og fékk Tiffany við það 250 þúsund dollara í sinn hlut. R. Kelly hafnaði ásökunum með öllu.

Lizzette Martinez opnar sig upp á gátt í Surviving R. Kelly. Hún kynntist R. Kelly veturinn 1995 þegar hún var 17 ára, en hann 28 ára. Þau kynntust í verslunarmiðstöð í Miami og segir Lizzette að tónlistarmaðurinn hafi afmeyjað hana þrátt fyrir að hún hafi verið undir lögaldri. Að sögn hennar gekk R. Kelly fimm sinnum í skrokk á henni á meðan á sambandinu stóð, eða til ársins 1999.

„Ég var sautján ára þegar hann beitti mig líkamlegu ofbeldi í fyrsta sinn. Ég sagði hæ við einhvern sem ég átti ekki að segja hæ við eða ég horfði á einhvern sem ég átti ekki að horfa á. Þannig að honum mislíkaði það. Hann fór með mig út og sló mig og sagði: Þú átt bara að horfa á mig. Og ég skildi þetta ekki. Ég bara grét og sagði ókei. Og síðan gerði ég það framvegis því ég vildi ekki reita hann til reiði eða vera lamin,“ segir hún. Á meðan þau voru saman kvæntist R. Kelly dansaranum Andreu Kelly árið 1996. Lizzette segist ekkert hafa vitað af því og aðeins frétt það í gegnum fjölmiðla. Það var þó ekki ástæðan fyrir því að hún hætti með honum.

„Hann smitaði mig af einkirningasótt. Og sóttin breyttist í bólgusjúkdóminn Guillain-Barré þar sem líkaminn minn lamaðist allur og ég hafði það næstum því ekki af. Hann sendi móður minni ávísun upp á þúsund dollara. Ég var á gjörgæslu í tvær eða tvær og hálfa viku. Ég dó næstum því. Það var ekki hægt að finna uppi á honum. Besta vinkona mín var reið og sagði að ég ætti að hætta að hitta hann. „Þú ferð til hans eins og þú sért vændiskona.“ Orðin særðu en þetta var sannleikur. Ég varð sú manneskja sem ég vildi ekki verða. Hann stal lífinu mínu. Ég held að hann skilji ekki hve mikið áfall þessar lífsreynslur eru fyrir ungar, óharðanar, áhrifagjarnar stúlkur. Þær breyta þér að eilífu. Ég ákvað að ganga í burtu. Mig langaði ekki að vera fórnarlamb lengur,“ segir hún.

„Ég trúi í alvöru að hann haldi að hann sé Guð“

R. Kelly og Andrea kynntust þegar að hún fór í dansprufu fyrir tónleikaferðalag hans. Hún var virt í dansheiminum og fékk starfið. Hún segir að samband þeirra hafi verið mjög fallegt í upphafi, en þau gengu óvænt í það heilaga árið 1996.

„Ég sá blíðari hlið á honum. Ég myndi segja viðkvæmari hlið. Við komumst á þann stað að hann bað mig um að kenna sér að lesa. Hann gat opnað sig um móðurmissinn, um allt. Ég er mikill umönnunaraðili og hugsaði með mér: Ókei, ég ætla ekki að vera persónan í hans lífi sem horfir í hina áttina. Ég ætla ekki að vera manneskjan sem hlustar ekki á söguna hans. Ég ætla að vera sú manneskja sem elskar hann sama hvað. Þetta var mjög fallegt í byrjun. En ég vissi ekki að þetta væri lognið á undan storminum,“ segir Andrea, eða Drea eins og hún er kölluð, í heimildarþáttunum. Hún komst fljótt að því að R. Kelly var ekki draumamaðurinn sem hún hélt að hann væri.

R. Kelly og Andrea þegar að sambandið virtist vera í blóma.

„Þú verður ástfangin af sjarmörnum. Þú verður ástfangin af breiskleikanum. Og hægt og rólega sýnir hann sínar réttu hliðar. Hann er stjórnsamur. Ég þurfti að kalla hann pabba. Það voru eftirmálar ef ég kallaði hann ekki pabba. „Ég stjórna því sem þú gerir, með hverjum þú gerir það, hve lengi þú gerir það, með hverjum þú ert, í hverju þú ert, hvenær þú borðar, hvenær þú sefur.“ Ég trúi í alvöru að hann haldi að hann sé Guð.“

Stóra kynlífsmyndbandamálið

Árið 2000 hóf lögreglan í Chicago rannsókn á R. Kelly vegna annarra kynferðisbrota en rannsókn var hætt vegna ónægra sannanna. Á þessum tíma áttu R. Kelly og Andrea tvö börn, þau Joann, fædd 1998 og Jay, fæddur 2000. Ári síðar er blaðinu Chicago Sun Times sent myndband þar sem R. Kelly sést stunda kynlíf með stúlku undir lögaldri. Myndbandið var sent til lögreglu sem gat ekki staðfest aldur stúlkunnar á myndbandinu og náði rannsókninni ekki lengra. Árið 2002 kom stóra bomban þegar að annað kynlífsmyndband var sent til Chicago Sun Times. Á því sást R. Kelly stunda kynlíf með fjórtán ára stúlku. Stúlkan og foreldrar hennar hafa staðfestlega neitað að þetta sé í raun hún, en frænka stúlkunnar, Sparkle, var bakraddasöngkona R. Kelly. Hún tjáir sig í heimildarþáttaröðinni, en hún kynnti frænkuna fyrir R. Kelly þegar að frænkan var aðeins tólf ára gömul. Stúlkan var efnilegur rappari og datt Sparkle í hug að R. Kelly gæti hjálpað henni á tónlistarbrautinni.

„Ég hélt að ég hefði skilið frænku mína eftir í góðum höndum. En að hugsa sér fullorðinn mann hangandi með ungum stúlkum,“ segir Sparkle og bætir við að hún hafi oft komið í hljóðverið og komið að R. Kelly einum með frænku sinni. „Mér leið eins og ég hefði ekki átt að kynna þau fyrir hvort öðru.“

Vissi ekki að hún væri 14 ára

Lisa Van Allen lýsir einnig sambandi ungu stúlkunnar við R. Kelly, en Lisa var dansari sem kynntist R. Kelly þegar hún var sautján ára. Í myndinni segist hún hafa farið í trekant með tónlistarmanninum og ungu stúlkunnu, en jafnframt að R. Kelly hafi logið til um aldur ungu stúlkunnar.

„Þegar við komum heim til hans var ung stúlka þar og hann kallaði á hana. Hann sagði mér að hún væri sextán ára og að hún væri nágranni hans. Hann orðaði það eins og hann vildi prófa eitthvað nýtt. Þið vitið, með henni. Við fórum öll inn í líkamsræktarherbergið og allt Space Jam-dótið var hangandi á veggjunum. Hann náði í ferðabedda úr einu herbergjanna. Hann náði í hann og lagði hann á gólfið. Hann náði í upptökuvél og þrífót og ég byrjaði að gráta þegar við stunduðum kynlíf. Mig langaði ekki að gera þetta og hann komst í uppnám. Hann sagði: Hvað á ég að gera með þetta? Ég get ekki horft á þetta ef þú ert grátandi. Honum var sama þó ég gréti. Hann var í uppnámi því hann gat ekki horft á þetta aftur ef ég var grátandi. Hann leikstýrði mér í gegnum þetta allt. Hann sagði: Lee-lee, leggstu niður. Hann lét okkur hafa munnmök með hvorri annarri. Hann hafði mök við okkur báðar. Hún virtist vita hvernig þetta virkaði án þess að hann þyrfti að segja henni mikið til. Hann var meira að leikstýra mér. Og mér fannst eins og þau hefðu gert þetta áður. Þegar við vorum búin stóð hún upp og fór inn á baðherbergi og var þar þangað til við fórum,” segir Lisa og segir þetta ekki hafa verið eina skiptið sem þau stunduðu kynlíf með stúlkunni.

„Við gerðum það líka í hjólhýsinu hans þegar hann var að taka upp tónlistarmyndband. Annað skiptið var í Colorado-herberginu, sem er í kjallaranum. Hann tók okkur líka upp þar,“ segir hún. „En ég vissi ekki að hún var fjórtán ára á þessum tíma. Ég meina, ég þekkti ekki þá hlið á honum.“

„Hvernig dirfistu?“

Chicago Sun Times afhentu lögreglu myndbandið og leiddi það loks til þess að gefin var út ákæra á hendur R. Kelly í 21 lið er vörðuðu allir vörslu barnakláms. Hann sagðist vera saklaus. Sparkle, frænka stúlkunnar á myndbandinu, var kölluð á skrifstofu Chicago Sun Times til að staðfesta að þetta væri í raun frænka sín.

Skjáskot úr kynlífsmynbandinu.

„Þetta var klárlega hún. Og þetta var tvímælalaust hann. Þetta ásækir mig enn. Þetta átti ekki að gerast. Ég hefði aldrei átt að kynna hana fyrir honum. Hvernig dirfistu? Hvernig dirfistu?“ segir Sparkle og bætir við að myndbandið hafi rústað fjölskyldu hennar, stíað henni í sundur.

Fyrrnefnt myndband komst í heimspressuna og var sjóræningjaeintökum af því dreift um allar trissur. Á myndbandinu sást hann meðal annars pissa á stúlkuna, en til marks um hve lítið mark var tekið á alvarleika myndbands hefur margoft verið gert grín að myndbandinu í dægurmálamenningu.

Fæddi barn um leið og eiginmaðurinn var handtekinn

R. Kelly var handtekinn í Flórída árið 2003 og lögreglan gerði myndavél upptæka sem hann hafði í fórum sínum. Á myndavélinni ku hafa verið fleiri klámfengnar myndir af börnum. Stuttu fyrir handtökuna lýsir fyrrverandi eiginkona hans atburðarrásinni sem átti sér stað.

„Hann setti mig upp í rútu um miðja nótt, sagði mér ekki af hverju við værum að fara, hvert við værum að fara. Hann sendi mig til Flórída og ég gisti í einhverju húsi. Ég vissi ekkert hvað væri í gangi. Það voru öryggisverðir við dyrnar og enginn sagði mér neitt. Af hverju var ég hér? Af hverju yfirgáfum við Illinois? Ég var ólétt, ég átti að hitta lækni einu sinni í viku. Ég átti ekki að vera að ferðast. Hvað var í gangi? Enginn vildi segja mér neitt. Ég var bara brotin,“ segir Andrea. Álagið varð svo mikið að setja þurfti fæðinguna af stað, en hún gekk með þriðja barn þeirra hjóna undir belti eins og áður segir. Óvíst var hvort barnið myndi hafa fæðinguna af.

„Ég man að ég varð svo ástfangin af litla Rob því hann kom út svo sterkur, en ég var undir svo miklu álagi að það hafði sett líf ófædds barns míns í hættu. Af því að ég var þarna alein á Flórída. Ég þekkti engan og var bara með bestu vinkonu mína með mér. Síðan þurfti að hringja í tíu manns til að fá hann [R. Kelly] í símann. „Herra Kelly. Vissurðu að fæðingin var sett af stað? Hún var að eignast litla Rob.“ Hann sagði að hann væri að koma, en ég vissi ekkert hvar hann var. Og ég þá gerðist þetta, daginn sem hann fæddist,“ segir hún og bætir við að fæðingardagur barnsins hafi verið dagurinn sem R. Kelly var handtekinn.

„Ég sat þarna með barnið og fréttirnar komu á sjónvarpsskjáinn: „R&B-söngvarinn R. Kelly hefur verið handtekinn vegna vörslu á barnaklámi.“ Ég man að besta vinkona mín var með mér og hún sagðist ekki vita hvað gerðist. En líkami minn varð slappur og hún sagðist hafa gripið litla Rob áður en hann datt á gólfið. Og ég man eftir skæru hljóði, líkt og ég væri búin að missa heyrn. Og ég hofði á sjónvarpsskjáinn og þeir sýndu nafnið hans og lögregluna og ég man ekki mikið eftir það.“

Andrea ásamt börnunum þremur sem hún á með R. Kelly.

„Það þýðir að ég get þjálfað þig og tekið meydóminn þinn“

Þegar að réttarhöldin hófust söfnuðust ungar stúlkur saman, aðdáendur tónlistarmannsins, og studdu sinn mann. Trúðu ekki þessum ásökunum. Sögðu hann vera saklausan og þetta væri leið óprúttinna aðila til að sverta mannorð hans. Konurnar sem höfðu ásakað hann um kynferðisbrot voru kallaðar gullgrafarar. Ein af þessum aðdáendum var hin fjórtán ára Jerhonda Pace sem komst í kynni við söngvarann. Tveimur árum síðar bauð hann henni heim til sín í teiti.

„Hann greip í mig og við byrjuðum að kyssast. Hann káfaði á brjóstunum mínum. Ég stoppaði hann og sagði: Ég er hrein mey. Og hann sagði: Það er fullkomið. Það þýðir að ég get þjálfað þig og tekið meydóminn þinn. Þá byrjaði hann að veita mér munnmök. Og hann sagði mér að gera það sama við sig. Bara munnmök,“ segir Jerhonda. Að sögn hennar varði samband þeirra í nokkra mánuði, en að hún hafði bundið enda á það eftir atvik sem gerðist í janúar árið 2010. Þá kom R. Kelly að henni þar sem hún var að senda vini sínum smáskilaboð.

„Hann sló mig, hélt mig hálstaki og hrækti á mig,“ segir hún. Jerhonda kærði R. Kelly til lögreglu en samið var um málið án réttarhalda. Það er langt frá því að vera eina málið gegn R. Kelly sem hefur farið þá leið í dómskerfinu og hlaupa samningar lögfræðiteymis hans við konur sem segja hann hafa brotið á sér á tugum.

Íhugaði sjálfsvíg

Réttarhöldunum í máli R. Kelly var sífellt frestað, eða allt þar til ársins 2008 þegar hann var fundinn saklaus, þrátt fyrir sannfærandi vitnisburð ýmissa aðila og sterk sönnunargögn. Á meðan á dómsmálinu gekk hélt R. Kelly áfram að gefa út tónlist og vinsældir hans dvínuðu lítið sem ekkert. Ári síðar gekk skilnaður Andreu við tónlistarmanninn í gegn. Hún segir hann ávallt hafa neitað öllu því sem hann var sakaður um í gegnum tíðina.

„Ég gerði mér loks grein fyrir að þetta verður ekki betra. Þetta verður bara verra. Ég átti lítil börn. Þau þurftu nú þegar að kljást við föður sem var alltaf í fréttum, sem stóð í dómsmáli er varðaði barnaníð og börn. Og ég man að ég fór út á svalir og klifraði upp á silluna. Ég hugsaði: Guð, ég þoli ekki annan dag. Ég get þetta ekki lengur. Hann hafði farið með mig á stað þar sem ég var tilbúin að yfirgefa börnin mín. Ég bað til Guðs og bað hann um merki. Eitthvað sagði mér að ná í fartölvuna mína og ég skoðaði forvarnarsíðu vegna heimilisofbeldis. Og þar voru sautján spurningar. Það var aðeins tvennt á þeim lista sem Robert hafði ekki gert mér. Þá varð þetta raunverulegt fyrir mér. Drea, það er verið að beita þig ofbeldi,“ segir hún.

„Því pabbi þeirra nauðgar litlum stúlkum“

Hún bætir því við að hún geti ekki tjáð sig um allt sem hún gekk í gegnum því það sé einfaldlega of sársaukafullt. Hún segir þó að R. Kelly hafi stjórnað lífi hennar, ekki leyft henni að fara út úr húsi án leyfis, einangrað hana frá fjölskyldu sinni og fleira í þeim dúr. Loks kom að því að hún flúði heimili sitt.

„Ég var eins og hver önnur kona daginn sem ég yfirgaf Robert. Ég hljóp í burtu um miðja nótt með þrjú börn. 2500 dollarar, taska, börnin mín þrjú og ekkert annað. Hann átti allan peninginn. Ég hugsaði: Hvert ætlarðu að fara með þrjú börn? Og engan pening. En ég vildi frekar deyja vitandi að ég hafði reynt að komast frá honum en að deyja í þessu húsi því ég hafði ekki hugrekki til að fara.“

Andrea sendir jafnframt skýr og átakanleg skilaboð til fyrrverandi eiginmanns síns í Surviving R. Kelly.

„Robert, þú veist hvað þú gerðir. Þú veist hve mikla ringulreið þú skapaðir í lífi barnanna okkar. Þú eyðilagðir jól, afmæli, útskriftir. Það er þér að kenna Robert að börnin mín máttu ekki sitja með hinum börnunum í hádegismatnum. Því pabbi þeirra nauðgar litlum stúlkum. Þú getur neitað því eins og þú vilt. En fyrir það brennur þú í helvíti.“

„Öllum var sama því við vorum svartar stúlkur“

Frá því að R. Kelly var sýknaður af öllum ákærum um barnaklám liðu fjögur ár án frekari fregna af tónlistarmanninum. Árið 2013 ákvað síðan blaðamaðurinn Jim DeRogatis að halda áfram að grennslast fyrir um meint brot tónlistarmannsins, en Jim var meðal þeirra sem birtu fyrstu fréttirnar um þrá R. Kelly í ungar stúlkur hjá Chicago Sun Times. Jim ákvað enn fremur að birta allt sem hann hafði skrifað um söngvarann í gegnum tíðina á netinu, opið fyrir alla að lesa. Í framhaldinu fór R. Kelly í viðtöl hjá New York Magazine og GQ þar sem gengið var á hann um þessar ásakanir. Enn neitaði R. Kelly staðfastlega.

R. Kelly í réttarsal.

Það var svo árið 2017 sem R. Kelly komst enn á ný í fréttirnar, eftir að fyrrnefndur Jim birti grein á Buzzfeed þar sem því var haldið fram að tónlistarmaðurinn héldi sex ungum stúlkum föngnum á heimili sínu. Var hann sakaður um að hafa búið til sértrúarsöfnuð sem snerist eingöngu um kynlíf. Enn neitaði R. Kelly en í heimildarþáttaröðinni Surviving R. Kelly er rætt við foreldra ýmissa stúlkna sem eru enn í haldi tónlistarmannsins. Heimildarmyndin hefur einmitt hreyft við mörgum og hafa fjölmargir tjáð sig á samfélagsmiðlum um tónlistarmanninn undir kassamerkjunum #muterkelly og #survivingrkelly. RCA Records rifti samningi við tónlistarmanninn eftir að þættirnir voru sýndir, sem og Universal Music Publishing Group. Í þáttunum er því velt upp hvort ásakanir á hendur R. Kelly hefðu verið litnar alvarlegri augum ef um hvítar stúlkur hefði verið að ræða.

„Öllum var sama því við vorum svartar stúlkur,“ segir eitt fórnarlamb hans í þáttunum. „Þetta snýst um fullorðinn mann sem notaði völd sín, frægð og peninga til að kerfisbundið gera lítið úr litlum, svörtum stúlkum,“ bætir önnur við.

Nú virðast öll sund lokuð fyrir R. Kelly. Fjölmargar konur hafa stigið fram í krafti #metoo-byltingarinnar og saksóknari hefur ákveðið að skoða betur þær fjölmörgu ákærur sem hafa dúkkað upp í gegnum tíðina. Því er alls kostar óvíst hvort R. Kelly nær að halda fluginu mikið lengur, en tíminn verður að leiða það í ljós.

Er loksins komið að skuldadögum hjá R. Kelly?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Lítt þekkt ættartengsl – Verðlaunadís og stjórnmálarýnir

Lítt þekkt ættartengsl – Verðlaunadís og stjórnmálarýnir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Davíð Þór: Alltaf að hlusta á mömmusín

Davíð Þór: Alltaf að hlusta á mömmusín