Fjölmiðlakonan Lára Ómarsdóttir hefur lokið störfum hjá Aztiq Fund, fjárfestingasjóði sem Róbert Wessmann stýrir, þar sem að hún hefur starfað síðastliðin tvö ár. Frá þessu greinir hún á Facebook-síðu sinni.
„Í gær skrifaði ég undir starfslokasamning við Aztiq. Ég gekk til liðs við Aztiq fyrir tveimur árum í stöðu samskiptastjóra félagsins og sé ekki eftir því. Þetta hefur verið ákaflega lærdómsríkur tími, krefjandi, skemmtilegur og gefandi og ég hef verið afar heppin með samstarfsfólk. Nú mun starfið taka ákveðnum breytingum og sýn okkar er um margt ólík. Því var það niðurstaðan að ég myndi stíga frá borð,“ skrifar Lára.
Hún segist óska samstarfsfólki sínu velfarnaðar og segist hlakka til að fylgjast með fyrirtækinu blómstra.
„Hvað nú tekur við hjá mér, veit ég ekki, en ég er sannfærð um að það verði eitthvað mjög spennandi og skemmtilegt,“ skrifar Lára.