Söng- og leikkonan Unnur Eggertsdóttir hélt til New York í leiklistarskóla að elta drauma sína árið 2014. Unnur hlaut inngöngu í alla þrjá skólana sem hún sótti um og veglegan skólastyrk þar að auki. Við útskrift í The American Academy of Dramatic Arts var Unnur heiðruð sem besta leikkona árgangsins.
Unnur var gestur Dóru Júlíu í útvarpsþættinum Radio J´adora á Útvarpi 101 en þar ræddi hún fjölbreyttar áheyrnarprufur sem hún hefur sótt í gegnum tíðina. Hún segir þær þó ekki alltaf fyndnar eða jákvæða upplifun. „Ég fór í prufu fyrir bíómynd og mér var rétt handrit með nýrri senu sem ég átti að leika á staðnum.“
Í prufunni voru aðeins karlar að fylgjast með. „Þetta var sena sem gerðist í draumi aðalleikarans og ég lék kærustu hans. Hann er að dreyma mig að sofa hjá einhverju skrímsli. Ég átti að öskra, bara eins og í klámmynd og allt átti að stigmagnast. Þetta var ekki í handritinu sem ég fékk upphaflega en þeir sögðust hafa bætt þessu nýverið við. Ég sagði bara „nei strákar mínir“. Ég var brjáluð og labbaði út. Ég tilkynnti þá á síðunni sem áheyrnarprufurnar voru auglýstar og sagði að þeir væru bara að fokka í ungum leikkonum.“
Hlaðvarpið má heyra í heild sinni að neðan.