fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli

Eyjan
Föstudaginn 15. mars 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimildarmynd Spessa ljósmyndara um Megas sem ber heitið Afsakið meðanað ég æli er meistaraverk. Afar góð mannlýsing, maðurinn Magnús fangaður, eins og góðar persónuheimildarmyndir gera. Þetta mesta ljóð- og textaskáld okkar daga er svo mikill yfirburðamaður að það er skömm að sjálft Ríkisútvarpið skuli skrifa eftirmæli um hann, vonandi löngu fyrir andlátið, með þögn.

Ekkert núlifandi söngvaskáld hefur gert íslenskunni meira gagn en Megas og það ætti að þakka honum veglega fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu, þó ekki væri skammast til annars, og reka tafarlaust þau minniháttar andlit íslenskunnar sem geta hvorki ort né hugsað frumlega hugsun.

Fáir hafa ögrað þessu smáríki eins og Megas, enda geta aðeins stórir listamenn eins og hann brugðið speglinum sem vopni. Kvikmyndin um Megas er menningarsaga, þar kemur fram eitthvert besta tónlistarfólk Íslands og takið eftir: allir sem einn eru í andakt gagnvart skáldinu á æfingum sem sýnt er frá, ekki af heimskulegri lotningu yfir innihaldsleysi og prjáli, heldur vegna þess að þar fer fólk sem ber skynbragð á yfirburði og gæði. Nærveran við Magnús skilur mann eftir kátan og uppnuminn eins og kynni af afburðafólki gera. Sérstaklega þarf að minnast á viðtöl Spessa við listamanninn sem eru meistaralega skemmtileg. Spessi spyr áleitinna spurninga og gefur engan afslátt og skáldið stórgáfaða svarar ævinlega á hugljómandi vegu og ískrandi húmorinn aldrei langt undan. Sumt í myndinni er svo ólýsanlega manneskjulegt og fagurt að ég freista þess ekki að reyna að setja það í orð. Svo er myndin mjög fyndin á köflum. Þið verðið að sjá þessa kvikmynd.

Á íslensku tónlistarverðlaunum gerði forseti landsins það skýrt að þátttaka í fíflalátum eða galsagangi er óviðeigandi á stríðstímum og við hæfi að sýna þjáningu annarra og sorg tilhlýðilega virðingu. Undarleg þykir mér afstaða þeirra sem tala um listamenn eins og ábyrgðarlaus börn sem ekki megi gagnrýna. Listamenn standa ekki utan samfélags mannanna, þeir eru speglar mannanna. Listamenn á að gagnrýna! Listamenn gerast listamenn til að hafa áhrif og bera að sjálfsögðu mikla ábyrgð. Gagnvart sjálfum sér fyrst og fremst en ekki síður gagnvart samfélagi sínu vegna þess sýnileika sem þeir njóta umfram aðra. Að líta svo á að á okkar tímum sé eðlilegt að láta eins og harmur annarra komi okkur ekki við og þramma glaðbeitt til leiks með terroristum er óhuggulegur vitnisburður um okkur sjálf. Að láta eins og þessi skemmtun skipti raunverulega nokkru einasta máli er bull. Hvernig væri að berjast jafn hatrammlega fyrir því að hér verði til réttlátara þjóðfélag?

Gætum við hugsanlega skapað hér betri tilveru? Það virðist gleymast að púðrið er til að nota það, en aðeins þar sem það gerir gagn.

Fæstar stofnanir á Íslandi bera samfélagslega ábyrgð að heitið geti. Ríkisútvarpið, sem ætti auðvitað með réttu að vera einskonar áttaviti þjóðarinnar, er því miður að mestu innihaldsleysið uppmálað (kannski fyrir utan beinar útsendingar Sinfóníuhljómsveitarinnar og þáttagerð örfárra). Ekki hefur RÚV til dæmis skrifað orð til leiðréttingar um þann skandal sem fréttamennska af atburðunum þann 7. október síðastliðinn vissulega var. Flest það sem sagt var þá, í heimsins virtustu dagblöðum sem fréttastofa RÚV át upp hugsunarlaust, var byggt á veikum grunni og er nú búið að vísa til föðurhúsanna. New York Times hefur orðið að athlægi á heimsvísu vegna þessa stórskandals.

Listamenn hafa mótandi áhrif á samfélag sitt og að láta eins og listamenn séu dulur í höndum stofnanna eða ákvarðana sem þar eru teknar innan er fjarstæða. Listamenn bera ábyrgð á gjörðum sínum. Listamenn hafa, og ég endurtek hafa, umfram aðra í samfélaginu, raddir sem tekið er eftir og þess vegna skiptir máli þegar þeir lenda í kringumstæðum sem kalla á skýra afstöðu með mannkyninu. Skilaboð listamanna til umheimsins ættu ekki að vera villuljósið sem segir að frægðin sé öllu æðra, þvert á það sem öllum ætti að vera ljóst.

Hvernig við bregðumst við í stríði skiptir máli, ekki bara í dag heldur líka síðar, enda hefur fjöldi íslenskra alvörulistamanna gert það heyrinkunnugt að þeir láti ekki gera sig að meðhjálpurum í yfirbreiðslu á þjóðarmorðum.

Að fara á svið í egómanískum skrípaleik með fulltrúum þjóðar sem stundar nú hryðjuverk og þjóðarmorð – og þar á ég auðvitað við Ísrael – á meðan verið er að murka lífið úr palestínsku þjóðinni er bæði siðlaust og smekklaust. Auðvitað ættu þjóðir heimsins að sýna samstöðu og hafna því að keppnin sé haldin að þessu sinni. Við getum skemmt okkur síðar og sú bið er okkur skaðlaus með öllu.

Afsakið meðanað ég æli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
27.10.2024

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar