Lögregla stöðvaði ökumann í Hafnarfirði í gærkvöld og reyndist hann bæði vera sviptur ökuréttindum og undir áhrifum fíkniefna. Í bílnum voru einnig tvö börn. Var börnunum komið í hendur móður sinnar og barnavernd tilkynnt um málið.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá því að hópslagsmál unglinga brutust út í miðborginni í nótt. Lögregla tók niður upplýsingar á staðnum og síðan fóru allir sína leið.
Maður var handtekinn í miðborginni eftir að hafa reynt að stinga mann með skrúfjárni. Árásarmaðurinn er í ólöglegri dvöl í landinu. Var hann vistaður í fangaklefa.
Brotist var inn í íbúð í Kópavogi í gærkvöld og er málið í rannsókn.
Eldur kviknaði í íbúð í hverfi 109. Var það lítill eldur og urðu ekki miklar skemmdir, íbúðin var reykræst.