fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Björn Leví ögrar Steingrími J: „Ég nota nú orð sem all­ir skilja og þar á meðal siðanefnd“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 21. maí 2019 15:22

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég nota nú orð sem all­ir skilja og þar á meðal siðanefnd: Nú er rök­studd­ur grun­ur um það að Ásmund­ur Friðriks­son hafi dregið að sér fé, al­manna­fé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efn­is að verið sé að setja á fót rann­sókn á þeim efn­um. Ég segi þessi orð með fullri vitn­eskju um að þau hafi verið dæmd sem brot á siðaregl­um þing­manna. Við vit­um það hins veg­ar öll hérna inni, að þau eru sönn. Fyr­ir því ligg­ur játn­ing og staðfest­ing í frá­vís­un for­sæt­is­nefnd­ar. Þess vegna er þetta rök­studd­ur grun­ur í allri merk­ingu þeirra orða. Ef við get­um gerst brot­leg við siðaregl­ur fyr­ir að segja sann­leik­ann, þá er voðinn vís,“ “

sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata í ræðu sinni á Alþingi í dag. Mbl.is greinir frá.

Endurtók hann þar með sömu orð og siðanefnd taldi brjóta gegn siðareglum Alþingismanna, þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hafði þau um Ásmund Friðriksson í Silfrinu á síðasta ári.

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, taldi orð Björns Leví vera ósæmileg.

Orðanotkun Björns Leví er því augljósleg ögrun við forsætisnefnd Alþingis, sem hlýtur að vísa málinu til Siðanefndar Alþingis, líkt og í máli Þórhildar Sunnu. Björn Leví hefur áður kallað Ásmund þjóf, en það þótti ekki nægileg ástæða fyrir forsætisnefnd til að vísa málinu áfram til Siðanefndar, ekki frekar en máli Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, eða Klaustursþingmanna, en allir þessir brutu augljóslega gegn siðareglum Alþingismanna.

Sjá: Siðareglur Alþingismanna

Björn Leví sagði einnig:

„For­seti, mig langar því að vera eins skýr­mæltur og ég get vegna álits for­sætis­nefndar þegar erindi mínu um end­ur­greiðslur vegna akst­urs­kostn­aðar var vísað frá þar sem kom fram að Ásmundur Frið­riks­son hafði vissu­lega fengið end­ur­greiðslu frá Alþingi vegna þátta­gerðar fyrir ÍNN. Að hann hafði fengið end­ur­greiðslur fyrir notkun á eigin bíl þrátt fyrir að það var gegn reglum um slíkar end­ur­greiðslur og vegna þess að Ásmundur ját­aði að hafa fengið end­ur­greiðslur vegna próf­kjörs­bar­áttu í eigin flokki sem er klár­lega ekki hluti af starfi hans sem þing­manns.“

Vítaverð ummæli

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ummæli Björns Leví vera vítaverð og gera lítið úr málsmeðferð siðanefndar:

„Ég tel nú að ummælin hafi nú stappað nærri að vera víta­verð eins og þing­sköp kveða á um. Ekki ein­göngu vegna þess að í þeim fólst end­ur­tekn­ing á aðdrótt­unum og æru­meið­ingum í garð hátt­virts þing­manns, Ásmundar Frið­riks­son­ar. Heldur líka vegna þess að það er auð­vitað verið að gera lítið úr þeirri máls­með­ferð sem átt hefur sér stað hér á vegum þings­ins, bæði af hálfu hátt­virtrar for­sætis­nefndar og siða­nefndar og ég verð að segja að mér finnst afar sér­kenni­legt að hátt­virtur þing­maður Pírata, Björn Leví Gunn­ars­son, gangi fram með þeim hætti í ljósi allrar for­sögu máls­ins og hvað það hefur fengið mikla umfjöllun og hvernig þessum ásök­unum hans og fleiri hefur verið svar­að.“

Uppfært –

Getur ekki kvartað undan einelti

Björn Leví skrifaði færslu á Facebook í kjölfar ræðu sinnar á Alþingi:

„Þingmaður sem segist fá endurgreiðslu vegna prófkjörsbaráttu í eigin flokki, vegna þáttagerðar fyrir sjónvarp eða vegna notkun á eigin bíl sem er andstætt reglum getur ekki kvartað undan einelti þegar spurt er hvort ekki eigi að rannsaka málið betur. Það er skrumskæling á því hvað einelti er.

Málið hefur ekki verið rannsakað. Forsætisnefnd hefur vísað erindi um rannsókn frá þar sem fram kom viðurkenning á þeim brotum sem þingmaðurinn hafði sjálfur greint frá. Ég hlýt því að endurtaka spurningu mína um rannsókn, nú með orðum sem allir skilja.

Út af því hvernig þetta mál ber að, með játningu um vafasamar endurgreiðslur þá hef ég ekkert að afsaka. Hvorki nú eða ef rannsókn leiðir ekki til sakfellingar. Tilefnið um rannsóknarbeiðni er óvéfengjanlegt. Hvort það takist að sanna eða afsanna er annað mál og hvort sem niðurstaðan var sekt eða sakleysi þá er alltaf rétt að biðja um rannsókn við þessar aðstæður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt