fbpx
Föstudagur 08.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði
Föstudaginn 14. júní 2024 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði er mikill áhugamaður um pólitík og fyrr í vikunni kom hann sér hægindalega fyrir í sófanum fyrir framan sjónvarpið með popp og kók, hreint iðandi í skinninu af eftirvæntingu eftir eldhúsdagsumræðum á Alþingi. Búast mátti við leiftrandi flugeldasýningu.

Kvöldið fór vel af stað, svo sem við var að búast. Kristrún Frostadóttir var skelegg og rökföst og skirrtist ekki við að láta ríkisstjórnina fá það óþvegið. Á eftir henni kom Inga Sæland og var mikið niðri fyrir sem oftar. Flutti hún ræðu sem oft hefur heyrst úr ræðustól Alþingis undanfarin þing.

Svarthöfða kom nokkuð á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi kjósa að senda tvo ráðherra af sinni hálfu. Venjan ku vera sú að gefa öðrum færi á að tjá sig á eldhúsdeginum en ráðherrum. Kannski stjórnarandstaðan í þingflokki sjálfstæðismanna sé orðin svo megn að flokkurinn treysti engum orðið til að tala máli stjórnarinnar öðrum en þeim sem sitja á ráðherrastóli og hafa beina hagsmuni af því að stjórnin gefi ekki formlega upp öndina. Svo sem vænta mátti voru báðir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hæst ánægðir með ríkisstjórnina.

Svarthöfði hreifst mjög af kjarnyrtum og rökvísum málflutningi Sigmars Guðmundssonar sem einn ræðumanna þetta kvöld benti á það að stóra bölið hér á landi er handónýtur gjaldmiðill, sem hentar öflugum sérhagsmunum á kostnað okkar allra hinna. Undir ræðu Sigmars fór Svarthöfði að velta því fyrir sér hvernig á því stendur að Viðreisn, sem einn flokka berst fyrir breytingum sem raunverulega væru til hagsbóta fyrir heimilin og atvinnulífið í landinu, virðist föst í fylgi sem er nánast upp á sömu prósentu og Carlsberg Elephant bjórinn, eitthvað yfir sjö prósent.

Svarið við þeim vangaveltum fékk Svarthöfði í seinni umferð umræðunnar er annar þingmaður Viðreisnar, Guðbrandur Einarsson, kom í ræðustól og notaði allan sinn tíma í að tala um Grindavík, hvað gert hefði verið fyrir Grindvíkinga og hvað mætti betur fara. Nú eru Grindvíkingar allra góðra gjalda verðir og hjarta Svarthöfða slær með þeim. Það er hins vegar eitthvað meira en lítið að hjá stjórnmálamönnum sem skilja ekki að þeir eru í pólitík og þegar tækifæri gefst til að tala við þjóðina skömmu fyrir þingkosningar er skynsamlegt að hamra á stefnumálum sínum og gagnrýna ríkisstjórn sem hefur misst tök á efnahagsmálunum, orkumálum, innflytjendamálum, innviðamálum, menntamálum og heilbrigðismálum, svo fátt eitt sé nefnt, en ekki hjala um eitthvað sem allir eru meira og minna sammála um – hrósa ríkisstjórninni fyrir það sem hvaða ríkisstjórn sem er hefði gert.

Svarthöfði sér í hendi sér að ef forysta Viðreisnar getur ekki einu sinni komið þingmönnum flokksins í skilning um það hver stefna flokksins er og hverjar áherslurnar eru er sjálfsagt lítil von til þess að koma þeim skilaboðum til kjósenda og í því getur skýringin á bjórstyrkleika fylgisins legið. Niðurstaða Svarthöfða er í öllu falli sú þingmenn flokksins og flokksforystan verði að taka sér tak og skerpa áherslurnar á hin raunverulegu mál ætli flokkurinn að verða í aðstöðu til þess að móta íslenskt samfélag á komandi árum.

Svarthöfði hafði svo einna mest gaman af ræðum þingmanna Miðflokksins. Það var vel til fundið og tímabært hjá Sigmundi Davíð að flytja minningarorð ríkisstjórnarinnar og Svarthöfði bíður svo spenntur eftir sjónvarpslausum fimmtudögum í sumar. Það verður eitthvað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins
EyjanFastir pennar
05.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
27.09.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að sitja á strák sínum er góð skemmtun

Steinunn Ólína skrifar: Að sitja á strák sínum er góð skemmtun
EyjanFastir pennar
26.09.2024

Svarthöfði skrifar: Fjárnám er orð dagsins – Ragnar Reykás seðlabankastjóri

Svarthöfði skrifar: Fjárnám er orð dagsins – Ragnar Reykás seðlabankastjóri