fbpx
Laugardagur 27.nóvember 2021
Eyjan

Áslaug varar við sósíalisma – „Vísa í samúð og samkennd þegar þau eru í rauninni að boða stærra ríkisvald og hærri skatta“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 14. september 2021 20:48

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Sósíalisminn boðar fögur fyrirheit um betra líf en niðurstaðan verður ávallt sú sama, brostnar vonir,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í grein sem hún birtir í tímaritinu Þjóðmál, en nýju tölublaði ritsins verður dreift til áskrifenda á morgun.

Áslaug segir að flestum hafi verið orðið ljóst fyrir nokkrum áratugum síðan að sósíalismi virki ekki og vinstri stefna hafi ekki ílenst hjá þeim kynslóðum sem löðuðust að henni á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Ekki þurfi að horfa aftur til fortíðar til að sjá brostnar vonir sósíalismans heldur sjáist skipbrot hans í samtímanum, t.d. í samfélögum á borð við Venesúela og Kúbu.

Þrátt fyrir þetta sé sósíalismi að verða aðlaðandi hjá hluta af aldamótakynslóðinni og telur hún það vera áhyggjuefni:

„Þeir sem aðhyllast frjálst markaðshagkerfi ættu að hafa áhyggjur af þessum viðhorfum. Það er ekki nóg að halda að ungt fólk skoði allar hugmyndir með opnum hug en verði síðan skynsamari með aldrinum og fari þá að styðja hið frjálsa markaðshagkerfi. Lýðskrumið sem einkennir þá sem hæst tala fyrir sósíalisma nær ekki bara til ungs fólks heldur einnig til eldra fólks og rétt eins og ´68 kynslóðin mun þúsaldarkynslóðin vaxa úr grasi. Munurinn er þó sá að þúsaldarkynslóðin tengir ekki við hörmungar sósíalismans eins og sú eldri gerir og enn síður við Berlínarmúrinn eða Sovétríkin.“

Áslaug segir að hér á landi sé sósíalísk stefna mest áberandi í málflutningi Sósíalistaflokksins og Samfylkingarinnar en hér sé ekki að finna neina alvöru jafnaðarmannaflokka. Hún segir að vinstri flokkar á hinum Norðurlöndunum viðhafi ekki þann málflutning sem þessir flokkar bjóði upp á, því þeir séu alla jafna fylgjandi frjálsu markaðshagkerfi:

„Talsmenn sósíalisma nútímans vísa í samúð og samkennd þegar þau eru í rauninni að boða stærra ríkisvald og hærri skatta. Við sjáum þessa orðræðu nú í aðdraganda kosninga. Hún kemur ekki bara fram í málflutningi Sósíalistaflokksins heldur einnig í Samfylkingunni og að hluta til hjá flokkum eins og Viðreisn. Vissulega er undarlegt að upplifa það árið 2021 að frambjóðendur og kjörnir fulltrúar vinstriflokkanna séu í keppni um það hver sé lengra til vinstri og besta leiðin til að toppa þá baráttu sé að nota stór og gildishlaðin orð um fólk og fyrirtæki – og auðvitað pólitíska andstæðinga frá hægri.

Það heyrir til undantekninga að vinstriflokkar annars staðar á Norðurlöndunum tali með þessum hætti. Á Íslandi er ekki til neitt sem heitir jafnaðarmannaflokkur en á hinum Norðurlöndunum eru slíkir flokkar iðulega nokkuð stórir í fjölflokkakerfum þeirra landa. Jafnaðarmenn í Danmörku, Noregi og Svíþjóð vilja sterkt og mikið ríkisvald og öflugt velferðarkerfi – en eru þó alla jafna fylgjandi frjálsu markaðshagkerfi, skilvirku atvinnulífi og frelsi einstaklingsins. Þeir átta sig á því að það er atvinnulífið og vinnandi fólk sem að lokum greiðir fyrir hið stóra ríkisvald og því þarf hvoru tveggja að fá að vaxa og dafna.“

Vilji stækka ríkisvaldið í stað þess að stækka kökuna

Áslaug segir að heimsmynd margra vinstri manna á Íslandi byggi annars vegar á andúð á hægri mönnum og frjálsu markaðkerfi og hins vegar á rómantískri draumsýn um að bæta kjör fólks með því að stækka ríkisvaldið og taka meira af vel stæðu fólki og fyrirtækjum. Hún segir þessa leið vera þrautreynda, hún hafi alltaf mistekist.

Hún bendir á að sárafá fyrirtæki á Íslandi teljist til stórfyrritækja, flest séu smá eða meðalstór. „Miklu skiptir fyrir eigendur allra fyrirtækja að búa við stöðugleika og öryggi,
hógværa skattheimtu og skýrt regluverk – en það skiptir ekki síður máli fyrir starfsmenn þeirra fyrirtækja og heimilin í landinu,“ segir hún og segir arðsemi vera nauðsynlega til að fyrirtæki geti vaxið og skapað meiri verðmæti. Hagnaður leiði til aukinna fjárfestinga og aukinna umsvifa sem allir hagnist á. Hún segir enn fremur:

„Samfylkingin, sem er sem fyrr segir í keppni um róttækustu vinstri stefnuna, hefur meðal annars lagt fram hugmyndir um hærri fyrirtækjaskatt á stærri fyrirtæki. Slík skattheimta mun ekki færa hinu opinbera auknar tekjur heldur draga úr hvata fyrirtækja til að stækka, fjárfesta í nýjungum og bæta við sig starfsfólki. Þetta á sérstaklega við um lítil og meðalstór fyrirtæki.“

Í lok greinar sinnar segir Áslaug að við eigum ekki að hafa áhyggjur af stórfyrirtækjum eða ríku fólki heldur eigum við að skapa aðstæður sem geri öllum kleift að bæta sinn hag. Hagkerfi sósíalismans geti hins vegar ekkert fært okkur nema brostnar vonir:

„Við eigum ekki að hafa áhyggjur af stórfyrirtækjum eða efnuðum einstaklingum heldur eigum við að einbeita okkur að því að byggja upp markaðshagkerfið og búa þannig um hnútana að sem flestir geti bætt hag sinn til muna, bæði einstaklingar og fyrirtæki. Það er ekki samfélagslegt vandamál að bakarinn í dæminu hér á undan hagnist á vinnu sinni og fyrirtæki hans stækki. Slíkt gæti hann aldrei gert í niðurbrotnu hagkerfi sósíalismans – og þá verður það vandamál fyrir okkur öll. Sósíalisminn boðar fögur fyrirheit um betra líf en niðurstaðan verður ávallt sú sama, brostnar vonir.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðlaugur er kominn í sóttkví – „Ekki fundið fyrir einkennum og kennir sér einskis meins“

Guðlaugur er kominn í sóttkví – „Ekki fundið fyrir einkennum og kennir sér einskis meins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Traust afkoma OR fyrstu níu mánuði ársins

Traust afkoma OR fyrstu níu mánuði ársins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Baldur yfirgefur Miðflokkinn – Ítrekað orðið vitni að starfsháttum og framkomu sem hann sættir sig ekki við

Baldur yfirgefur Miðflokkinn – Ítrekað orðið vitni að starfsháttum og framkomu sem hann sættir sig ekki við
Eyjan
Fyrir 1 viku

Polestar rafbílar loks fáanlegir hérlendis

Polestar rafbílar loks fáanlegir hérlendis