fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

„Áreitnin er síðustu dauðateygjur þeirra til að toga mig niður“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 20. maí 2019 20:00

Margrét Erla Maack. Mynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Erla Maack hefur verið í sviðsljósinu á sjónvarpsskjáum og skemmtunum landsmanna í fjölda ára. Starfstitlarnir í dag eru fjölmargir: skemmtikraftur, veislustjóri, danskennari, plötusnúður, karókískrímsli og sprellikerling og í haust bætist nýtt hlutverk við, en Margrét á von á sínu fyrsta barni í lok september.

Blaðamaður fór og hitti Margréti á Mokka kaffi, þar sem hún tók á móti henni ólgandi af krafti og áhuga og það er farið að sjá á henni að hún er ekki kona einsömul. Margrét er skemmtileg og talar hratt, alvön að veita viðtöl og segja frá og greinilegt að hún á marga vini og kunningja en svo hefur það ekki alltaf verið.

„Ég var ekki rosavinsæl í grunnskóla, en ég fór nokkrum sinnum til útlanda í alþjóðlegar sumarbúðir á vegum CISV og það hjálpaði mér að komast í gegnum grunnskólann að sjá að heimurinn er stærri en 7. bekkur Austurbæjarskóla, og milli tvítugs og þrítugs fór ég þrisvar út með börn á vegum CISV og gaf þannig til baka,“ segir Margrét. Aðspurð hvort hún hafi lent í einelti í grunnskóla, svarar hún neitandi. „Orðum það frekar þannig að þau hafi ekki fattað hvað ég er skemmtileg. Ég átti alveg góða vini og vinkonur. En það var fólk sem var opinberlega illa við mig og svona hatursfélög. Þetta hefur ekkert gert mér nema gott og ég vil bara nota tækifærið til að þakka þeim kærlega fyrir mótlætið. Þetta sýndi mér líka að það þurfa ekki allir að fíla mann, þetta var erfitt á þessum tíma, en ég er þakklát fyrir þetta í dag.“

Með margt á prjónunum Margrét á Mokka. Mynd: DV/Hanna

Herranætur og heilahimnubólga

Að loknum grunnskóla ákvað Margrét að fara í MR, og segir hún að mesti hvatinn hafi verið að enginn úr Austurbæjarskóla fór þangað. „Ég var búin að fara á sýningar á Herranótt, þar sem eldri frændi minn og uppeldisbróðir, Ólafur Egils, var í MR. Ég heillaðist af félagslífinu í MR og fann mína rödd svolítið þar. Ég var í nollabekk og í nokkur ár var ég tossinn í bekknum, þar sem ég var svo mikið í félagslífinu og mátti lítið vera að því að sinna náminu. Á lokaárinu tók ég mig á, en fékk heilahimnubólgu í janúar/febrúar rétt fyrir útskrift þannig að þrátt fyrir að ég hefði tekið mig á skilaði það sér ekki í einkunnum, sem var svolítið leiðinlegt.“

Margrét tók þátt í sýningum Herranætur öll árin í MR, var í stjórn í eitt ár og segir MR hafa verið ótrúlegan skóla. Hún fagnar því að í dag sé horft á hvað stúdentar hafi gert í félagslífinu þegar þeir sækja um atvinnu, hvort þeir hafi komið að skólablaðinu, kunni að gera fjárhagsáætlun og annað slíkt. „Það er gleðilegt að það sé orðinn stór hluti af því sem skoðað er í fari fólks.

Eftir MR ætlaði ég í leiklist eða eitthvað tengt leik- eða sýningarstjórn. Svo komst ég ekki inn í leiklistarskólann og fór að læra ensku í Háskóla Íslands. Síðan komst ég inn í sýningarstjórnun í breskum skóla, á þeim tíma var ég með breskan kærasta, og þetta hékk saman, að ég gæti búið hjá honum af því skólinn var dýr. Svo lauk því sambandi og draumnum um skólann líka. Þannig að örlögin hafa valdið því að ég er eins og ég er hér í dag.“

Lífsglöð Margrét hefur erft lífsgleðina frá ömmu sinni. Mynd: DV/Hanna

Skemmtileg störf komu í veg fyrir útskrift

Sambandsslitin við þann breska voru ákveðinn vendipunktur og langt var í að Margrét myndi klára BA-námið í enskunni. „Ég var búin að hjakka í náminu í þrjú ár og frekar langt í að ég myndi klára. Ég var að blogga á þessum tíma og maður hjá Iceland Express hafði samband við mig, sagði að ég væri skemmtilegur penni og bauð mér vinnu við að skrifa fyrir fyrirtækið. Ég var líka að vinna í Þjóðleikhúsinu við að selja kaffi í hléum, spila sem plötusnúður og kenna dans í Kramhúsinu. Þannig að það var rosalega lítill tími fyrir námið því öll störfin mín voru svo skemmtileg!“ segir Margrét.

Rauði þráðurinn Margrét við undirgöng Kramhússins, sem hún segir rauða þráðinn í gegnum allt. Mynd: DV/Hanna

Drottning kynnist kabarettsenunni

Í sömu viku og sá breski hvarf úr lífi Margrétar kom happdrættisvinningur frá Háskóla Íslands í hendur hennar. „Ein milljón var mikill peningur fyrir 23 ára konu. Ég sá fyrir mér að ég þyrfti ekki að vinna um sumarið eins og alltaf þannig að ég fór að skoða hvort ég gæti verið í New York, en ég hafði heimsótt borgina einu sinni áður og fannst hún geggjuð.“

Svo heppilega vildi til að Margrét hafði flutt karókíhóp frá borginni inn nokkrum mánuðum áður og átti því fjölda vina í New York og einn þeirra var að fara í Evrópureisu og leigði Margréti herbergið sitt í þrjá mánuði. Margrét fór á uppistandssýningar og karókí, fór í masterclass-tíma í magadansi og kynntist fjölda kabarettlistafólks. Þeirra á meðal var Reggie Watts, sem starfar í dag sem hljómsveitarstjóri í þáttum James Corden, The Late Late Show.

„Þetta tímabil var fullkomið, dollarinn var 80 krónur og ég lifði eins og drottning og var að fíla mig í tætlur. Watts spurði hvort ég væri eitthvað að sýna úti og þegar ég sagðist ekki vera með leyfi til þess, þá sagði hann að það væri alveg horft fram hjá því í þessum bransa, ef það væri í stuttan tíma og ég væri með flugmiða heim,“ segir Margrét sem var ráðin í tvær vikur á Box, stórum, þekktum og vinsælum kabarettstað. „Þar kynntist ég heimi sem ég vissi ekki að væri til, dragheiminum, fullorðinssirkus og fleira. Þarna kynntist ég fólki sem varð nokkrum árum seinna risastór nöfn, eins og Lady Gaga sem ég hoppaði upp úr köku með. Eitt kvöldið var ég látin leysa af, sett í pínubrækur og brjóstadúska og ég blés flórsykri yfir mini Marilyn Manson og ég hugsaði að þetta væri það skemmtilegasta sem ég hefði gert. Ég sá að það er hægt að eiga stórkostlegt líf með því að skemmta í 20 mínútur á kvöldi. Þetta breytti gjörsamlega lífi mínu.“

Kaupmannahöfn Margrét í nýafstöðnum Evróputúr. Mynd: Gaia Micotovich

Sirkussenan á Íslandi verður að veruleika

Í lok sumarsins langaði Margréti ekki heim, var miður sín að vera að yfirgefa klúbba- og kabarettsenuna og var grátandi í kveðjupartíinu sínu. Vinir hennar stöppuðu í hana stálinu og sögðu hana vera að hugsa þetta rangt. „Þú ert með tækifærið sem við vildum óska að við hefðum. New York verður alltaf hérna fyrir þig. Þú ferð heim til Íslands og býrð til þína rödd þar, sögðu þau við mig og eftir að ég fór heim höfðu þau reglulega samband og spurðu hvort ég væri byrjuð,“ segir Margrét, sem gerði ekkert fyrr en hún sá auglýsingu um ókeypis sirkustíma á sunnudögum í Kramhúsinu.

„Þetta er fólkið,“ hugsaði ég og úr þessum hópi varð Sirkus Íslands til, sem Lee Nelson stofnaði. Ég vann með þeim í tíu ár og við bjuggum líka til fullorðinssirkusinn Skinnsemi, sem ég er ofboðslega stolt af að hafa komið að,“ segir Margrét, sem þó hætti til að sinna öðru. „Það var ekki endilega takmarkið að vinna við þetta, heldur að búa til platform og gera eitthvað meira fyrir skemmtanalífið en fara bara á barinn og detta í það. Þótt ég hafi hætt, þá er mikið samstarf á milli okkar og við erum að lána skemmtikrafta hingað og þangað og öll að vinna saman að því að þessi sena sé til staðar.“

Aðspurð hvort að ekki sé kominn tími til að kabarettsenan eignist sinn fasta stað, sitt eigið hús, segir Margrét að það væri draumurinn. „Við erum að vinna í því á fimm ára planinu. Reykjavík kabarett er í samstarfi við Slipper Room í New York, sem tekur svona 200 manns þegar þétt er setið. Hann er með áhorfendapalla á tveimur hæðum og þar er pláss fyrir loftfimleika og af því að lofthæðin er mikil þá er hægt að vera með eld, það er dansgólf og það eru ljós og reykvélar og frábær kokteilalisti, sem er mjög mikilvægt. James, sem hannaði staðinn, langar að koma hingað og hanna stað hér, þetta eru allt miklir draumar en það hefur svo oft gerst í mínu lífi að ég hef átt drauma og svo rætast þeir, þannig að ég hef fulla trú á að þetta muni gerast,“ segir Margrét.

„Ég var að koma heim úr Evrópuferðalagi þar sem ég kom fram í flottum leikhúsum, en uppáhaldssýningarnar voru eins og í Eistlandi þar sem voru 50 manns í salnum og það var bara pakkað. Og í Berlín þar sem var reykt inni og sviðið var ógeðslega klístrað og það voru bara 40 manns í stöppuðum áhorfendasalnum og það var frábært. Fjaðravængirnir mínir lykta eins og Kaffibarinn árið 1999 og það er bara æðislegt,“ segir Margrét. „Þannig að þetta má ekki vera of flott og það er bara áskorun fyrir alla og ég fæ svo mikla fróun úr því að segja, „það er uppselt“.“

Reykjavík Kabarett Margrét ásamt góðum vinum í Kabarettsenunni.

Áreitni jakkalakka í dauðateygjum

Margrét hefur áður tjáð sig í viðtölum um kynferðislega áreitni sem hún hefur orðið fyrir í starfi sínu, en hún segir hana hafa minnkað eftir að hún byrjaði að tjá sig um hana opinberlega. „Það er hins vegar ekki út af mannvirðingu við mig heldur af því að þeir vilja ekki setja fyrirtæki sitt í vonda stöðu. Eftir að áreitnin varð mikil, þá tek ég með fylgdarmann með mér, rukka meira fyrir og greiði honum síðan laun.“

Áreitnin var ekki mest á þeim tímum sem mætti halda, á sýningum að kvöldi til þegar vín var haft um hönd. „Í burlesque er þetta mjög skýrt: hér er ég, hér er sviðið, hér eru áhorfendur og svo eru það fleiri konur sem mæta á sýningar en karlar. Áreitnin var mest og oftast þegar ég var með fyrirlestra eða að stjórna ráðstefnum að degi til eða að vinna sem plötusnúður. Samkvæmt minni upplifun tengt störfum sem áður voru karlastörf, en ungar, sterkar og klárar konur eru að koma inn í. Þessir menn eru ekki steríótýpan af dónaköllum sem einhverjir hafa kannski, ekki iðnaðarmenn, ekki bifvélavirkjar. Nei, þetta eru menntaðir jakkalakkar sem eru hræddir um stöður sínar og áreitnin er svona síðustu dauðateygjur þeirra til að toga mig niður og sýna að þeir hafi yfirhöndina.“

Úr skriftu á skjá allra landsmanna

Á sirkustímanum hafði Margrét einnig tíma fyrir allt þetta RÚV-stúss eins og hún orðar það sjálf. „Ég frétti að það væri laust starf og sótti um, en besti vinur minn, Atli Viðar, var að vinna sem skrifta í sunnudagsþáttum Evu Maríu og var að hætta.

Ég starfaði sem skrifta í hálft ár og ef einhver er að lesa þetta sem vill byrja í fjölmiðlum þá er skrifta besta leiðin inn, sérstaklega ef þú vilt verða dagskrárgerðarmanneskja í sjónvarpi. Þú lærir allt: hvernig hugmyndirnar verða til, hvernig þú átt að framkvæma þær, við hvern þú átt að tala innanhúss, lærir alla tækniterminólógíu, kynnist öllu staffinu af því þú ert bara í blóðrásinni.

Síðan bað Sigmar í Kastljósinu mig um að leysa Ragnhildi Steinunni af, en hún var að fara í fæðingarorlof. Honum fannst við Heiða skemmtilegar og með góða efnisnálgun. Síðan, þegar Ragnhildur Steinunn kom aftur, kom í ljós að starfið á Rás 2 beið ekki eftir mér og ég fékk smá panikkkast, en Sigmar stóð við bakið á mér sem endranær, hann er klettur þessi maður, og ég fékk að vera áfram og var í Kastljósinu árin 2010–2016.

Það var ótrúlega gaman að vera í Kastljósinu, en það eyðilagði mig þó fyrir lífstíð, ég held að ég geti aldrei aftur verið í 9–5 vinnu eins og þú þekkir eflaust,“ og blaðamaður kinkar kolli og skilur fullkomlega hvað Margrét á við. „Maður þrífst á því að enginn dagur er eins, alltaf að tala við nýtt og nýtt fólk og maður sýgur í sig gleðina og dugnaðinn í fólkinu sem maður er að tala við,“ segir Margrét og nefnir að á þessum árum var Kastljósið, sem dæmi, að opinbera barnaníðinga, með samstarf við Wikileaks og fleira. „Þó að ég væri mest að tala við einhverja hunda með sólgleraugu og popphljómsveitir þá fann ég að maður var hluti af mikilvægu batteríi. Samstarfið var gott, og að kynnast fólki eins og Agli Eðvarðs, og vinna náið með Brynju og Þóru, fólki sem er miklar fyrirmyndir, það er mikilvægt fyrir unga konu og ég hefði aldrei viljað sleppa þessu þótt ég hefði orðið sár þegar ég var látin fara. En ég væri ekki hér í dag ef Kastljósið hefði ekki komið til, bæði að fá vinnuna og að missa hana, af því að ég veit að ég gæti ekki veislustýrt eins mikið og ég geri nema af því fólk man eftir mér sem stelpunni úr sjónvarpinu.“

Landsþekkt Margrét var orðin landsþekkt ung að árum. Mynd: DV/Hanna

Miðborgarbarn alið upp í kærleika og kristilegum gildum

Margrét er uppalin á Bergstaðastræti, býr núna á Óðinsgötu og vinnur „svolítið í þessum radíus hérna,“ segir hún og teiknar hring í kringum sig. Hún var einkabarn í níu ár, þar til Vigdís Perla, systir hennar, fæddist. „Við höfum alltaf verið mjög nánar og erum mjög líkar, en það munar alveg þessum níu árum þannig að það var aldrei samkeppni um sömu athyglina eða neitt svoleiðis, og ég fékk snemma að bera ábyrgð á henni sem var ótrúlega gaman. Og núna býr hún í London og það er ógeðslega erfitt!“

Margrét segir foreldra sína ólíka, en mjög samstíga. Móðir hennar, Ragnheiður Ólafsdóttir, starfar sem miðasölustúlka í Þjóðleikhúsinu og sem blómasöludama í Kópavogi. „Hún er stórkostleg og maður skilur ekki að þetta stóra hjarta komist fyrir í þessum kropp sem hún hefur. Hún er mamma allra, öll mín frændsystkin mömmu megin eru börnin hennar, ég kem í heimsókn og það er alltaf einhver í heimsókn hjá henni. Vinir systur minnar koma í heimsókn til að drekka viskí með henni, sem er furðulegt og geggjað á sama tíma. Mamma er ofsalega mannglögg og skemmtileg, henni finnst gaman að gefa fólki að borða og er ofboðslega nærandi manneskja.“

Faðir Margrétar, Pjetur Þ. Maack, er prestur og aðspurð hvort hún hafi ekki viljað fara í hempuna eins og hann svarar hún að þau séu í sama bransa. „Við erum bæði að kenna fólki að njóta sköpunarverksins á mismunandi hátt. Ég er ekki sérstaklega trúuð, en ég er alin upp í miklum kærleika og kristilegum gildum, trúnni var aldrei troðið upp á mig. Mér var frekar kennd sú upplifun að trú sé hjálpartæki og geti hjálpað fólki mikið, eins og í gegnum sorg, fíkn og aðra erfiðleika. Og ég fann svona að pabbi vonaði að ég þyrfti kannski ekkert á trúnni að halda, sem mér finnst mjög fallegt uppeldi.“

Kærastinn Tómas Margrét og sveitastrákurinn sem flutti inn á fyrsta stefnumóti

Kynntist sveitastrák á Tinder

Sjálf er Margrét búin að stofna eigin fjölskyldu, en hún kynntist kærastanum, Tómasi Steindórssyni, á Tinder og á það vinkonu sinni að þakka, sem tók af henni símann og lækkaði aldursmörkin í stefnumótaappinu. „Hann er góður, mjúkur sveitakall frá Hellu, ógeðslega fyndinn. Hann er stór og mikill, eins og hoppukastali í körfuboltabúningi og að sjá mann hlaupa á hann er það fyndnasta sem ég veit. Ég fæ enn hláturskast þegar sé lappirnar hans í rúminu; „er þessi stærð til af manneskju?““

Tómas er með fleiri en einn bolta á lofti líkt og Margrét, hann starfar hjá Billboard, þar sem hann selur auglýsingar á strætóskýli og skilti, en er aðallega í því að laga þau, er plötusnúður, sér um pubquiz og spilar körfu með Breiðablik. „Hann er fastur í 9–5 vinnunni og finnst erfiðast hvað ég er oft erlendis því hann á erfitt með að fá frí og koma með.“

Þau hafa verið saman í tvö og hálft ár og hittust á sínu fyrsta og eina stefnumóti eftir að hafa spjallað í tvær vikur á Tinder og reynt að finna tíma til að hittast. „Það var náttfatapartí heima hjá mér þar sem við horfðum á Útsvar með kíló af nammi. Við ákváðum strax að byrja saman, vorum ákveðin í samband og hann flutti inn,“ segir Margrét.

„Tómas er öðruvísi en aðrir sem ég hef verið með, honum finnst ekkert mál að ég þéni suma mánuði meira en hann, að ég sé áberandi eða að ég vinni við það sem ég geri. Fyrri kærastar heilluðust oft af mér af því að ég var að gera svo mikið, af því að ég var skemmtikraftur og plötusnúður, svo spurðu þeir hvenær ég ætlaði að hætta þessu. Ég held að enginn segi svona af væntumþykju, en kannski vantaði einhverja bara ástæðu til að hætta með mér. Ég dýrka vinnuna mína, hún er hluti af persónuleika mínum og Tómasi finnst hún snilld. Tómas er allur pakkinn.“

Gengin 20 vikur Margrét er glæsileg á meðgöngunni. Mynd: DV/Hanna

Ófrísk með Instagram-öfund

Parið á von á barni í lok september og þegar Margrét er spurð hvað hún sé langt gengin, tekur hún upp símann og skoðar dagatalið. „Ég er svo léleg í þessu, ég er með Instagram-öfund og er búin að henda öllum út sem eiga von á barni. Ég er ekki byrjuð að tengja eða byrjuð á hreiðurgerð. Ég er að fara í rannsókn á morgun og fæ þá að vita kynið og þá vonast ég til að tengja betur við barnið, þegar ég get kallað það hann eða hana, ekki það. Ég er örlítið kvíðin fyrir þessu, að tengja aldrei, það kemur en ég er samt; „hvað ef það kemur ekki?“

Þetta er búið að ganga vel, ég var gengin átta vikur þegar ég vissi að ég var ófrísk. Ég er enn þá að kenna, nýkomin úr Evróputúr, er að fara til Brighton um helgina og svo til New York í lok maí. Þetta er ekkert mál og ég er mjög heppin,“ segir Margrét, sem hefur reynslu af meðgöngu. „Ég hef bæði farið í fóstureyðingu og misst fóstur, og áður var mjög mikil vanlíðan, uppköst og grindargliðnun.“

Viðtalið er tekið sama dag og ný lög um þungunarrof voru samþykkt á Alþingi. Margrét hefur sterkar skoðanir á málefninu og segir að hún sjái það mjög skýrt að engin kona komin jafn langt á leið og hún velji fóstureyðingu að gamni sínu. „Það er engin sem fer á þessum tíma, nema það sé aðkallandi og félagslegar og líkamlegar ástæður liggi að baki.“

Margrét skráði sig úr Þjóðkirkjunni eftir að grein Agnesar M. Sigurðardóttur um þungunarrof birtist í Morgunblaðinu. „Ég hef gefið Þjóðkirkjunni mikinn séns í gegnum tíðina af því að pabbi minn er prestur, en ég skráði mig úr henni núna. Grein Agnesar er miðaldakjaftæði, þar sem hún tjáir sig ekki sem kona, heldur sem biskup. Það er fjöldi frábærra presta starfandi, en þarna er risaeðla talsmaður kirkjunnar. Ég verð svo reið, pabbi sagði mér um daginn að skoða ekki í pakkann og fá ekki að vita kynið á barninu. Ég svaraði að þegar hann og karlar á hans aldri myndu byrja að ganga með börn gætu þeir tjáð sig um leg kvenna, ekki núna.“

Búkalú Margrét ferðast um landið í sumar með sýningu.

Á undan barni kemur Búkalú

Áður en haustar og Margrét fer að undirbúa komu frumburðarins leggur hún land undir fót með sumarferðalagið Búkalú. Það var leikarinn Örn Árnason sem stakk upp á nafninu og stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon samþykkti um hæl. „Lagið virkar fullkomlega undir stikluna sem ég er að klippa núna, en Jakob sagði mér að búkalú væri einhver sixtís lífs- og dansstíll. Sara vinkona kom svo með Lönd og lendar-setninguna.

Með Margréti verða þekktir skemmtikraftar frá New York og hún segist spennt fyrir að fara með þá í alls konar rými á landsbyggðinni. Svo spyrja þau hvar við munum gista og ég svara til dæmis með að við munum gista hjá Röggu vinkonu minni, og svo ætli nágranni hennar að lána okkur sitt hús og það verði bara opið. Nei, ég þekki nágrannann ekkert, er eitthvert ykkar með ofnæmi fyrir kanínum? Það verður geggjað að fara með Kana í þennan íslenska veruleika þar sem allir eru vinir, allir eru skyldir og fólk bara treystir manni.“

Ætlar þú að vera í þessum bransa áfram þar til þú ferð á eftirlaun?

„Ég veit það ekki. Öll móðurfjölskylda mín er skemmtikraftar og listafólk, þannig að það gæti verið, en svo fæ ég kannski leiða á þessu.“ Blaðamaður stingur upp á að viðburðastjórnun gæti tekið við. „Já, og að opna kabarettklúbbinn. Eina fasta vinnan sem ég hef haft er fjölmiðlavinnan, sem er náttúrulega óöruggasta starfsumhverfi  sem þú finnur núna. Í dag veit ég nákvæmlega hvernig ég er að fara að borga leiguna mína til áramóta og ég er byrjuð að bóka þorrablót og veislustjórn á næsta ári. Ég var aldrei þar þegar ég vann við fjölmiðla, ég veit hvar ég verð næsta árið og það er mun meiri lúxus en margir lifa við og ef eitthvað kemur upp á, þá get ég alltaf kennt fleiri danstíma í Kramhúsinu.

En ég veit ekki hvernig týpa þetta er sem ég er að fæða í þennan heim, kannski er þetta barn sem enginn vill passa og þá er ég bara í djúpum skít, þótt ég sé ekki ein að eiga það.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Í gær

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar