Eftirfarandi skilaboð manns til konu í gegnum Messenger urðu þess valdandi að lögregla lagði hald á síma hans og hefur nú fengið úrskurðað fyrir tveimur dómstigum að rannsaka megi innihald símans:
„Þú ert búin að vera með þessum stórkostlega manni síðan 198X ætla að senda honum skilaboðin okkar og myndböndin þar sem þú ert að fróa þér á morgun…. Er á næturvakt núna og nenni því ekki.”
Konan kærði skilaboðin til lögreglu sem lagði halda á síma mannsins. Í yfirheyrslum lögreglu neitaði maðurinn því að hafa tekið upp eða fengið sent kynferðislegt myndefni af konunni. Hann sagðist ekki reka minni til þessa spjalls og að hann væri ekki viss um að þetta væri hann að tala við konuna en að ljósmyndin á Facebook-prófílnum væri af honum sjálfum. Þegar lögregla spurði hvort hún mætti skoða síma hans heimilaði hann það í fyrstu en snerist hugur eftir að hafa ráðfært sig við verjanda sinn.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist heimildar til rannsóknar á símanum og úrskurðaði Héraðsdómur Reykjaness að embættinu væri heimil rannsókn á rafrænu innihaldi símans, sem er af gerðinni Samsung Galaxy S20. „Heimildin nær til leitar, skoðunar og afritunar á þeim rafrænu gögnum sem símtækið kann að geyma og
þeim skýjaþjónustum sem hafa verið notaðar með tækinu hvort sem um er að ræða samfélagsmiðla, samskiptaforrit, tölvupósta eða gagnageymslur,“ segir í niðurstöðunni.
Maðurinn áfrýjaði úrskurðinum til Landsréttar sem staðfesti úrskurð Landsréttar svo ljóst er að fara mun fram rannsókn á innihaldi símans. Heimildin er rökstudd með vísan til 70. greinar laga um meðferð sakamála, þar sem kemur fram að leggja megi halda á bréf og sendingar, sé það gert vegna rannsóknar á broti sem geti varðað fangelsisrefsingu.
Meint brot mannsins varða 199. grein almennra hegningarlaga, þar sem segir að hver sem útbýr, aflar sér eða öðrum, dreifir eða birtir myndefni, texta eða sambærilegt efni, þar með talið falsað efni, af nekt eða kynferðislegri háttsemi annars manns án hans samþykkis skuli sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Samkvæmt 2. málsgrein lagagreinarinnar varðar sömu refsingu að hóta því sem greinir í 1. málsgrein, enda sé hótunin til þess fallin að vekja hræðslu eða kvíða hjá þeim sem hún beinist að.