fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Fjárlög vinstristjórnar og broguð stjórnmál

Eyjan
Sunnudaginn 18. september 2022 13:40

Lífeyrissjóðirnir segja áform fjármálaráðherra fela í sér eignarnám sem sé andstætt stjórnarskrá. mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1963 fékk Ottó A. Michelsen, forstjóri Skrifstofuvéla, flutta til landsins reiknivélasamstæðu frá IBM í kynningarskyni en þetta var fyrsta tölvan sem hingað kom. Fyrstur til að setjast við vélina var Gylfi Þ. Gíslason, mennta- og viðskiptamálaráðherra. Hann fékk lítilsháttar tilsögn í virkni tölvunnar og gat að því búnu borið spurningu undir hana. Það sem ráðherrann fýsti að vita var hversu mikið tekjur ríkissjóðs ykjust yrði áfengisverð hækkað um hálft prósentustig. Svarið kom á tveimur sekúndum og ekki þarf að fjölyrða um hrifningu ráðamanna. Í kjölfarið voru pantaðar tvær reiknivélasamstæður frá IBM, önnur fyrir Háskólann hin fyrir Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Stjórnmálamenn sáu gagnsemi vélanna við að reikna út auknar álögur á borgaranna og þar með var tölvuöld gengin í garð.

Sprekum kastað á verðbólgubálið

Fátt er nýtt undir sólinni og nú á enn að hækka áfengisgjaldið, samtals um 7,7% samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra kynnti á dögunum. Þar með verða hæstu áfengisskattar álfunnar orðnir enn hærri. Félag atvinnurekenda hefur reiknað út að hækkunin hafi til að mynda í för með sér að kassi af vinsælu léttvíni hækki um 600 krónur í ríkisversluninni, kippa af bjór verði 150 krónum dýrari og þá verði neytandi að greiða 663 krónur til viðbótar fyrir eins lítra ginflösku.

Ríkisstjórnin ætlar semsagt ekki að láta sitt eftir liggja við að kasta sprekum á verðbólgubálið. Sami fjármálaráðherrann og sami formaður Sjálfstæðisflokksins og áður var nefndur lét þau ummæli falla fyrir rétt rúmu ári að skattar á áfengi væru „komnir að ystu mörkum“. Orðrétt sagði hann þá:

„Það er mín skoðun að við séum komin algjörlega út í ystu mörk á skattlagningu. Þá er ég einfaldlega að vísa til þess að við erum líklega með eina dýrustu bjórkrús í Evrópu. Mér finnst ekki endilega að það eigi að vera þannig. Mér finnst að við ættum að geta verið með sambærileg verð [sic] og eru í löndum sem eru á svipuðum slóðum og Íslandi.“
Hann bætti því við að lækkun skatta á áfengi gæti orðið til að styrkja rekstur veitingahúsa. Fróðlegt væri að vita hvað veldur sinnaskiptum ráðherrans eða voru ummælin fyrir ári bara innantómt orðagjálfur til heimabrúks gagnvart flokksfólki? (Og ætli forystumenn Sjálfstæðisflokksins muni ekki flestir flytja innblásnar ræður á komandi landsfundi um frelsi einstaklingsins og uppskera dynjandi lófaklapp — þó svo að þess sjáist varla nokkur merki að flokkurinn sýni slík grunngildi í framkvæmd?)

En fjármálaráðherra boðar ekki bara hærri álögur á áfengi heldur líka bifreiðar sem Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, kallaði gamaldags skattahækkanir í samtali við Vísi. Benti hann á að hækkun vörugjalda kæmi á sama tíma og boðaðir væru vegtollar: „Ég veit ekki hvort menn séu að gera þetta með réttu hugarfari að vera að fara inn í til dæmis kjarasamninga. Svona hækkanir bitna verst á þeim sem minna hafa milli handanna,“ sagði Runólfur. Það var eins og við manninn mælt því haft var eftir formanni VR og verðandi forseta Alþýðusambandsins í sömu frétt að fyrirhugaðar skattahækkanir hefðu bein áhrif á kröfur VR í komandi kjarasamningsgerð.

Útgjaldahliðin stjórnlaus

Ef við lítum til hækkunar útgjalda ríkissjóðs er af mörgu að taka. Einn stærsti útgjaldaliðurinn varðar bætur til öryrkja og að nokkru til málefna fatlaðra. Á fjárlögum er gert ráð fyrir 97 milljörðum til málaflokksins samanborið við 88 milljarða á þessu ári en til hans var varið 76 milljörðum árið 2020. Efnahags- og framfarastofnunin hefur ítrekað vikið að þessum útgjaldaflokki í skýrslum sínum og bent á að styðja þurfi örorkuþega til aukinnar þátttöku á vinnumarkaði. Þessum tillögum hefur lítt (ef þá nokkuð) verið sýnt sem sést af því hvernig málaflokkurinn blæs út.
Á fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir tæpum 54 milljörðum króna til örorkulífeyris en ef litið er til ríkisreiknings 2020 nam sú upphæð 46 milljörðum. Það gerir um það bil fimmtán prósenta hækkun á aðeins tveimur árum. Á fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir 57 milljörðum til örorkulífeyris og tæpum 33 milljörðum til viðbótar til bóta „samkvæmt lögum um félagslagslega aðstoð, örorka“. Annar málaflokkur sem vaxið hefur mikið eru útlendingamál sem heyra undir tvö ráðuneyti. Samtals er gert ráð fyrir rúmum fjórum milljörðum til þess málaflokks. Til samanburðar má nefna að 19 milljörðum er varið til löggæslu á landinu öllu.

Þá nemur kostnaður við sjúkrahúsþjónustu 140 milljörðum á fjárlögum næsta árs samanborið 116 milljarða samkvæmt ríkisreikningi 2020. Hér er dæmi um enn einn málaflokkinn sem blæs út með ógnarhraða og eðlilegt að spyrja hvernig hægt sé að fara betur með skattfé.

Allir vilja stækka báknið

Gert er ráð fyrir því að heildarútgjöld ríkissjóðs fari úr 1.172 milljörðum króna í ár í 1.206 milljarða króna á næsta ári. Áfram verður mikill halli á rekstrinum því tekjurnar eru umtalsvert minni, fara úr 1.030 milljörðum í 1.117 milljarða. Hallinn verður fjármagnaður með lántökum enda núverandi ríkisstjórn verið fyrirmunað að sýna ráðdeild. Alls er heimild til lántöku í erlendri mynt í fjárlagafrumvarpinu upp á 230 milljarða króna. Í fjárlögum fyrir ári var gert ráð fyrir að tekjur á þessu ári yrðu 951 milljarður en tekjurnar eru nú áætlaðar 1.030 milljarðar.

Hér er rétt að rifja upp gagnrýni fjármálaráðs á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem út kom fyrr á þessu ári. Ráðið benti á að tekjur ríkissjóðs eru afar sveiflukenndar og útgjöldin sveiflukennd að sama skapi en öllum tekjuauka er eytt jafnharðan. Af þessu hafi hlotist þrálát skuldasöfnun og stjórnvöld hefðu lítinn vilja til að hafa hemil á útgjöldunum. Sér í lagi væru hættumerki uppi nú vegna tímabundins hagvaxtar sem fjármálaráð sagði í reynd bara „froðu“ sem ekki ætti að nýta til „varanlegra ráðstafana í aukningu útgjalda“.

Þá skorti verulega á aga og festu við stjórn opinberra fjármála að mati fjármálaráðs. Stjórnvöld þyrftu að fylgja af festu fyrirframgefnum markmiðum um hækkun útgjalda — þannig að þau ykjust aðeins „í takti við langtímaleitni vaxtar í efnahagslífinu“. Nú um stundir væri mikil hætta uppi þar sem tekjur ykjust tímabundið vegna verðbólgu. Þetta kallaði fjármálaráð „verðbólgufroðu“.
Við blasir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mun ekki taka á vandanum. Hún mun ekki lækka skatta og áfram munu ríkisútgjöld stóraukast. Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að á síðasta ári hefði átt sér stað mesta fjölgun ríkisstarfsmanna frá því að farið var að halda utan um tölur þar að lútandi. Alls fjölgaði ríkisstarfsmönnum í fyrra um 1.328 eða sem samsvarar 5,3% fjölgun og frá ársbyrjun 2015 hefur stöðugildum á vegum ríkisins fjölgað um 3.989 eða 17,6%. Sjálfstæðisflokkurinn tekur fullan þátt í útþennslunni, hækkar skatta og stóreykur ríkisútgjöld. Og andstaðan hægra megin frá í pólitíkinni er ekki til því gagnrýni stjórnarandstöðunnar lýtur nær eingöngu að því að ekki sé nógu miklu eytt í hitt og þetta. Stjórnarandstaðan vill þar með auka enn skuldsetningu ellegar hækka skatta (nema hvort tveggja sé). Þetta eru í meira lagi broguð stjórnmál þar sem skattgreiðandinn fer sífellt halloka og virðist eiga sér fá formælendur á þingi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum
EyjanFastir pennar
03.03.2024

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð