fbpx
Miðvikudagur 22.maí 2024
Eyjan

Þessu svöruðu frambjóðendurnir þegar þeir voru spurðir út í kostnað við framboð þeirra – Gróflega áætlaðar krónutölur eða óræð ekki-svör

Eyjan
Sunnudaginn 5. maí 2024 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar 12 frambjóðendur koma saman, þá er gaman. Eða hvað? Skiptar skoðanir eru á ágæti kappræðna frambjóðenda til embættis forseta Íslands sem fóru fram á RÚV á föstudagskvöldi. Enda er ekki hlaupið að því að skipuleggja kappræður 12 einstaklinga samhliða því að gæta að deila takmörkuðum tímanum jafnt.

Netverjar lögðu sumir til að næst verði forsetakosningarnar hafðar sem útsláttarkeppni í anda raunveruleikasjónvarps, en líklega rúmast slíkar hugmyndir ekki innan íslenskra laga. Með lögum skal landið byggja, en með lögum má svo sem líka gera forsetakosningar að útsláttarkeppni, standi vilji Alþingis til slíks. Komi það til skoðunar vill Eyjan nota þetta tækifæri og leggja til að velja framvegis forseta út frá keppni í anda Vestfjarðavíkingsins. Eða kannski hafa þetta nokkrar keppnis til að mæla tiltekna eiginleika. Forsetavíkingurnn, forsetamorfís, forsetaútsvar og forsetapróf í Húsó.

Frambjóðendur svöruðu á föstudag fjölbreyttum spurningum um persónuhagi, framboð sitt og afstöðu sinna til tiltekinna mála.

Undir lok þáttar var spurt um kostnað frambjóðenda við kosningabaráttu. Hvað gera frambjóðendur ráð fyrir að baráttan muni kosta og hvernig er fjármögnun hagað. Hér hafa svör frambjóðendanna 12 verið tekin saman.

Baldur Þórhallsson

„Við höfum kannski gert ráð fyrir að hún gæti kostað um 20 milljónir án þess að maður sjái nú fyrir sér öll útgjöld. Við höfum einfaldlega farið þá leið að kalla eftir framlögum stuðningsmanna.

Við erum með stóra og mikla síðu á Facebook, þar sem 23 þúsund stuðningsmenn eru og það er bara svo gríðarlega gaman að sjá hversu vel hefur verið tekið í að veita okkur stuðning, í margs konar formi. Með kökubakstri eða úthringingaformi og líka fjárframlögum, litlum fjármunum frá einstaklingum. Það þykir mér allra vænst um.“

Eiríkur Ingi Jóhannesson

„Ég er búinn að eyða 3600 krónum í ljósrit, síðan eitthvað bensín, þetta verða einhverjir hundrað þúsund kallar líklega.“

Halla Hrund Logadóttir

„Við höfum verið að vinna þetta í anda framboðsins með þátttöku og samvinnu. Fjöldi sjálfboðaliða, hundruð manna, sem hafa tekið þátt og kannski tek undir með Baldri, að það sem stendur uppúr þegar maður mættir eitthvað út á landi og það eru sjálfboðaliðar að taka þátt. Ég hef fengið spurningar um að ákveðin atriði varðandi fjármögnun á okkar framboði og auðvitað er algjör rógburður hvað það varðar.

Því við höfum verið að vinna þetta framboð, algjörlega með sjálfboðaþátttöku og þannig munum við vinna það að sem mestu leyti.

Þáttastjórnandi gekk eftir skýrara svari og spurði hvort Halla væri að segja að hún eyði engu. Hvað muni framboðið kosta?

„Ég veit það ekki nákvæmlega. En við erum að fara spart með. Við komum ekki úr baklandi sem að leyfir stórframlög frá okkur persónulega þannig við erum að treysta á fegurð lýðræðisins í því að fólk vilji taka þátt. Fólk deili sýninni sem framboðið hefur og það hefur sannarlega sýnt okkur, höfum sannarlega séð að… “

Þáttastjórnandi gékk aftur að Höllu um skýrara svar til að varpa ljósi á kostnað.

„Ég geri ráð fyrir að þetta hlaupi á einhverjum milljónum en það á eftir að koma í ljós. Við reynum að fara sparlega með“

Halla Tómasdóttir

„Já, ég var hagsýnasta húsmóðirin í síðasta framboði. Var með einn þriðja af fjárframlögum þeirra Davíðs, Andra og Guðna þá. Og ég ætla að reyna að vera hagsýna húsnmóðirin núna. Við höfum ekki farið í neinar stóra auglýsingaherferðir en erum aðeins að bæta í, því við þurfum einhvern veginn að ná skilaboðunum í gegn.

En framlag kemur frá stuðningsmönnum, við erum líka með ótrúlegt magn sjálfboðaliða, og úr eigið fé að einhverju leyti.  Ætli við séum ekki komin í svona kannski 5 milljón krónur í heildarkostnað nú þegar.“

Helga Þórisdóttir

„Ég einmitt kannski verð mögulega eini frambjóðandinn sem var ekki á samfélagsmiðlum fyrir rúmum fjórum vikum síðan. Þannig að það setti öðruvísi tón hjá mér og ég hef einmitt ekki verið í stjórnmálastarfi og unnið verkin svona aðeins hljóðari heldur en kannski margir aðrir. Þannig að aðeins hef ég þurft að eyða pening og það hefur svona mest megnist komið úr eigin vasa, en mikill stuðningur líka þannig að ætli þetta sé ekki komið svona jafnvel nálægt 7 milljónum núna.

Af því að einmitt bara þegar maður er ekki búinn að vera landsfrægur á Íslandi þarf maður aðeins að kynna sína rödd sem að stendur samt að engu öðru en reynslu og þekkingu og að hafa þurft að takast á við allskyns sem forstjóri Persónuverndar í átta og hálft ár. En hagsýna húsmóðirin er hér líka þannig við skulum bara sjá hvernig þetta endar.“

Jón Gnarr

„Já ég náttúrulega sjálfstæðismaður, ég er sjálfstætt starfandi listamaður á Íslandi, eins og mjög mikið af fólki. Og margt okkar þekktasta fólk er sjálfstætt starfandi listamenn, Ég hef ekki tök á því að losa mig frá vinnu, ég þarf bara að sinna minni vinnu, þeim verkefnum sem ég er bundinn af. Ég er t.d. að vinna í leikhúsinu og svo er ég í upptökum á sjónvarpsþáttum og ég er að gera ýmislegt sem ég bara verð að gera.

Og ég er ekki að vinna fyrir opinbera stofnun eða eitthvað svona sem ég get tekið frí. Þannig ég er algjörlega háður frjálsum framlögum frá einstaklingum, fyrirtækjum og bara einhverju góðviljuðu fólki sem langar að gera vel við mig.  Ég held að við séum búin að nurla saman, mig minnir að það séu 3 milljónir. Þakið á þessu er 25 milljónir, það má ekki kosta meira. Ég ímynda mér einhvern veginn að þetta muni, kosta í kringum 10 milljónir. Ég giska á það.“

Katrín Jakobsdóttir

„Já við erum nú bara að keyra frekar lágstemmda baráttu og ekkert farin að stað í öðru en að bara segja frá fundum sem ég er að halda. Og það er auðvitað mjög margir sjálfboðaliðar sem koma að þessu því þeir eru auðvitað um land allt og eru að vinna að framboðinu. En okkar sýn á þetta er einfaldlega sú – við ætlum ekki að eyða meiru en við söfnum. Þannig að við erum bara í raun og veru að meta stöðuna eftir því hvernig það gengur. Og það eru auðvitað litlu framlögin sem telja í rauninni langtmest í því, það er að segja einstaklingsframlög. Allavega enn sem komið er.“

Þáttastjórnandi spurði þá hvort Katrín væri að gefa til kynna að ef hún safni 25 milljónum, þá muni hún eyða 25 milljónum.

„Við bara ákváðum að setja okkur bara þetta einfalda markmið að við ætlum ekki að eyða umfram efni og hérna, reyna svona að keyra þetta frekar lágstemmt til að byrja með.“

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir

„Já mitt framboð er ekki kostað af neinum hagsmunaaðilum heldur eingöngu með frjálsum framlögum einstaklinga. Ég held að núna sé búið að eyða um það bil 400 þúsund krónum. Og ég er afskaplega þakklát fyrir framlag fólksins í landinu sem hefur verið að styrkja framboðið og ég held að þetta sé lýðræðislegt og gott því æ sér gjöf til gjalda… “

Viktor Traustason

Þegar spurningunni var beint til Viktors Traustasonar tóku þáttastjórnendur fram að hann væri í sérstakri stöðu samanborið við aðra frambjóðendur þar sem framboð hans hafði aðeins nýlega verið samþykkt. Hann sé því rétt að fara að stað í kosningabaráttu sinni.

„Ég held ég fari svo sem ekkert að stað. Ég er ekki að fara í neina kosningabaráttu og ég ætla ekki að berjast við neinn. Ég held að stefnumálin tali dálitið sínu máli. Ég var að safna undirskriftum og þá fór ég hringinn. Bíllinn minn eyðir svona 8,5 á hundraði en svo er það nánast eins og að fara tvisvar hringinn ef maður fer Vestfjarðakjálkann. Kannski geri ég það á næstu mánuðunum en ég er ekki búinn að hugsa það neitt lengra.“

Þáttastjórnandi spurði þá hvort Viktor fari hringinn á eigin kostnað.

„Já já“

Aðspurður hvort hann ætla að safna peningum fyrir framboðið svaraði Viktor: „Nei ég er ekki að fara að biðja neinn um pening.“

Arnar Þór Jónsson

„Já hin kaldi raunveruleiki er náttúrulega sá, eins og þetta horfir við mér, að þjóðþekktir einstaklingar hafa töluvert forskot í svona kosningum og kosningabaráttu. Og fólk segir við mig – afhverju ertu ekki sýnilegri og afhverju auglýsi ég ekki meira en staðreyndin er sú að það verður að halda í beislin að þessu leyti og ég hef gert ráð fyrir að reyna að hafa þetta eins lágstemmt og ég mögulega get.

Þannig að ég er að stefna að því að halda þessu í jah, fara ekki yfir 15 milljónir, en ég verð sennilega að fara yfir það til að fólk viti hver ég er og fyrir hvað ég stend.“

Ásdís Rán Gunnarsdóttir

„Já ég hef kannski smá forskot á hina þar sem ég er vel þekkt og með ágætt fjölmiðlavald, get gert það sem mér sýnist nokkurn veginn. Ég er ekki farin að eyða neinum upphæðum af peningum ennþá. En kosningabaráttan var að byrja og ég var einmitt að stofna í gær Karolina Fund það er s.s. söfnun fyrir kosningabaráttuna mína. Þannig að allir þeir sem vilja styrkja mig geta farið inn á karolinafund.is og lagt sitt af mörkum.“

Þáttastjórnandi spurði Ásdísi hvort hún væri með einhverja áætlun um mögulegan kostnað framboðsins.

„Ég ætla bara að eyða eins miklu og ég get, það fer eftir því hvað ég fæ mikið.“

Ástþór Magnússon Wium

„Já ég var nú 96, fyrir 28 árum þá gaf ég út þessa bók til að dreifa á öll heimili landsins og menn telja að mitt framboð hafi kostað um 100 milljónir á núvirði. Og sem betur fer þá þarf ég ekki að gera þetta núna vegna þess að bókin er rafræn núna og hún er til í uppfærðri útgáfu á vefnum nuna.is. Þar erum við líka að selja rosalega flottar húfur og boli og happdrættismiða, fólk getur unnið bíl, það getur meira að segja tekið þátt í leik, svarað einni spurningu og fengið miða í happdrættinu fyrir bara það.

Þannig að ég fæ fullt af traffík inn á síðuna og fólk er að kaupa þessar vörur af okkur og ég vona bara að á næstunni sjáið þið Ástþór forsetahúfur út um allt og þá veit fólk að þarna eru aðilar sem eru að styrkja mitt framboð. Og það mætti til mín einn maður, bara out of the blue, með hundrað þúsund kall….“

Þáttastjórnandi greip þá inn og spurði hvort Ástþór geti áætlað hvað hann hafi eytt í framboðið nú þegar.

„Sko fyrir þessum 30 árum þá fékk ég þessar vitranir og þessar sýnir. Ég ég bara gekk frá blómlegu fyrirtæki, seldi einkaþotuna og fjármagnaði þetta og ég fer ekkert með þessa peninga neitt með mér sko.. ..“

Þáttastjórnandi bað Ástþór að nefna einhverja tölu, en áður en Ástþór náði að svara kom Ásdís Rán með uppástungu.

„Spurning hvort þú fjárfestir í mínu framboði og ég tek friðarmálin yfir til mín?“

Ástþór tók fram að árið 1996 hafi hann látið alla mótframbjóðendur sína fá bók sína um sýn hans á friðarhlutverki forseta. Hann bjóði nú öllum mótframbjóðendum það sama og hvetur þá til að taka friðarmálin inn í sín framboð.

Baldur spurði þá hvort frambjóðendur gætu fengið Ástþórshúfu líka og Ástþór tók vel í það og bauð eins fram sérmerkta boli.

„Mitt framboð snýst ekki um mig, það snýst um að virkja embætti forseta íslands til friðarmála… “

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hamasliðar voru 20-30 þúsund, en munu sennilega tífaldast – Útrýming þeirra ógjörleg – Hvað gengur Ísrael til?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hamasliðar voru 20-30 þúsund, en munu sennilega tífaldast – Útrýming þeirra ógjörleg – Hvað gengur Ísrael til?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

„Í dómsalinn mætti lögmaður og fjórir menn í handjárnum. Ég blondínan nýútskrifuð“

„Í dómsalinn mætti lögmaður og fjórir menn í handjárnum. Ég blondínan nýútskrifuð“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Gangi Alþingi fram af þjóðinni skal forseti tafarlaust vísa málinu til þjóðarinnar

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Gangi Alþingi fram af þjóðinni skal forseti tafarlaust vísa málinu til þjóðarinnar