fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Þórdís kvartaði og varð skotmark áhrifavalda: „Óþarfi að skjóta sendiboðann“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Miðvikudaginn 8. maí 2019 09:20

Þórdís Valsdóttir hefur verið dugleg á neytendavaktinni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV hefur undanfarið fjallað um duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum, en svo virðist sem ábótavant sé að kostaðar færslur áhrifavalda séu merktar sem slíkar. Kvartanir um duldar auglýsingar áhrifavalda berast Neytendastofu að meðaltali daglega.

Lögfræðingurinn Þórdís Valsdóttir skrifaði lokaritgerð í sínu meistaranámi um duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum. Þá komst Þórdís einnig í kastljósið í fyrra í kjölfar þess að hún sendi ábendingu á Neytendastofu um brot áhrifavaldanna Fanneyjar Ingvarsdóttur og Svönu Lovísu Kristjánsdóttur, en Neytendastofa birti ákvörðun í fyrra þar sem Fanney og Svana voru áminntar fyrir að dylja auglýsingar á myndavélum á bloggsíðunni Trendnet. Fanney viðraði óánægju sína með ákvörðunina, réðst persónulega að Þórdísi á sínum samfélagsmiðlum og skrifaði bloggpistil um hve „sorglegt“ það væri að Neytendastofa hafi „elt hana uppi“ og áminnt hana.

Sjá einnig: Kvartað daglega yfir duldum auglýsingum áhrifavalda til Neytendastofu: „Þið megið endilega pestara eitthvað annað lið“.

Erfiðara að skýla sér á bakvið fáfræði

Margir áhrifavaldar eru starfandi á Íslandi í dag. Mynd: DV/Hanna

„Mér brá auðvitað talsvert þegar ég sá að allt í einu var ég orðin eitthvað skotmark áhrifavaldanna, í raun fannst mér óþarfi að „skjóta sendiboðann“. Ég tel mig hins vegar hafa mjög mikla þekkingu á þessu sviði og hafði gaman af því að svara þeim skilaboðum sem ég fékk í kjölfarið og rökræða um þessi mál,“ segir Þórdís í samtali við DV er hún rifjar upp þessa atburðarás.

Þórdís veit ekki af hverju áhrifavaldar virðast vera ragir að merkja kostað efni sem slíkt.

„Ég skil ekki almennilega hvers vegna þetta er svona mikið feimnismál, það að dylja auglýsingar á samfélagsmiðlum er brot á lögum og mér þykir furðulegt að þeir sem hafa verið gripnir við slíkt lögbrot beini reiði sinni að mér persónulega í stað þess að viðurkenna að mistök hafi átt sér stað. Ég held nefnilega að margir áhrifavaldar og auglýsendur á samfélagsmiðlum séu ekki að brjóta reglurnar vísvitandi, en þó held ég að núna ætti þetta að vera orðið nokkuð skýrt svo það er erfiðara að skýla sér á bakvið fáfræði.“

Flókið viðfangsefni

Eins og áður segir skrifaði Þórdís meistararitgerð um duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum og kom margt henni á óvart við vinnslu ritgerðarinnar.

„Í fyrsta lagi kom mér á óvart hversu lítið hafði verið tekið á þessum málaflokki hér á landi og í raun vorum við nokkrum skrefum á eftir nágrannalöndum okkar. Það var einmitt ein meginástæðan fyrir því að ég tilkynnti margsinnis brot á reglunum, til þess að ýta á eftir Neytendastofu að grípa til aðgerða. Það kom mér líka á óvart hvað þetta er í raun flókið viðfangsefni og meðal þess sem ég fjallaði ítarlega um var tjáningarfrelsi þeirra sem auglýsa. Tjáningarfrelsið er varið af stjórnarskránni og auglýsendur njóta einnig tjáningarfrelsi, þó það sé takmarkaðra en tjáningarfrelsi einstaklinga.“

En er hægt að kalla duldar auglýsingar eitthvað annað en blekkingu?

„Nei, í raun og veru ekki. Duldar auglýsingar eru bæði blekkjandi og villandi því neytandinn hefur rétt á því að vita að um auglýsingu er að ræða. Neytendur eiga að fá ákveðnar grunnupplýsingar til þess að geta tekið viðskiptaákvörðun og það hvort um auglýsingu sé að ræða eða bara venjuleg meðmæli eru upplýsingar af því tagi,“ segir Þórdís.

Mætti uppfæra leiðbeiningar

Hún telur auglýsingar á samfélagsmiðlum almennt geti haft mikil áhrif á neytendur og segist sjálf hafa orðið fyrir slíkum áhrifum. Því finnst henni miður að þessi blekking líðist. Hún gagnrýnir þó leiðbeiningar Neytendastofu og telur þær ekki nógu skýrar.

„Ég held því miður að stjórnvöld hafi ekki nægilega mikið fjármagn og mannafla til þess að geta veitt þessum málaflokki nægilegt aðhald. Ég held þó að það væri leikandi létt fyrir Neytendastofu að uppfæra leiðbeiningar fyrir þá sem kalla má áhrifavalda, gera þær aðgengilegri með myndrænum dæmum um hvernig æskilegt er að merkja auglýsingar á mismunandi samfélagsmiðlum. Það hefur verið gert á Norðurlöndunum og kom mjög vel út að mínu mati,“ segir Þórdís og heldur áfram.

Hér fyrir neðan eru dæmi um kostað efni sem gæti fallið undir þá skilgreiningu að vera illa merkt, þó ekki sé hægt að slá því föstu þar sem ekki hefur verið úrskurðað um slíkt af Neytendastofu:

„Lögin sem slík eru alveg nægilega skýr, duldar auglýsingar eru bannaðar og það kemur skýrt fram í lögunum. Lögin eru svo nánar útfærð í leiðbeiningum Neytendastofu og þar kemur fram að merkja skuli hvert innlegg í upphafi færslu og ég held að það sé það sem ruglar áhrifavalda mest í ríminu. Ég hef örsjaldan séð texta við mynd þar sem #samstarf eða #auglýsing er á undan þeim texta sem viðkomandi lætur fylgja með myndum. Þetta er þó lykilatriði því ég sem neytandi á að geta tekið ákvörðun um að skauta fram hjá auglýsingunni ÁÐUR en ég meðtek það sem verið er að auglýsa. Þá vil ég einnig benda á að ef áhrifavaldur er í einhverskonar samstarfi við fyrirtæki þá þarf viðkomandi að merkja hvert einasta innlegg sem inniheldur vörur frá því fyrirtæki, ekki bara það fyrsta,“ segir hún, en margir kannast við að horfa á heilu sögurnar á Instagram frá áhrifavöldum um ákveðnar vörur eða þjónustu, þar sem samstarf er einungis auglýst í fyrstu færslu, eða jafnvel aldrei.

Sjá einnig: Tæpur helmingur þreyttur á einsleitum færslum áhrifavalda – Ríkisskattstjóri skoðar duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum.

Fékk nóg af áhrifavöldum

Þórdís segist hafa gefist upp á áhrifavöldum eftir fjaðrafokið í fyrra, en hvetur neytendur til að senda ábendingar á Neytendastofu ef þeim grunar að eitthvað misjafnt sé í gangi.

„Ég hef satt að segja ekki getað sinnt þessu „áhugamáli“ mínu undanfarið, aðallega vegna anna en einnig vegna þess að ég fékk eiginlega bara nóg af áhrifavöldum og valdi það að hætta að fylgja þeim á samfélagsmiðlum. Ég sakna þó sumra þeirra enda var oft margt áhugavert að sjá þar. Ég hvet alla til að tilkynna brot, það er klárt mál. Þetta er ekki flókið, bara taka skjáskot af auglýsingum sem eru ekki merktar og skrá sig inn á Rafræna Neytendastofu, tekur örfáar mínútur og það verður kannski til þess að þeir sem auglýsa á samfélagsmiðlum taki sig betur á og merki auglýsingar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki