fbpx
Þriðjudagur 14.maí 2024
Eyjan

9 gölnustu ávirðingarnar úr Lindarhvolsskýrslunni – Steinar alls staðar, leyndarhyggja og rausnarlegur afsláttur á grundvelli tortryggilegs minnisblaðs

Eyjan
Föstudaginn 7. júlí 2023 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sá dagur sem margir hafa beðið spenntir rann loksins upp í dag þegar greinargerð fyrrum setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, var lekið til almennings. Höfðu meðlimir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fengið hana senda til sín í dularfullu brúnu umslagi sem óljóst er hvaðan kemur, og brást þingmaður Pírata, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, snarlega við og birti á vefsíðu flokks síns.

Eðlilega hefur því töluvert verið fjallað um skýrsluna undanfarin sólarhring, en hér hefur Eyjan tekið saman nokkrar beinar tilvitnanir upp úr greinargerðinni og í hvaða samhengi þær er að finna.

1 Fólkið á bak við Lindarhvol ehf.

„Stofnfundur Lindarhvols ehf. var haldinn þann 15. apríl 2016. Fundinn sóttu fyrir hönd stofnanda, Ríkissjóðs, Þórhallur Arason og Hafsteinn S. Hafsteinsson starfsmenn Fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Stofnskrá Lindarhvols ehf. kveður á um að heimili félagsins sé að Arnarhvoli við Lindargötu, 101 Reykjavík. Á stofnfundi Lindarhvols ehf. þann 15. apríl 2016 voru eftirtaldir aðilar kosnir í stjórn félagsins. Aðalmenn Þórhallur Arason, Haukur C. Benediktsson og Áslaug Árnadóttir. Varamenn: Esther Finnbogadóttir og Sigurbjörn Einarsson. Áslaug Árnadóttir baðst nánast strax lausnar frá stjórnarsetu og var Ása Ólafsdóttir skipuð í hennar stað. Þórhallur Arason var skipaður formaður á fyrsta fundi stjórnar.

Á stofnfundi Lindarhvols ehf. voru samþykktir félagsins jafnframt samþykktar af tveimur stjórnarmönnum þeim Þórhalli Arasyni og Hauki C. Benediktssyni.“

„Auk kjörinna stjórnarmanna sat Steinar Þ. Guðgeirsson hrl., eigandi Lögmannsstofunnar Íslaga ehf., fyrsta stjórnarfund Lindarhvols ehf. Steinar hafði verið ráðgjafi Seðlabanka Íslands og Fjármála- og efnahagsráðuneytisins við undirbúning að stofnun Lindarhvols ehf. Steinar var skipaður ritari fundarins, jafnframt hafði hann framsögu og kynnti stjórn félagsins ofangreind gögn, þ.m.t. samning um umsýslu, fullnustu og sölu stöðugleikaframlagseigna og reglur um starfshætti félagsins. Þá var Steinar þegar kominn með prókúruumboð fyrir bankareikning Lindarhvols ehf. í Landsbankanum.“

2 Steinar, Steinar, Steinar alls staðar

Ríkisendurskoðandi vakti athygli á því að áðurnefndur Steinar Þ. Guðgeirsson hafi í raun komið að merkilega mörgum verkefnum fyrir ýmist Lindarhvol, fjármálaráðuneytið sem og Seðlabanka Íslands.

„Fyrir utan daglega framkvæmdastjórn og lögfræðilega ráðgjöf sinnti Steinar eftirfarandi viðfangsefnum fyrir Lindarhvol ehf., Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Seðlabanka Íslands: 

  1. Skipaður í stjórn 4ra félaga á vegum Lindarhvols ehf. 

  2. Skipaður af stjórn Lindarhvols ehf. sem samskiptaaðili við Arion banka í tengslum við sölu bankans. 

  3. Skipaður af Seðlabanka Íslands, Fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Lindarhvoli ehf. sem eftirlitsmaður með umsýslu slitabúanna vegna fjársópseigna og varasjóða í umsjón þeirra. 

  4. Stjórnarmaður í 11 félögum í slitameðferð sem voru hluti af stöðugleikaeignum slitabúanna. 

  5. Ritari stjórnar Lindarhvols ehf. 

  6. Fundarstjóri og ritari á aðalfundi Lindarhvols ehf. árið 2017 og 2018. 

  7. Lögmannsstofan Íslög hf. hafði umsjón í umboði stjórnar Lindarhvols ehf. með sölu á tilteknum stöðugleikaeignum.“

Taldi ríkisendurskoðandi að þetta væri ekki eðlilegt fyrirkomulagi og þar hefði ekki verið tryggt að störf, ábyrgð og eftirlit væru aðskilin.

„Þrátt fyrir að viðkomandi aðili hafi búið yfir mikilli þekkingu og reynslu sem tengdumst því verkefni sem hér er til skoðunar er það mat Ríkisendurskoðunar, að þessi skipan hafi ekki tekið nægjanlegt tillit til krafna um aðskilnað starfa, ábyrgðar og innra eftirlits sem hefði átt að vera til staðar við framkvæmd verkefnisins. Eru þá fyrst og fremst hafðir í huga þeir miklu hagsmunir sem liggja undir og tengjast þessu viðfangsefni. Þess má geta að enginn starfsmaður var ráðinn til Lindarhvols ehf. til að sinna m.a. úrvinnslu gagna, upplýsingagjöf, skjalavistun o.fl. Framangreind verkefni voru í umsjón starfsmanna Lögmannsstofunnar Íslaga ehf.“

En hver er þessi Steinar, gætu lesendur spurt sig. Samkvæmt frétt Hringbrautar fyrir nokkru þá er Steinar vinur og skólafélagi Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, síðan í lagadeildinni í Háskóla Íslands. Steinar er líka fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, en hann spilaði alls 176 leiki í efstu deild með Fram og ÍBC á sínum tíma og skoraði þar 10 mörk. Hann þjálfaði einnig Fram um tíma. Bjarni spilaði svo með Stjörnunni, þó hann eigi engan landsleik að baki.

Steinar var svo formaður skilanefndar Kaupþings, áður en Lindahvol ehf. var einu sinni orðið að hugmynd.

Eyjan hefur ítrekað reynt að fá upplýsingar um umfang þeirra greiðslan sem runnið hafa til Steinars vegna vinnu fyrir bankann, en ekki fengið svör. En Íslög, litla lögfræðistofa Steinars, hefur fengið minnst 220 milljónir auk virðisaukaskatts frá fjármálaráðuneytinu og Lindarhvoli, og það án þess að ákvæði verksamnings um tímaskýrslur hafi ferið fylgt eftir.

3 Höfðu ekki fyrir því að verðmeta eignirnar sem þeim var falið að selja

Sigurður fer ítrekað yfir það í greinargerðinni að Lindarhvol hafi miðað virði eignanna við mat sem slitabú föllnu bankanna hafi miðað við. Eða með öðrum orðum hafi ekki verið framkvæmt neitt sjálfstætt verðmat á þessum eignum eftir að ríkið tók við þeim.

„Upphafsviðmið við lágmarksverð er ávallt bókfært virði einstakra eigna. Ástæða þess verklags er að bókfært virði einstakra eigna byggði á mati þeirra slitabúa sem framseldu tilteknar eignir og gera verður ráð fyrir að slitabúin hafi búið yfir sérþekkingu á verðmati þeirra eigna og verðmat þeirra notað í reikningum viðkomandi slitabúa undanfarin 8 ár.“

4 Kaupþing neitar að svara og vísar á Steinar

Ríkisendurskoðandi óskaði svo eftir fundi með Kaupþingi ehf. í tengslum við athugun á framkvæmd samnings milli Lindarhvols og fjármála- og efnahagsráðherra um  stöðugleikaeignirnar. Í svarbréfinu sagði að samkvæmt framsalssamningi hefði Seðlabankinn áheyrnarfulltrúa í tengslum við eignir í umsjá Kaupþings. Hefði Seðlabankinn jafnframt tiltekinn tengilið sem Kaupþingi bæri að beina öllum fyrirspurnum og tilkynningum til. Samt væri ekki um tvo aðskilda einstaklinga að ræða heldur hefði Seðlabankinn útnefnt tíðræddan Steinar í báðum tilvikum.

„Í báðum tilvikum hefur Seðlabankinn tilnefnt Steinar Þór Guðgeirsson hrl. til að gæta hagsmuna hans skv. framangreindu. Þá hefur Steinar Þór Guðgeirsson hrl. jafnframt komið fram f.h. Ríkissjóðs Íslands gagnvart Kaupþingi varðandi framkvæmd framsalssamingsins.“

Kaupþing taldi sig því ekki hafa heimild til að upplýsa endurskoðendur Lindarhvols um efni samningsins heldur ætti að beina fyrirspurninni til Steinars Þórs.

5 Hunsuðu beiðni um gögn, fóru framhjá ríkisendurskoðun og beint í ráðherra

Lindarhvol hafði svo samband við Ríkisendurskoðun og óskaði umsögn vegna ráðstöfunar á tilteknum stöðugleikaeignum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Taldi ríkisendurskoðandi að tiltekinn gögn vantaði svo hægt væri að taka afstöðu til málsins. Hafi Lindarhvol svarað þeirri beiðni og hvatt til þess að lausn yrði fundinn, en ekki sent þó umbeðin gögn. Ríkisendurskoðandi hafi þá ítrekað beiðnina. En í staðinn fyrir að afhenda gögnin þá hafi Lindarhvol farið framhjá ríkisendurskoðun og beint til fjármálaráðherra.

Þá hafi það skyndilega gerst að í frumvarpi til fjáraukalaga hafi fjármálaráðherra fengið heimild til að ganga til samninga við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um afhendingu á stöðugleikaeignum sem Lindarhvol hefði haft til umsýslu og teldust ekki heppilegar til sölu á almennum markaði. Í kjölfarið hafi ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins sagt í pósti til ríkisendurskoðanda:

„Vil ég bera undir þig hvort þú sért ósammála því að sérstök umsögn sé ekki nauðsynleg, enda liggi nú fyrir sérstök heimild í lögum og með skírskotun til þess að endurskoðun á fjárhagsráðstöfunum sem ráðherra ber ábyrgð á fari fram með hefðbundnum hætti en falli ekki undir verkefni setts ríkisendurskoðanda með málefnum Lindarhvols.“

Ríkisendurskoðandi varð að taka undir þá ályktun og því varð ekkert af því að umsögn yrði veitt um þessa ráðstöfun þó svo að um sýslu á gífurlega verðmætum eignum væri að ræða.

6 Gífurleg tregða við að veita gögn og upplýsingar

Kemur ítrekað fram í greinargerðinni að Sigurður hafi þurft að nánast grátbiðja um allar upplýsingar og gögn. Hafi aðilar ýmist reynt að segja honum að það væri ekki á hans verksviði að kalla eftir slíkum gögnum, eða hreinlega hunsað beiðninnar. Þetta hafi tafið alla vinnu.

„Hafa að mati setts ríkisendurskoðanda valdið honum erfiðleikum með að ljúka verkinu. Þar kemur einkum til að í flestum málum hefur ekki tekist að afla þeirra frumgagna sem er hin faglega krafa endurskoðanda til að hann geti lagt mat á einstök mál. Þess vegna hefur verkið tekið lengri tíma en þörf hefði verið á.“

Varðandi stjórn Lindarhvols hafi gögn verið staðsett á skrifstofu Lögmannsstofunnar Íslaga. Hafi Sigurði verið mætt af tortryggni þegar hann reyndi að falast eftir viðbótargögnum.

„Framan af var þessum beiðnum svarað fljótt og vel af hálfu Lindarhvols ehf. Við frekari úrvinnslu í einstökum málum, þar sem leitað var eftir frekari upplýsingum og gögnum var því svarað af hálfu Lindarhvols ehf. með því að spyrjast fyrir um hvers vegna óskað væri eftir viðbótarupplýsingum, fyrirspurnir væru óskýrar og jafnvel byggðar á misskilningi. Í þessum samskiptum kom fram sjónarmið stjórnar Lindarhvols ehf. skýrt fram, að verkefni Ríkisendurskoðunar takmörkuðust eingöngu við fjárhagsendurskoðun á starfsemi félagsins en ekki við eftirlit með framkvæmd samnings milli fjármála- og efnahagsráðherra og Lindarhvols ehf. frá 29. apríl 2016.“

Hafi Sigurður loks fengið nóg og sent formanni Lindarhvols tölvupóst þar sem hann sagði að það yrði að finna einhverja lausn á þessu veseni með upplýsingagjöf og afhendingu gagna.

„Ég held að þetta fyrirkomulag þar sem við þurfum að biðja Steinar eða þig um einstakar upplýsingar gangi ekki það tekur of langan tíma og oft virðist vera um misskilning að ræða um hvað er verið að fara fram á nema það sem beinist beint að ykkur og rekstri Lindarhvols.“

Hafi hann fengið svarið að það stæði ekki á stjórninni að bregðast við óskum ríkisendurskoðunar. En þetta hafi þó verið aðeins í orði en ekki á borði, því ekkert breyttist.

7 Veglegur afsláttur vegna skýrslu sem kaupandi aflaði

Hvað varðaði sölu á fyrirtækinu Vörukaupum hf. þá gerði Sigurður sérstakar athugasemdir. Þar hafi hæsta boði í fyrirtækið, upp á 151 milljón verið tekið, en kaupandi var Xyzeta ehf. Þessi kaupandi hafi þó framvísað minnisblaði frá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte sem bentu til þess að vissir þættir ættu að leiða til þess að fyrirtækið væri um 20 milljón krónum minna virði en tilboðið hljóðaði upp á. Þessu tók Lindarhvol merkilega vel, mótmæltu ekki þessu mati eða öfluðu sér annars álits heldur hreinlega lækkuðu söluverðið. Ekki var einu sinni haft fyrir því að sannreyna að umrætt minnisblað kæmi virkilega frá Deloitte.

„Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við Minnisblað Deloitte vegna áreiðanleikakönnunar á völdum liðum árshlutareiknings Vörukaupa ehf. þann 31.10.2016 sem gagns stjórnar Lindarhvols ehf. við endurmat á söluverði félagsins. Minnisblaðið er ódagsett og ekki undirritað af starfsmanni endurskoðunarfyrirtækisins. Þá kemur aðeins fram á fyrsta blaðinu af þrem nafnið Deloitte sem tilvísun til þess að verkið hafi verið unnið af því. Þá telur Ríkisendurskoðun að stjórn Lindarhvols ehf. hefð átt áður en hún byggði ákvörðun sína að lækka söluverðið að fá staðfestingu endurskoðunarfyrirtækisins á tilurð minnisblaðsins og hver væri ábyrgur fyrir gerð þess. 

Á stjórnarfundinum ákvað stjórn félagsins með vísan til Minnisblaðs frá Deloitte að lækka söluverð Vörukaupa ehf. um 20 m.kr. í 131 m.kr. Fyrir fundinum lá samþykki Landsbankans hf. fyrir fyrrnefndu kaupverði. 

Þann 23. desember 2016 var undirritað „Fullnaðaruppgjör“ milli SCM ehf. sem seljanda og Xyzeta ehf. sem kaupanda á öllu hlutafé í Vörukaupum ehf. Af hálfu SCM ehf. móðurfélags Vörukaupa ehf. undirritaði Steinar Þór Guðgeirsson, stjórnarmaður í SCM ehf., uppgjörið. Steinar Þór Guðgeirsson var líka stjórnarmaður í Vörukaupum ehf. þar til 1. janúar 2017.“

Xyzeta er samkvæmt fyrirtækjaskrá í eigu þeirra Óskars Jósefssonar og Magnús Pálma Skúlasonar, em Magnús starfaði einmitt sem lögfræðingur markaðsviðskipta hjá Kaupþingi auk þess að hafa umsjón með markaðsviðskiptum Kaupþings sinnti Magnús störfum fyrir flestar deildir bankans og sá um málflutning fyrir hann. Óskar starfaði sem framkvæmdastjóri upplýsinga- og tæknisviðs Kaupþings á árunum 2003-2008.

SCM ehf., fyrir áhugasama, hét áður Straumur Capital Management ehf.

8 Athugasemdir við söluverð hlutabréfa

Varðandi sölu hlutabréfa í nokkrum þekktum stórfyrirtækjum hér á landi gerði Sigurður að því er virðist athugasemdir við sölugengið sem miðað var við þegar Lindarhvol lét bréfin af hendi til nýrra eigenda. Um var að ræða sölu á bréfum Eimskip, Reitum, Sjóvá og Símanum, en Sigurður rakti sérstaklega hvernig öll þessi fyrirtæki væru á lista Creditinfo yfir stór framúrskarandi fyrirtæki fyrir árið 2017.

Voru bréfin seld með mismunandi hætti og skiluðu í flestum tilvikum hagnaði til Lindarhvols. Fékkst  um hálfur milljarði í gróða fyrir sjóvá. Einn milljarður af Reitum. 68 milljónir af Eimskip en bréfin í Símanum voru þó seld með tapi.

Hvað varðaði Sjóvá benti Sigurður á að Landsbankanum hafi verið falið að framkvæma söluna. Hafi forstöðumaður markaðsviðskipta farið fram á að sölunni yrði frestað með vísan til þess að lítill kaupáhygi væri til staðar og þurfi að vinna meira í markaðinum til að koma þetta stórum hlut út. Var sölunni ítrekað frestað, og vísaði bankinn alltaf til þess að erfitt væri að ná til mögulegra kaupenda. Á meðan á þessum frestunum stóð þá tók virði bréfanna dýfu og leiddi til lægra söluverðs. En Sigurður benti á í greinargerðinni að meðalgengi hafi þarna verið 16,61 en söluverð hafi verið 12,91.

Forstöður markaðsviðskipta hjá Landsbankanum var þá, og er enn, Árni Maríasson, sem starfaði sem forstöðumaður á fyrirtækjasviði Landsbankans fyrir hrun.

Varðandi sölu í Eimskip hafi Landsbankanum einnig verið falin sú sala. Ákvað stjórn Lindarhvols að fara að ráðleggingum Landsbankans um söluna en bókuðu þó á fundi sínum að selja ætti bréfin eins hátt og mögulegt væri innan hvers dags, en þó ekki á lægra verði en lágmarksvirðinu 268.  Öll hlutabréfin voru seld á þessu lágmarksvirði. Vakti Sigurðu einnig athygli á því að salan á bréfunum hafi farið fram 5. og 10. ágúst. Þá hafi stjórn Lindarhvols vitað að von væri á sex mánað uppgjöri Eimskips og hafði Landsbankinn lagt til að bíða með sölu þar til uppgjörið hafi verið birt. Það var þó ekki gert, en þegar uppgjörið birtist varð virði bréfa í eimskip 300,3 en meðalgengi bréfa frá birtingu uppgjörsins fram í maí árið á eftir var 318,4 krónur, eða 18,8 prósent hærra en Lindarhvol seldi fyrir.

 

Landsbankanum var eins falið að selja hlut í Símanum. Stjórn Lindarhvols féllst á tillögur Landsbankans um söluna en sagði að hámarka bæri verðætin með því að selja bréfin á eins háu verði og mögulegt væri á söludögum en ekki lægra þó en á lágmarksgenginu 3,12. Bréfin voru seld 16. og 17. ágúst 2016 á sölugenginu 3,12 og 3,14. Sigurður benti á að meðalgengi bréfanna árið eftir söluna hafi verið 3,37.

Hvað varðaði Reiti þá hafi Landsbankinn eins séð um þá sölu, en bréfin voru seld í útboði sem var undanþegið útgáfu lýsingar. Lágmarksgengi útboðsins var 83,3 á hlut. Salan fór fram 22. ágúst 2016. Fjárfestar óskuðu eftir því að kaupa um 73 milljónir hluta eða um 9,9 prósent af heildarhlutafé Reita. Sölugengið var ákveðið 83,30 en eftir söluna fór virði bréfanna á töluvert flug.

9 Dularfull Klakka greiðsla

Sigurður rakti að þegar eignarhluti í Klakka hafi verið framseldur ríkinu frá Kaupþingi og Glitni hafi eignarhlutinn verið samtals 29,4 prósent. Virði hlutarins frá Kaupþingi hafi numið tæpum 1,6 milljarði, en hlutur Glítnis var metinn á núll en sú eign hafði verið flokkuð sem svonefnd fjársópseign. Báðir eignahlutarnir voru seldir frá miðjum september 2016 fram í miðjan október. Lindarhvoll ehf. hafi boðið út hluta Kaupþings og var tilboði frá BLM fjárfestingu tekið í báðum útboðum og söluverðið nam 1,155 milljarði, en frá því drógust greiðslur frá Klakka til ríkissjóðs fram að afhendingadegi að fjárhæð 253 m.kr. Því hafi endanlegt söluverð verið 902 milljónir. Hlutur ríkissjóðs var 663 í endanlegu söluverði.

Ríkisendurskoðun gerði verðmat á hlut stöðugleikaframlaganna í eignarhluta Klakka ehf. í Lykli hf. Ætlaði ríkisendurskoðun að heildarvirði beggja eignanna gæti hafa numið 2,2 milljörðum. Því mætti áætla að BLM fjárfestingar hafi hagnast á kaupunum um 1,3 milljarð. Þá hafi greiðslur átt sér stað til BLM fjárfestinga á tímabilinu febrúar 2017 til ogmeð janúar 2018 upp á 532 milljónir, sem væru um 60 prósent af kaupverði.

Sigurður vakti sérstaka athygli á millifærslu sem átti sér stað í maí 2016. En þá hafi 210 milljónir verið millifærðar af Kaupþingi til ríkissjóðs og var eina skýringin á kvittun skráð: Klakki. Þetta hafi verið bókað hjá Fjársýslu ríkisins sem inngreiðsla á stöðugleikaframlag Klakka ehf. Þessi greiðsla sé ekki talin með í tölfunni hér að ofan.

Hafi Sigurður reynt að fá frekari skýringu á þessari millifærslum, en taldi sig ekki hafa fengið staðfestingu á því að greiðslan tilheyrði skilum Klakka.

Til fróðleiks má nefna að BLM fjárfestingar er samkvæmt fyrirtækjaskrá í eigu Magnúsar Schevings Thorsteinssonar, framkvæmdastjóra Íshesta og fyrrverandi forstjóri Klakka. Hann var nýlega sakfelldur fyrir skattsvik og dæmdur í skilorðsbundið fangelsi. Hann var enn forstjóri Klakka þegar ofangreind sala fór fram.

Forráðamaður BLM fjárfestinga er Jón Örn Guðmundsson, sem hafði verið yfir bókhaldssviði Klakka og svo fjármálastjóri.

Þessi eignarhluti hefur komið sér vel því árið 2017 var á hluthafafundi samþykkt tillaga að kaupaukakerfi sem varðaði meðal annars Magnús og Jón, en að meðaltali myndi þetta kerfi skila hverjum sem nyti góðs af því að meðaltali 60 milljónum í vasann. Málið varð mjög umdeilt. Lífeyrissjóðirnir sem áttu í Klakka höfðu ekki mætt á fundinn og þó svo að Lífeyrissjóður Verslunarmanna hafi síðar reynt að beita sér gegn þessu, þá hafði það ekki afl til slíks. Gagnrýnin varð svo hörð að Klakki ákvað síðar að draga bónusana til baka, enda kom svo á daginn að þeir samrýmdust ekki lögum. Fjármálaeftirlitið benti á að Klakki væri eignarhaldsfélag á fjármálasviði og bundið sem slíkt relgum um kaupauka.

Skýrsluna má svo finna hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – Þingið afber varla þessa ríkisstjórn

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – Þingið afber varla þessa ríkisstjórn
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hlýða Víði í kjörklefanum? – „Maður bara trúir því ekki að nú eigi að misnota Covid og hetjur þess til að auka fylgið“

Hlýða Víði í kjörklefanum? – „Maður bara trúir því ekki að nú eigi að misnota Covid og hetjur þess til að auka fylgið“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Mun ekki hika við erfiðar ákvarðanir

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Mun ekki hika við erfiðar ákvarðanir
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Vilja vita hvert milljarðar borgarbúa fóru

Vilja vita hvert milljarðar borgarbúa fóru
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Fagmaður í fyndni – vill færa forsetann til Akureyrar á sumrin

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Fagmaður í fyndni – vill færa forsetann til Akureyrar á sumrin
Eyjan
Fyrir 1 viku

Næstum 100 milljónir á síðasta ári frá ríkinu til fyrirtækisins sem aðstoðar Katrínu

Næstum 100 milljónir á síðasta ári frá ríkinu til fyrirtækisins sem aðstoðar Katrínu