fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Innrás Rússa í Úkraínu hafin – 100 hafa fallið

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 24. febrúar 2022 04:16

Pútín þegar hann ávarpaði rússnesku þjóðina í síðustu viku.Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vladímír Pútín Rússlandsforseti gaf í gærkvöldi hernum fyrirskipun um að ráðast inn í Úkraínu. Úkraínskir ráðamenn segja að innrás sé hafin og skothvellir og sprengingar hafa heyrst í höfuðborginni Kiev og víðar.

Pútín flutti sjónvarpsávarp í nótt þar sem hann sagðist hafa fyrirskipað árás á Úkraínu til að „verja Donbass-svæðið“ eftir að Rússar hafi í 30 ár reynt að ná samningum við NATO og Bandaríkin um öryggi Rússlands en án árangurs. Hann sagði að staðan væri orðin þannig að um líf eða dauða væri að ræða fyrir Rússland og að raunveruleg ógn steðji að Rússlandi. Hann sagðist því hafa fyrirskipað hernum að grípa til aðgerða í Donbass.

Uppfært klukkan 10.10 – Um 100 hafa látist í átökum í morgun. Fréttir hafa borist um að 50 rússneskir hermenn hafi verið felldir og um 40 úkraínskir. Að auki hafa borist fréttir af mannfalli meðal óbreyttra borgara.

Uppfært klukkan 09.54 – Starfsmaður úkraínsku forsetaskrifstofunnar segir að 40 úkraínskir hermenn hafi fallið í átökunum í nótt og morgun.

Uppfært klukkan 09.52 – Hvíta-Rússland er reiðubúið til að aðstoða Rússa í stríðinu gegn Úkraínu ef þörf krefur. Þetta sagði Aleksandr Lukasjenko, forseti í morgun, að sögn hvítrússnesku fréttastofunnar Belta. Lukasjenko er einn nánasti bandamaður Pútín en Rússar hafa heljartök á Hvíta-Rússlandi og geta nánast farið öllu sínu fram þar í landi.

Uppfært klukkan 09.32 – Aleksej Navalnyj, stjórnarandstæðingur og einn helsti óvinur Pútín, situr í fangabúðum og hefur verið dreginn fyrir rétt enn einu sinni. Hann kom fyrir réttinn í dag og nýtti tækifærið til að mótmæla innrásinni í Úkraínu og sagði það vera háð til að leyna þeim þjófnaði sem rússneskir borgarar verða fyrir  og á þar við það sem hann hefur sagt vera þjófnað Pútín og bandamanna hans á auðæfum Rússlands

Uppfært klukkan 09.25 – Ríkisstjórnin í Litháen hefur beðið þing landsins um að lýsa yfir neyðarástandi vegna árásar Rússa á Úkraínu. Ríkisstjórnin hefur einnig beðið NATO um ráðgjöf varðandi fjórðu grein NATO-sáttmálans. Bandarískir fallhlífahermenn komu til Litháen í morgun en Bandaríkin hafa heitið að verja Eystrasaltsríkin.

Bandarískir fallhlífahermenn við komuna til Litháen í morgun. Mynd:EPA

 

 

 

 

 

 

Uppfært klukkan 09.22 – Pólska utanríkisráðuneytið biður alla Pólverja um að yfirgefa Úkraínu.

Uppfært klukkan 09.16 – Úkraínski herinn segist hafa fellt 50 rússneska hermenn nærri Luhansk.

Uppfært klukkan 08.49 – Petro Porosjenko, fyrrum forseti Úkraínu og núverandi þingmaður, segir daginn í dag vera „tragískan“. Hann líkir Vladimír Pútín við „nútíma Hitler“ að sögn BBC. Porosjenko var forseti frá 2014 til 2019.

Uppfært klukkan 08.20 – Evrópusambandið mun síðar í dag tilkynna um refsiaðgerðir gegn Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu. Þetta verða hörðustu refsiaðgerðir ESB frá upphafi að sögn Ursula von der Layen formanns framkvæmdastjórnarinnar.

Uppfært klukkan 07.56 – Skemmdir hafa orðið í Kiev vegna loftárása Rússa.

Hér lenti sprengja í Kiev. Mynd:EPA

Uppfært klukkan 07.52 – Langar raðir hafa myndast við hraðbanka í Kive þar sem fólk reynir að ná sér í reiðufé af ótta við ástandið.

Uppfært klukkan 07.40 – Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fordæmdi nú áðan aðgerði Rússa og sagði árás þeirra á Úkraínu vera óásættanlegt brot á alþjóðalögum.

Uppfært klukkan 07.40 – Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, fordæmdi einnig aðgerðir Rússa í færslu á Facebook í morgun.

Uppfært klukkan 07.25 – Úkraínsk yfirvöld segja að sjö hafi látist í árásum Rússa og níu séu særðir. Rússar hafa gert eldflauga og stórskotaliðsárásir á marga úkraínska bæi og borgir í morgun.

Uppfært klukkan 07.05 – Lest rússneskra skriðdreka og brynvarinna ökutækja er nú á leið til hafnarborgarinnar Mariupol en þar eru rússneskir hermenn sagðir hafa gengið á land.

Uppfært klukkan 07.04 – Uppreisnarmenn í austurhluta Úkraínu segjast hafa náð bæjunum Shchastia og Stanytsia Luhanska á sitt vald. Þeir njóta stuðnings Rússa.

Uppfært klukkan 06.49 – Úkraínska innanríkisráðuneytið segir að einn hafi látist í stórskotaliðshríð Rússa á bæinn Brovary nærri Kiev.

Uppfært klukkan 06.18 – Úkraínsk yfirvöld segja að tölvuárásir á landið standi nú yfir en slíkar árásir hafa verið algengar síðustu daga og vikur og telja flestir að Rússar standi á bak við þær.

Uppfært klukkan 06.12 – Langar raðir bíla hafa myndast í útjaðri Kiev þar sem borgarbúar reyna að komast frá borginni. Mikill fjöldi fólks er í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar en fólkið er einnig að reyna að komast á brott úr borginni.

Langar bílaraðir eru út úr borginni. Mynd:Getty

 

 

 

 

 

 

 

Uppfært klukkan 06.11 – Úkraínski herinn segist hafa skotið niður fimm rússneskar flugvélar og eina þyrlu. Rússnesk yfirvöld segja þetta ekki rétt.

Uppfært klukkan 06.01 – Loftárás var gerð á borgina Lutsk í morgun en hún er um 100 km frá pólsku landamærunum. Það má heyra sprengingu í myndbandinu hér fyrir neðan.

Uppfært klukkan 05.55 – Úkraínskir landamæraverðir í norðurhluta landsins segja að nú dynji stórskotaliðshríð á þeim frá rússnesku og hvítrússnesku stórskotaliði í Hvíta-Rússlandi.

Uppfært klukkan 05.51 – Úkraínsk yfirvöld segja að her landsins hafi skotið rússneska herflugvél niður yfir austurhluta landsins.

Uppfært klukkan 05.42 – CNN segir að rússneskar hersveitir hafi nú farið inn í Úkraínu frá Hvíta-Rússlandi og segir að ljósmyndir frá úkraínskum landamæraverði sýni rússneska herbíla fara yfir landamærin. CNN segir einnig að rússneskar hersveitir hafi farið frá Krímskaga og inn á meginlandið.

Uppfært klukkan 05.30 – Uppreisnarmenn í Donetsk hafa hrundið umfangsmiklum árásum á úkraínska herinn úr vör að sögn rússnesku fréttastofunnar Interfax. Sjónarvottar segja að stórskotaliði hafi verið beitt. Donetsk er annað þeirra svæða í austurhluta landsins sem uppreisnarmenn hafa haft á valdi sínu frá 2014 en þeir hafa notið stuðnings Rússa frá upphafi.

Uppfært klukkan 05.27 – Joe Biden ræddi við Volodymyr Zelenskij forseta Úkraínu í nótt og hefur Hvíta húsið birt endurrit samtalsins. Þar kemur fram að Biden muni funda með leiðtogum G7-ríkjanna á morgun til að skipuleggja frekari refsiaðgerðir gegn Rússlandi.

Uppfært klukkan 05.20 – Herlög hafa verið sett í Úkraínu sem þýðir að her landsins fer nú með stjórn þess.

Rússneskur skriðdreki í Donbass. Mynd:Getty

Uppfært klukkan 05.11 – Fréttamaður Sky News í Kharkiv, sem er næst stærsta borgin í Úkraínu, segir að þar hafi sprengingar kveðið við í morgun og loftvarnaflautur hafi verið þeyttar fyrir skömmu.

Uppfært klukkan 05.10 – Loftvarnaflautur voru þeyttar í Kiev rétt í þessu og mátti heyra í þeim í beinni útsendingu Sky News.

Uppfært klukkan 05.00 – Joe Biden, Bandaríkjaforseti, segir að um tilefnislausa og ástæðulausa árás Rússa sé að ræða og að heimsbyggðin muni gera Rússa ábyrga. Hann sagði jafnframt að Bandaríkin og bandamenn þeirra muni standa saman og vera samstíga í aðgerðum.

Uppfært klukkan 04.34 – Fréttamaður Norska ríkisútvarpsins í Úkraínu segir að skothríð og sprengingar heyrist í höfuðborginni Kiev og fleiri bæjum og borgum.

Uppfært klukkan 04.23 – Öryggisráð SÞ fordæmdi innrás Rússa í Úkraínu á neyðarfundi. Fundurinn hófst með ákalli frá Antonio Guetteres aðalritara SÞ: „Ég hef bara eitt að segja beint frá hjartanu: Pútín forseti: Stöðvaðu hersveitir þínar. Gefðu friði tækifæri. Allt of margir eru nú þegar dánir.“ Hann sagði að þetta væri sorglegasta augnablikið á ferli hans sem aðalritara.

Öll ríki aðildarráðsins fordæmdu þróun mála í Úkraínu. Kínverjar báðu báða aðila um að hafa hemil á sér og gera stöðuna ekki verri.

Sendiherrar Úkraínu og Rússlands deildu hart og sagði Sergiy Kyslytsya, sendiherra Úkraínu, að rússneski sendiherrann hefði staðfest að Pútín hefði lýst yfir stríði á hendur Úkraínu og bað Rússa um að láta af árásum sínum.

Vasily Nebenzya, sendiherra Rússlands, sagði að ekki væri um stríð að ræða heldur ákveðna hernaðaraðgerð í Donbass.

Linda Thomas Greenfield, sendiherra Bandaríkjanna, sagði að því miður hafi Pútín gefið fyrirmæli um stríð og þetta sýni að hann virði öryggisráðið ekki. Hún sagði að Rússar bæru einir ábyrgð á þróun mála.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna