fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar á fullu fyrir Katrínu sem virðist leggja blessun sína yfir aðferðir skrímsladeildarinnar

Eyjan
Sunnudaginn 5. maí 2024 14:39

Ásmundur Tryggvason og Anna Lísa Björnsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins hafi tekið yfir kosningabaráttu Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna. Á dögunum var tilkynnt að Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði gengið til liðs við framboðið. Orðið á götunni er að við þau tíðindi hafi reyndir kosningasmalar sem styðja aðra frambjóðendur en Katrínu raunar brosað og sumir hlegið upphátt.

Athygli hefur vakið af hve mikilli hörku Morgunblaðið fer gegn Baldri Þórhallssyni og þó helst Höllu Hrund Logadóttur, sem hefur tekið forystu í kapphlaupinu til Bessastaða. Þar eru í aðalhlutverki gamalreyndir og þekktir stríðsmenn skrímsladeildar Sjálfstæðisflokksins, þeir Stefán Einar Stefánsson, sem kallar sig siðfræðing en margir kalla fremur siðblindan, og Andrés Magnússon. Orðið á götunni er að rætnar árásir og aðdróttanir Morgunblaðsins gagnvart Höllu Hrund byggi að miklu leyti á upplýsingum sem tímabundinn forstjóri Orkustofnunar, Sara Lind Guðbergsdóttir, eiginkona Stefáns Einars, hafi gaukað að blaðinu.

Orðið á götunni er að rógsherferð Morgunblaðsins og skrímsladeildarinnar gegn þeim frambjóðendum sem helst eru taldir geta skákað Katrínu Jakobsdóttur geti haft öfug áhrif og hitt fyrir Katrínu sjálfa. Hugsanlega þoli framboð hennar ekki djúpa skoðun.

Orðið á götunni er að stjórnsýslan, nánast eins og hún leggur sig, leggi nú nótt við dag og liðsinni Katrínu Jakobsdóttur sem mest vera má. Velkist einhver í vafa um það hvort Katrín Jakobsdóttir sé frambjóðandi kerfisins og valdsins nægi að taka af handahófi nöfn nokkurra embættismanna og pólitískra aðstoðarmanna sem skreyta prófílmyndir sínar á Facebook með borðum til stuðnings Katrínu og deila í gríð og erg fréttum af framboði hennar og viðburðum á vegum þess.

Í þessum hópi eru meðal annarra:

  • Sigtryggur Magnason, aðstoðarmaður Sigurðar Inga, fjármálaráðherra
  • Unnur Brá Konráðsdóttir, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra
  • Kári Gautason, aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur, innviðaráðherra og varaþingmaður VG í Norðaustur
  • Lára Björg Björnsdóttir, aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur
  • Páll Ásgeir Guðmundsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar
  • Bergþóra Benediktsdóttir, aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur

Einn helsti stuðningsmaður Katrínar er Anna Lísa Björnsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna. Hún er í dag aðstoðarmaður ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar í fullu starfi í forsætisráðuneytinu. Tilkynnt var um ráðninguna 19. apríl sl.

Í apríl 2022 komst Anna Lísa í fréttir er greint var frá því að eiginmaður hennar, Ásmundur Tryggvason, þáverandi framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, hefði keypt hluti fyrir 11,2 milljónir í lokuðu útboði á hlutabréfum í bankanum. Umboðsmaður Alþingis gagnrýndi aðkomu Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, að söluferlinu harðlega sem varð til þess að Bjarni sagði af sér embætti í október 2023 og færði sig í utanríkisráðuneytið.

Anna Lísa keypti raunar sjálf hlutabréf í Íslandsbanka fyrir eina milljón daginn eftir frumútboð bankans í júní 2021. Þau viðskipti voru tilkynnt sérstaklega til Kauphallarinnar og Fjármálaeftirlitsins vegna þess að eiginmaður hennar var fruminnherji í bankanum.

Orðið á götunni er að allsérstakt sé hjá Morgunblaðinu að fara hamförum yfir því að Karen Kjartansdóttir, sem er sjálfboðaliði hjá framboði Höllu Hrundar, skuli hafa starfað í hlutastarfi sem verktaki hjá Orkustofnun á meðan ýmsir aðstoðarmenn ráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar virðast þiggja laun fyrir fullt starf hjá skattborgurum landsins á meðan drjúgir kraftar þeirra fari í að styðja forsetaframbjóðanda ríkisstjórnarinnar.

Orðið á götunni er að rógsherferðir og rætnar árásir skrímsladeildar Sjálfstæðisflokksins í þágu Katrínar Jakobsdóttur kunni að reynast bjúgverpill sem hitti Katrínu sjálfa fyrir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – ríkisstjórnin er eins og plastpokamaður

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – ríkisstjórnin er eins og plastpokamaður
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar