fbpx
Miðvikudagur 30.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnir og viðskipti

Eyjan
Fimmtudaginn 20. mars 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar aðalritari NATO var í Hvíta húsinu á dögunum treysti hann sér ekki til að taka afstöðu til hugmynda Bandaríkjanna um að innlima Kanada og Grænland.

NATO var þó stofnað í þeim tilgangi einum að verja fullveldi aðildarríkjanna.

Fyrir forsetakosningarnar 2016 staðhæfði Trump að NATO væri gagnslaust. Ég upplifði þögn aðalritarans um fullveldi aðildarríkjanna eins og hún væri staðfesting á þessari rúmlega átta ára gömlu staðhæfingu forseta Bandaríkjanna.

Tvíþætt viðbrögð

Hvað sem þessu líður er NATO enn til. Það væri óhyggilegt að afskrifa bandalagið við svo búið. Ekki er unnt að útiloka að endurvekja megi traust á gagnsemi þess. Vandinn er aftur á móti sá að það er mikilli óvissu undirorpið.

Viðbrögð forystumanna flestra Evrópuþjóða eru tvíþætt:

Annars vegar láta þeir eins og NATO sé enn fullvirkt og reyna að halda Bandaríkjunum á gamla sporinu.

Hins vegar undirbúa þeir með margvíslegum hætti að taka alfarið ábyrgð á eigin vörnum. Það mun taka tíma og kosta nokkrar fórnir. En Evrópa hefur efnahagslega burði til þess.

Þetta getur gerst með ýmsu móti. Evrópuþjóðirnar geta smám saman tekið NATO yfir, þróað samstarf sem Bretar eru í forystu fyrir og Ísland á aðild að eða eflt samstarfið innan ESB.

Tvær hliðar á sama peningi

Á sama tíma og Bandaríkin setja vestrænt varnarsamstarf í uppnám hefja þau efnahagsstríð við bandalagsþjóðir sínar jafnt sem önnur ríki.

Frá upphafi NATO-sáttmálans hefur varnar- og efnahagssamstarfið verið samofið. Sáttmálinn byggir á sameiginlegri hugmyndafræði um fullveldi og frelsi. Áður en komið er að ákvæðum sem lúta að hervörnum er þar fjallað um mikilvægi efnahagslegrar samvinnu.

Þannig hafa NATO og Evrópusambandið í raun verið tvær hliðar á sama peningi.

Efnahagssamstarfið hefur verið nauðsynlegt hryggjarstykki í varnarsamstarfinu um leið og það hefur styrkt verðmætasköpun og eflt velferð í aðildarríkjunum beggja megin Atlantshafsins.

Meiri samþætting viðskipta og varna

Á undanförnum árum hafa þjóðir í ríkari mæli en áður blandað saman viðskiptum og vörnum með beinum hætti.

Viðskiptaþvingunum er til að mynda í vaxandi mæli beitt í stað hernaðaraðgerða. Litið hefur verið svo á að í því fælist minni stigmögnun í átökum þjóða. Áhrifin eru eðlilega misjöfn.

Tæknilegar viðskiptahindranir af ýmsu tagi hafa færst í vöxt meðal annars til að stemma stigu við áhrifum Kínverja.

Tollastríð ríkisstjórnar Bandaríkjanna hefur meðal annars þann tilgang að grafa undan efnahagslegu sjálfstæði landa þar sem hún vill komast til meiri pólitískra áhrifa.

Ein og sér eða í bandalagi

Við þessar aðstæður kemst Ísland ekki hjá því að leggja mat á nýjar aðstæður bæði að því er varðar beinar hervarnir og efnahagslega samvinnu. Það er ekki hægt nú frekar en áður að skilja þessa þætti að.

Þegar öllu er á botninn hvolft er enn mikilvægara en áður að líta á þessi viðfangsefni sem eina heild.

Þótt við séum aðilar að innri markaði Evrópusambandsins stöndum við til að mynda utan við tollabandalagið.

Hvernig er hagsmunum okkar best borgið?

Á Ísland í allsherjar tollastríði að skylmast eitt og óstutt á annað borðið við Bandaríkin og á hitt við Kína? Eða eigum við að verjast sameiginlega í tollabandalagi með öðrum Evrópuþjóðum?

Stöðugreining er nauðsynleg

Sterk rök hníga að því að Ísland sé sterkara í bandalagi með þjóðum sem við erum þegar í samvinnu við bæði í efnahagsmálum og varnarmálum.

Aðrir kunna að halda því fram að besta vörnin sé í hlutleysi. Reynslan styður ekki þá kenningu.

En kjarni málsins er sá að stjórnvöld hafa ekki enn kallað til óháða sérfræðinga til þess að leggja mat á þessa spurningu.

Á endanum er þetta alltaf pólitísk ákvörðun. En sérfræðilegt mat er mikilvægur þáttur í þeim málefnalegu umræðum sem eru forsenda skynsamlegra ákvarðana.

Þjóðin getur því gert réttmætt kall til þess að utanríkisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra láti gera greiningu af þessu þegar í stað. Það liggur á að vinna hratt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Flís og bjálki – þar er efinn

Svarthöfði skrifar: Flís og bjálki – þar er efinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“
EyjanFastir pennar
27.03.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Boðflennur, fullveldi og fjölþjóðasamvinna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Boðflennur, fullveldi og fjölþjóðasamvinna
EyjanFastir pennar
26.03.2025

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?