Hagfræðingar bankanna keppast nú við að slá því föstu að vextir lækki ekki meira á þessu ári. Nefnt er til sögunnar að verðbólga mælist of há og því verði áfram að beita mjög virku aðhaldi á hagkerfið með háum raunvöxtum. Raunstýrivextir nú eru 3,5 prósent en raunvextir á lánum sem heimilum og fyrirtækjum standa til boða eru gjarnan á bilinu 5-9 prósent, eftir því um hvers konar lán er að ræða. Á yfirdráttarlánum eru raunvextir svo almennt yfir 11 prósent.
Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins sá á dögunum ástæðu til að vara við því að háir vextir hér á landi eru orðnir sjálfstæður verðbólguvaldur þar sem háir vextir valda verðhækkunum og framboðsskorti á húsnæði, sem aftur veldur verðhækkunum á húsnæði sem veldur hækkun á vísitölu neysluverðs sem Seðlabankinn horfir helst til þegar hann ákveður vexti. Þá hækka okurvextir kostnað fyrirtækja, m.a. við birgðahald, sem fyrirtækin velta út í verðlag. Þannig er hávaxtastefna Seðlabankans vítahringur og nærtækast að segja að bankinn sé eins og hvolpur sem eltir skottið á sér.
Orðið á götunni er að fátt komi á óvart við það að greiningardeildir bankanna spái því að vaxtalækkunarferlinu sé lokið á þessu ári. Mikilvægt sé að átta sig á því að bankarnir hafa gríðarlega hagsmuni af því að vöxtum í landinu sá haldið uppi. Ekki þurfi annað en að horfa á hálfsársuppgjör stóru bankanna, sem skiluðu hátt í 50 milljarða hagnaði eftir skatta á hálfu ári.
Stór hluti þessa hagnaðar stafar af háum útlánsvöxtum og vaxandi vaxtamun milli innlána og útlána. Svona hagnaðartölur eru komnar upp í stærðargráðu hagnaðar íslensku bankanna síðustu árin fyrir hrun. Sá munur er þó á að gömlu íslensku bankarnir voru alþjóðlegar fjármálastofnanir sem sóttu hagnað sinn að mestu til fjárfestingabankastarfsemi á erlendum mörkuðum. Nýju íslensku bankarnir starfa einungis hér á Íslandi og sækja hagnað sinn til viðskiptavina sinna, íslenskra heimila og fyrirtækja, þ.e. þeirra fyrirtækja sem ekki hafa yfirgefið krónuhagkerfið og tekið upp evru eða Bandaríkjadal.
Orðið á götunni er að peningastefnunefnd Seðlabankans muni hlusta fremur á hagfræðinga bankanna en varnaðarorðin frá Samtökum iðnaðarins og því muni háir raunvextir hér á landi áfram knýja verðbólguna og hringavitleysan haldi áfram.
Orðið á götunni er að vænlegasta leið ríkisstjórnarinnar til að leiða íslenskt hagkerfi út úr vítahring hávaxta og verðbólgu kunni að vera sú að fara að ráðum Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfgreinasambandsins, en hann hefur bent á að skilvirkasta leiðin til að lækka vexti hér á landi sé að banna verðtryggingu lána. Þá mun Seðlabankinn neyðast til þess að lækka stýrivextina stórfellt og bankarnir til að lækka sína vexti vegna þess að annars yrði greiðslufall og vanskil í stórum stíl hjá bæði heimilum og fyrirtækjum, sem engan veginn ráða við greiðslubyrðina af óverðtryggðum lánum í því vaxtastigi sem nú er á Íslandi.
Orðið á götunni er að ráðamenn í Seðlabankanum verði að átta sig á því að það sé sjúkdómseinkenni í hagkerfi, sem kalla má lokað vegna þess að örmyntin króna ver banka og aðrar fjármálastofnanir fyrir samkeppni erlendis frá, þegar bankar nýta hið verndaða umhverfi til að skrúfa upp hagnað sinn með óheyrilega miklum vaxtamun. Átti þeir sig ekki á því muni illa fara. Átti þeir sig ekki á því verði ríkisstjórnin að grípa til sinna ráða og breyta leikreglunum.