fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Halldóra sökuð um skort á jarðtengingu: „Ekkert nýtt af nálinni að íhaldsmenn skorti framsýni“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 13. september 2019 10:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Staksteinar Morgunblaðsins í dag taka Halldóru Mogensen, þingmann Pírata fyrir í dag, eða öllu heldur ræðu hennar við stefnuræðu forsætisráðherra, sem Staksteinahöfundur telur með þeim furðulegri:

„…var að vanda hörð samkeppni um undarlegustu ræðuna. Þó að seint verði úr því skorið hvaða þingmaður fór með sigur af hólmi hljóta flestir að vera sammála um að Halldóra Mogensen pírati var í toppbaráttunni.“

Óháð veruleikanum og utan tilverunnar

Staksteinar lýsa því hvernig Halldóra hafi lýst draumsýn sinni, um að enginn þyrfti að hafa áhyggjur af framfærslu og allir gætu gert það sem þá langaði til, óháð efnahagslegum hvötum:

„Þetta kallaði hún „raunverulegt frelsi“, sem mun vera ólíkt því frelsi sem fólk býr við þegar það þarf að taka tillit til raunveruleikans. Svo hélt þingmaðurinn áfram og sagði „hagkerfi heimsins byggja á þeirri glórulausu hugmynd að linnulaus hagvöxtur sé það eina sem samfélög þurfi til að dafna“. Og bætti við: „Hagvaxtarmódelið hefur alið af sér stöðnun raunverulegra framfara. Við erum einfaldlega að stela framtíðinni, selja hana í nútíðinni og við köllum þetta verga landsframleiðslu. Það er auðvitað mikið ánægjuefni að íslenskir þingmenn geti svifið um án nokkurrar jarðtengingar og flutt boðskap sinn óháð þeim veruleika sem annað fólk býr við,“

segir Staksteinahöfundur og bætir við í lokin:

„Ómetanlegt er fyrir Íslendinga að eiga þingmenn sem starfa utan og ofan við tilveruna, þingmenn sem segja hvað sem er og láta ekki lögmál lífsins hafa takmarkandi áhrif á þýðingarmikil störf sín.“

Skortur á framsýni

Píratar hafa áður talað fyrir borgaralaunum, samtryggingarkerfi sem er óskilyrt grunnframfærsla til lífsnauðsynja frá hinu opinbera og er ætlað að leysa af núverandi velferðarkerfi. Ræða Halldóru ber þess glögglega merki.

Halldóra sagði við Eyjuna að ekki væri von á frumvarpi frá Pírötum um borgaralaun á þessu þingi, en mikilvægt væri að halda umræðunni á lofti:

„Við erum bara að halda borgaralaunum í umræðunni. Þetta er okkar róttæka framtíðarsýn. Framtíðarnefnd forsætisráðherra er með það verkefni að skoða fýsileika borgaralauna. Ég veit til þess að fleiri séu að skoða það líka. Það er óháð rannsókn væntanleg.“

Hún sagðist brosa út í annað yfir Staksteinaskrifunum:

„Það er ekkert nýtt af nálinni að íhaldsmenn skorti framsýni. Í ræðu minni bendi ég á að róttæk framtíðarsýn hafi oft verið nauðsynleg forsenda framfara. Miðað við þennan málflutning hefði höfundur Staksteina einmitt verið einn af þeim sem hlegið hefði á sínum tíma að hugmyndum um atkvæðisrétt kvenna, um endalok þrælkunar og lýðræðið sjálft. Ekkert af þessu þótti mjög raunsætt á sínum tíma.“

 

Ræðu Halldóru, sem fór svo fyrir brjóstið á Staksteinahöfundi, má lesa í heild sinni hér að neðan:

Kæra þjóð. Píratar hafa allt frá stofnun kallað eftir kerfisbreytingum og það er sannarlega enn þörf fyrir kerfisbreytingar í íslensku samfélagi. En breytingar mega ekki vera bara breytinganna vegna, það skiptir máli að hafa skýra framtíðarsýn. Við breytum litlu með því að berjast einfaldlega gegn ríkjandi veruleika. Við verðum að byggja nýtt líkan sem kemur í staðinn fyrir það úrelta, bjóða upp á nýjan veruleika, byggja upp frekar en að rífa niður.

Þegar við hugsum um framfarir í dag hugsum við mestmegnis til tækniframfara. Bílar, tölvur, fjórða iðnbyltingin, geimferðir og gúmmístígvél. En framfarir felast einnig í félagslegum breytingum sem grundvallast á róttækri framtíðarsýn. Fyrir ekki svo löngu var hlegið að framsæknum hugmyndum um atkvæðisrétt kvenna, um endalok þrælkunar og lýðræðið sjálft. Allt eru þetta hugmyndir sem teljast sjálfsagðar í dag. Róttæk framtíðarsýn hefur því oft verið nauðsynleg forsenda framfara.

Því vil ég biðja ykkur, kæra þjóð, að hlýða á framtíðarsýn sem gefur mér von og er hvatinn fyrir því að ég stend hér og held þessa ræðu. Ímyndum okkur að þurfa ekki að takmarka líf okkar á þeim forsendum að þurfa að afla tekna, að ná endum saman. Ímyndum okkur að búið væri að tryggja grunnþarfir eins og mat, klæði, skjól og heilsu. Hvernig myndum við nýta tímann? Hvað er það fyrsta sem okkur dettur í hug? Hvort sem draumurinn er að opna fyrirtæki, þróa nýja hugmynd, helga lífið listinni eða hjálpa öðrum — hversu mörg tækifæri fáum við til þess? Hversu mikinn tíma og orku eigum við afgangs eftir átta tíma vinnudag og tvo tíma í umferð við að mæta til vinnu, sækja börnin og sinna erindum?

Fyrir þau okkar sem hafa ekkert bakland og ekkert efnahagslegt öryggisnet getur álagið sem fylgir því að skrimta milli launaseðla verið því sem næst óbærilegt. Ímyndið ykkur að geta lagt þá byrði niður og stigið fram létt á fæti og óhrædd inn í framtíðina. Ímyndum okkur hvernig það væri að lifa við þá vissu að jafnvel þótt okkur mistakist verður hægt að borga reikningana, að grunnframfærslan sé tryggð. Möguleikinn á að gera mistök og læra af þeim er nefnilega mun meira virði en við gerum okkur grein fyrir. Farvegurinn að sannri þekkingu er hlaðinn mistökum og stöðugri aðlögun að þeim, aftur og aftur og aftur. En fæst okkar hafa það frelsi að gera mistök og halda áfram.

Hvar værum við í dag sem samfélag ef við byggjum við raunverulegt frelsi, þá tegund frelsis sem einvörðungu getur sprottið af getu okkar til að taka ákvarðanir byggðar á því sem við viljum gera, það sem við kjósum að gera til að dafna, í stað þess sem við neyðumst til að gera til að lifa af sem er raunveruleiki margra í samfélagi okkar?

Kæra þjóð. Hæstv. forsætisráðherra talar í sinni ræðu um popúlískar hreyfingar sem grafa undan mannréttindum og ýta undir fyrirlitningu almennings á stjórnmálum og lýðræðinu. Ég deili áhyggjum forsætisráðherra af þessari þróun. Það verður brýnna með hverjum deginum sem líður að takast á við rót vandans. Sagan sýnir okkur hversu dýrkeypt aðgerðaleysið er. En er rótin ekki einmitt að stór hluti heimsbyggðar býr við efnahagslegt og félagslegt öryggisleysi sem popúlískir leiðtogar og hreyfingar nýta, kynda undir hræðslu og hatur og hvetja til niðurrifs núverandi kerfa án þess að móta sýn um hvað á að koma í staðinn? Þetta er engin framtíðarsýn, bara sviðin jörð og einhvers konar óljós skilaboð um að hverfa aftur til fortíðar.

Kæra landsfólk. Við Píratar höfum lagt mikla áherslu á að tryggja öllum borgurum skilyrðislausa grunnframfærslu. Við vitum að þegar grunnöryggi og fjárhagslegt sjálfstæði fólks er tryggt bætir það andlega og líkamlega heilsu þeirra sem öryggisins njóta. Tryggð grunnframfærsla eykur frelsi borgaranna. Samfélagsþátttaka vex og öflun þekkingar verður meira en einfalt verkfæri til að afla launa. Tími og rými gefst til þess að láta sig annað og meira varða en að draga fram lífið. Gildi fórnfýsi og umburðalyndis eflist og styrkist samhliða öflugri mannréttindavernd.

Kæra þjóð. Hagkerfi heimsins byggja á þeirri glórulausu hugmynd að linnulaus hagvöxtur sé það eina sem samfélög þurfi til að dafna. Sannarlega er hagvöxtur hluti af jöfnunni, en hann hefur líka alið af sér ójöfnuð, stigmagnandi loftslagsvá, náttúruspjöll og skertan félagsauð. Þessi hagvaxtarþankagangur kyndir undir pólaríseringu og popúlisma og kemur í veg fyrir sameinaðar aðgerðir í loftslagsmálum. Hagvaxtarmódelið hefur alið af sér stöðnun raunverulegra framfara. Við erum einfaldlega að stela framtíðinni, selja hana í nútíðinni og við köllum þetta verga landsframleiðslu.

Það veitir mér því mikla gleði að heyra hæstv. forsætisráðherra tala um velsældarhagkerfið. Ég segi þetta í fullkominni einlægni því að ég tel þetta nýja hugmyndafræði sem gæti gjörbylt samfélaginu okkar til hins betra. Hugmyndafræði velsældarhagkerfisins, ólíkt núverandi kerfi, er að hagkerfi eru samtvinnuð samfélagi og náttúru. Þetta eru samþætt kerfi sem eru innbyrðis háð hvert öðru. Það að tiltekin aðgerð auki hagvöxt er ekki nóg til að réttlæta hana. Velsæld er niðurstaða margra þátta, góðrar andlegrar og líkamlegrar heilsu, jöfnuðar, sanngirni, jákvæðra félagslegra tenginga og dafnandi vistkerfis. Velsældarhagkerfið tryggir að handhafar ríkisbuddunnar beri virðingu fyrir fólkinu í samfélaginu okkar og virðingu fyrir náttúrunni sem hýsir það.

Kæra landsfólk Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni að grunnskylda okkar allra væri við samfélagið. Sú hugmyndafræði er ekki ný af nálinni en rímar því miður óþægilega við hugmyndir valdhygginna stjórnmálamanna á fyrri hluta 20. aldar, að samfélagið sé eins konar yfirmaður og við þjónar þess. Ég held reyndar að grunnskylda samfélagsins hljóti að vera gagnvart fólkinu sem það skipar. Okkur ber að hanna samfélag sem stuðlar að síbatnandi lífi fyrir okkur öll, að grunnþörfum allra sé mætt án þess að ræna komandi kynslóðir framtíð sinni, að hér hafi hver einstaklingur tækifæri til að vaxa og dafna og njóta góðs af samfélagslegum framförum. Einu sinni þótti þetta róttæk framtíðarsýn en vonandi ekki öllu lengur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, krefjast þingrofs og nýrra kosninga

Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, krefjast þingrofs og nýrra kosninga
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG