fbpx
Miðvikudagur 22.maí 2024
Eyjan

Vilja vita hvert milljarðar borgarbúa fóru

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 7. maí 2024 19:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ársreikningur Reykjavíkurborgar var til umræðu á fundi borgarstjórnar í dag. Þar gagnrýndu fulltrúar minnihlutans framsetningu borgarinnar á stöðu rekstrarins. Meðal þess sem kom til tals var að vandi borgarinnar sé frammúrkeyrsla frekar en tekjuvöntun og að þó tekjur borgarinnar hafi aukist þá sé það á kostnað borgarbúa án þess að þeir njóti betri þjónustu. Viðhald opinberra bygginga hafi setið á hakanum sem valdi meðal annars röskun á skólastarfi og óboðlegum vinnuaðstæðum kennara og mikið álag í leikskólum valdi því að ekki tekst að manna stöður svo hægt sé að úthluta öllum plássum til reykvískra barna.

Oddvitar Flokks fólksins og VG bentu einnig á stafræna umbreytingu. Þar hafi milljörðum verið veitt til ýmissa verkefna en ekki sé að sjá að það hafi skilað sér í betri þjónustu við borgarbúa. Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, gagnrýndi sérstaklega að fjárveitingar til þessarar umbreytingar séu ekki studdar nægilegum gögnum. Ekki sé hægt að fá heildaryfirlit verkefna sviðsins sem fer fyrir umbreytingunni, Þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON), hvergi sé að finna stöðumat verkefna, kostnaðaráætlanir, mat á hagræði/sparnaði eða útskýringu á forgangsröðun verkefna. Borgarfulltrúar fái það eitt í hendurnar sem komi fram í stuttum greinargerðum sem fylgja ósk um fjárveitingu.

Líf Magneudóttir spurði hvar afrakstur vinnunnar væri. Hvert hefðu milljarðarnir farið og hvernig væru þeir að gagnast borgarbúum. Í ársskýrslu ÞON fyrir árið 2020 sagði : „Samþykkt var í borgarráði í byrjun desember 2020 að hraða stafrænni vegferð borgarinnar og ljúka á þremur árum.“

Þegar Intenta gerði úttekt á stöðu borgarinnar í stafrænni umbreytingu í desember 2022 var ljóst að þessi áform voru í engu raunhæf. Borgin var þá talin komin áleiðis í verkefninu en í skýrslunni er vitnað til stjórnenda sem sögðu: „Það er of metnaðarfullt og óraunhæft að koma þjónustunni á netið á þremur árum.“ Stjórnendur sögðust hafa áhyggjur af því  hvað tæki við eftir árið 2023 þegar fjárfestingaátaki væri lokið.

Á þriðja mánuð að svara til um kostnað og sparnað

Ætla má að nokkuð sé til í vangaveltum Kolbrúnar um skort á fyrirliggjandi upplýsingum um stafræna umbreytingu. Blaðamaður lagði í mars fram fyrirspurn til borgarinnar um meðal annars tölur um raunkostnað sviðsins þau ár sem það hefur verið starfrækt, upplýsingar um kostnaðaráætlanir, uppgjörsskýrslur, sparnað borgarinnar vegna stafrænnar umbreytingar, verklagsreglur og viðmið um eignfærslu kostnaðar. Þau svör fengust frá borginni að fyrirspurnin væri umfangsmikil að efni til svo að það tæki tíma að svara henni. Eftir ítrekun barst svar fyrir nokkru þar sem sagði að svör komu væntanlega í lok maí, en fyrirspurnin krefðist mikillar vinnu fjölda starfsmanna.

ÞON fór á árinu 2023 173 milljónum fram úr fjárheimildum, en nettó útgjöld námu 4.049 milljónum. Ef ekki er horft til tekna sviðsins, sem kemur að mestu frá öðrum sviðum, þá var kostnaður ársins 6 milljarðar.  Launakostnaður var 85 milljónum umfram fjárheimildir, en samkvæmt greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 ætlaði sviðið að mæta 1% hagræðingakröfu með niðurskurði í rekstri og að fækka um eitt stöðugildi. Samkvæmt samanteknum ársreikning fyrir 2023 voru stöðugildin að meðaltali 178 árið 2022 og 184 árið 2023, sem þýðir að stöðugildum fjölgaði um 6.

Athugasemdir við eignfærslu

Kolbrún nefndi í ræðu sinni í dag að skoða þyrfti hvernig verkefni sviðsins eru eignfærð á eignasjóð. Skýrar reglur séu um hvernig slíkri eignfærslu eigi að vera háttað en ytri endurskoðun hafi sérstaklega vakið máls á því í skýrslu sinni að gæta þurfi að reikningsskilareglum hvað varðar hugbúnað og þróunarverkefni.

Ytri endurskoðandi borgarinnar gerði í endurskoðunarskýrslu sinni fyrir árið 2023 athugasemd við eignfærslu þróunarverkefna í upplýsingatækni. Árið 2023 voru 2,5 milljarðar eignfærðir vegna þróunarverkefna ÞON og þar af voru 1,8 milljarður vegna launakostnaðar starfsmanna borgarinnar. Ytri endurskoðandi tók fram að það sé mikilvægt að eignfærsla þróunarverkefna uppfylli kröfur ársreikningalaga og settra reikningsskilareglna. Þannig þurfi þróunarverkefni að vera nægilega afmörkuð og ávinningur þeirra óumdeildur til að þau séu hæf til eignfærslu. Kom ytri endurskoðun ábendingum á framfæri við stjórnendur ÞON um það sem betur bætti fara til að tryggja samkvæmni við reikningsskilareglur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ytri endurskoðun vekur athygli á því sama. Við yfirferð ársreiknings fyrir árið 2022 kom fram að af 2,3 milljörðum sem ÞON eignfærði hafi stærsti hlutinn verið vegna launakostnaðar starfsmanna borgarinnar. Þá var ábendingum komið til stjórnenda um það sem betur mætti fara.

Með ársreikningum 2019 og 2020 kom ytri endurskoðun ábendingum á framfæri varðandi upplýsingatæknimál.

Á morgun stendur til í Stafrænu ráði að kynna ábatamat stafrænnar umbreytingar og kjarnavörur. Eins fara fram umræður um fjárfestingu og rekstur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Ákvörðun um þingrof verður að byggjast á vilja þingsins

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Ákvörðun um þingrof verður að byggjast á vilja þingsins
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hamasliðar voru 20-30 þúsund, en munu sennilega tífaldast – Útrýming þeirra ógjörleg – Hvað gengur Ísrael til?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hamasliðar voru 20-30 þúsund, en munu sennilega tífaldast – Útrýming þeirra ógjörleg – Hvað gengur Ísrael til?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Ný föt – sama röddin

Orðið á götunni: Ný föt – sama röddin
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ögmundur sár út í sinn gamla flokk: „Dapurlegra en orð fá lýst“

Ögmundur sár út í sinn gamla flokk: „Dapurlegra en orð fá lýst“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Ríkismiðlarnir snúa saman bökum

Svarthöfði skrifar: Ríkismiðlarnir snúa saman bökum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Málskotsrétturinn var virkur þegar Vigdís íhugaði að skrifa ekki undir EES

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Málskotsrétturinn var virkur þegar Vigdís íhugaði að skrifa ekki undir EES