fbpx
Miðvikudagur 22.maí 2024
Eyjan

Segir hættulega galla vera á örorkufrumvarpinu – „Í ákveðnum tilvikum munu árstekjur öryrkja lækka“

Eyjan
Fimmtudaginn 9. maí 2024 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að hættulegir ágallar séu á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um endurskoðun örorkulífeyriskerfisins.

Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísir.is.

Hann segir að frumvarpið sé lagt fram fjórum mánuðum seinna en til stóð og nú sé gert ráð fyrir að það verið afgreitt með hraði á þeim fáu vikum sem eftir eru af löggjafarþinginu. Það sé óboðlegt þar sem lífsakoma tugþúsunda sé í húfi.

Jóhann Páll segir að flestir öryrkjar komi til með að njóta góðs af þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér en í ákveðnum tilvikum muni árstekjur öryrkja lækka, helst hjá þeim sem búa einir, eru með öllu óvinnufærir og hafa lítil réttindi í lífeyrissjóðum. Í frumvarpinu sé mælt fyrir um lækkun á heimilisuppbót og aldursviðbót, en það séu mjög mikilvægir greiðsluflokkar fyrir þennan hóp öryrkja.

Jóhann Páll ræðir frumvarpið nokkuð ítarlega í grein sinni og bendir meðal annars á að svokallaður virknistyrkur verði felldur niður um leið og fólk hefur unnið sér inn einhverjar atvinnutekjur. Styrkurinn nemur núna 95 þúsund krónum á mánuði. Einnig verði styrkurinn felldur niður hjá einstaklingum tímabundið ef þeir hafna starfi eða atvinnuviðtali. Til útskýringar tilgreinir hann þetta dæmi:

„55 ára kona í sambúð hefur misst starfsgetuna og er á hlutaörorkulífeyri og virknistyrk með samtals 380 þúsund krónur á mánuði. Hún fer í atvinnuviðtal og býðst starf en líst ekki á aðstæður og hættir við. Tekjur hennar næstu tvo mánuði súnka þá niður í 285 þúsund krónur fyrir skatt.“

Jóhann er líka ósáttur við upptöku samþætts sérfræðimats í stað læknisfræðilegs örorkumats. Verður framkvæmd sérfræðimatsins forsenda fyrir greiðslu örorkulífeyris. Segir hann ekki liggja nægilega skýrt fyrir hvað nákvæmlega felist í samþættu sérfræðimati. „Þessum spurningum er hins vegar ekki svarað í frumvarpinu heldur er ráðherra falið að útfæra þessi grundvallaratriði í reglugerð. Tryggingastofnun, sem mun framkvæma matið, fær nær engar leiðbeiningar um framkvæmdina í lagatexta.“

Segir ekki hægt að hleypa málinu óbreyttu í gegn

Jóhann Páll segir að vegna alvarlegra galla á frumvarpinu sé ekki hægt að hleypa því óbreyttu í gegnum þingið. Telur hann heppilegra að endurbætt frumvarp um þetta málefni verði lagt fram í haust. Það muni ekki valda löngum töfum á lögfestingu þess:

„Frumvarpið tekur ekki gildi fyrr en 1. september 2025. Í ljósi þess hve alvarlegir ágallar eru á málinu hlýtur að koma til álita að klára ákveðna grundvallarþætti þess og lögfesta nú á vorþingi, meðal annars ákvæði frumvarpsins um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, þjónustugátt, samhæfingarteymi og samstarf og samfellu milli þjónustukerfa, en gefa að öðru leyti félags- og vinnumarkaðsráðherra og ráðuneyti hans svigrúm til að vinna málið betur. Endurbætt frumvarp yrði þá lagt fram strax og þing kemur saman í haust og afgreitt á Alþingi fyrir áramót. Með þessu gæfist einnig tími til að útfæra og kynna hið samþætta sérfræðimat.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þeir slá úr og í

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þeir slá úr og í
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Sömu gildi og byggðu upp Ísland eru lykillinn að framtíðinni

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Sömu gildi og byggðu upp Ísland eru lykillinn að framtíðinni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolbrún komin með nóg af bókhaldslykla-kraðaki og segir að borgin eigi ekki að rannsaka sig sjálf í umdeildu málunum

Kolbrún komin með nóg af bókhaldslykla-kraðaki og segir að borgin eigi ekki að rannsaka sig sjálf í umdeildu málunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Endurreisa þarf forgang almennings til orku hér á landi

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Endurreisa þarf forgang almennings til orku hér á landi