fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Benedikt segir „hrikalegar fréttir“ berast út um bakdyr Ráðhússins á Akureyri – Veltir fyrir sér hvort brögð séu í tafli

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 24. nóvember 2021 16:30

Benedikt og Akureyri - Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hrikalegar fréttir berast út um bakdyr Ráðhússins á Akureyri,“ segir Benedikt Sveinsson, 69 ára gamall íbúi á Akureyri í pistli sem birtist í Vikublaðinu.

Þessar hrikalegu fréttir sem Benedikt á við varða rekstur Öldrunarheimilanna á Akureyri en reksturinn á því var um nokkuð langt skeið í höndum bæjarfélagsins. „Á ýmsu gekk í samskiptum við ríkið varðandi rekstrarfjármögnun –  en lengi vel „stærðu bæjarfulltrúar á Akureyri sig af þessum rekstri“ og fullyrtu að metnaður og framsýni einkenndi starfsemina – og Akureyri „væri ótvírætt í fremstu röð“ að því er þjónustuna varðaði. Bæjarstjórnin ákvað hins vegar samhljóða að skila verkefninu til ríkisins,“ segir Benedikt í pistlinum.

„Snemma á þessu ári varð það svo staðfest að hagnaðardrifið einkafyrirtæki hefði tekið við rekstrinum – með samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Jafnhliða kvisaðist (óstaðfest) að EKKI VÆRI GERT RÁÐ FYRIR LEIGUGREIÐSLUM Heilsuverndar vegna nýtingar á núverandi húsnæði. Uppsagnir langtímastarfsfólks á Öldrunarheimilum Akureyrar þóttu í framhaldinu eðlilegar – og tæpast fréttaefni – enda meðvirkni fjölmiðlanna með fjármagninu og hinum valdamiklu óþægilega einkennandi hér í bænum um þessar mundir.“

„Óvænt“ og „furðulegt“

Benedikt segir að það hafi verið „næstum óvænt“ að Heilsuvernd, sem tók við rekstrinum í vor, hafi gert tilboð í húseignirnar sem hýsa megnið af öldrunarþjónustunni. Benedikt segir þá að það hafi verið „ennþá furðulegra“ að sjá jákvæðu viðbrögðin við því hjá bæjarráði Akureyrar.

„Húseignir öldrunarþjónustunnar á Akureyri eru samfélagseign, fjármagnað með gjöfum velvildaraðila, framlögum úr Bæjarsjóði og Ríkissjóði og nú um skeið með verulegum framlögum úr Framkvæmdasjóði Aldraðra – og ekki auðvelt að sjá að siðferðilega hafi Bæjarstjórn Akureyrar neinn rétt á að taka að sér hlutverk seljenda þessarra eigna þótt þeim hafið verið trúað fyrir uppbyggingu og rekstri nú um skeið,“ segir hann.

Hann veltir þá fyrir sér áformum bæjarfulltrúanna, það er að segja í hvað andvirði sölunnar myndi fara. „Dettur til að mynda einhverjum í hug að það sé verjandi ráðstöfun að Bæjarfulltrúar á Akureyri ákveði að selja Heilsuvernd húsnæði Hlíðar og Lögmannshlíðar  –  fyrir segjum 3 milljarða – og verja söluandvirðinu að miklu leyti til að byggja til dæmis knattspyrnuvöll fyrir meistaraflokka KA, sem hljóða nú ákafar en nokkru sinni?“ spyr hann.

„Dettur einhverjum virkilega í hug að núverandi 11 Bæjarfulltrúar hafi siðferðilegan eða pólitískan rétt á að taka að sér hlutverk seljanda að þessum eignum samfélagsins – að þessum eignum sem eldri borgarar bæjarins sem þarna eiga heimili sín og þeir hinir sem bíða – eiga alla heimtingu á að séu til staðar nú og framvegis og standa þeim opin á bestu kjörum til ævarandi framtíðar – og verja kannski bróðurpartinum af söluandvirðinu til að byggja ráðhús?“

Veltir fyrir sér hvort brögð séu í tafli

Benedikt segir að það sé umdeilanlegt að rekstur öldrunarþjónustu sem rekin er að fullu á kostnað opinberra sjóða sé einkarekin. „Bæði eru efasemdir um hagkvæmni slíks og ekki síður um siðferði þegar fyrir liggur að hagnaðardrifinn einkarekstur hefur tilhneigingu til að kreista peninga út úr rekstrinum með því að skerða þjónustu, undirmanna af fagfólki og með því að kreista starfsfólkið umfram ásættanleg mörk,“ segir hann.

„Reynsla Svía, Breta og til að mynda Kanadamanna í gegnum Covid-19 hefur meðal annars kallað eftir umræðu og endurmati á einkavæddum rektsri á sviði öldrunarþjónustunnar alveg sérstaklega.“

Þá segir hann að eftir eigi að skoða hvaða samkeppnisforsendur séu til staðar sem gætu réttlætt útboð á þjónustu sem þessari. „Allir sjá að á Akureyri verður ekki grundvöllur fyrir mörg fyrirtæki á sviði öldrunarþjónustu og þess vegna –  út frá markaðslegum forsendum –  afar brýnt að sveitarfélagið/ríkisvaldið – aðhafist ekkert sem getur bókstaflega útilokað að öldrunarstofnanir á Akureyri geti boðið upp á góða og metnaðarfulla þjónustu fyrir okkar veikburðasta fólk –  annað hvort með samningsrekstri/útboði eða með opinberum rekstri og þá auðvitað ásættanlegri hagkvæmni um leið.“

Benedikt veltir því þá fyrir sér hvort brögð séu í tafli. „Þegar Heilsuvernd gerir tilboð í húsnæði öldrunarstofnana er nefnilega heldur betur ástæða til að staldra við. Í einkarekstri opinberrar þjónustu –  í hagnaðarskyni –  er það alþekkt  módel að stilla upp rekstrarfélögum og fasteignafélögum og mögulegum undirverktökum – hlið við hlið – í eigu skyldra eða bókstaflega sömu aðila,“ segir hann.

„Með því verður auðvelt að stýra því hvar „afgangur myndast“ – eða eftir atvikum „arður verður til“. Auk þess leika margir svokallaðir fjárfestar sér að því að búa til flækju fyrirtækja – sem á endanum eru með óljóst/falið eignarhald –  í skattastkjóli eða þar sem ekki er greiddur heiðarlegur skattur af arðmyndun inn í það samfélag sem skapar þann hagnað.“

Hann nefnir svo dæmi um hvernig rekstur sem þessi getur endað illa. „Í nágrannalöndum hafa menn meðal annars fengið að kynnast því að rekstraraðilar skuldsetja rekstrarfélögin – með yfirverðlagningu á húsaleigu, fagþjónustu og ýmiskonar viðskiptum við systurfélög – og jafnvel með rándýrum eigendalánum – og stýra þannig fjármunum samfélagsins/ríkisins frá neytendum þjónustunnar og til eigendanna,“ segir hann.

„Ótrúlega fáranleg afglöp“

Benedikt segir að ef af sölunni verður, það er að segja ef Heilsuvernd fær að kaupa húsnæði Hlíðar og Lögmannshlíðar, þá muni strax koma upp tvenns konar siðklemma.

„1) Líklegt er að Heilsuvernd greiði eigin fasteignafélagi umtalsverðar fjárhæðir í leigu –  sem reiknast þá sem kostnaður við þjónustuna og sótt verður fjármögnun á til ríkissjóðs.   Ef ekki fæst bein fjármögnun á þessum viðbótarkostnaði þá dregur kraft úr þjónustunni eða starfsliðið verður pressað til að hlaupa hraðar og sæta lakari kjörum.   Og hvers vegna ætti svo hið opinbera að fjármagna yfirverðlagða leigu á fasteignum sem nú eru í samfélagseigu?

2) Ekki verður mögulegt að bjóða út rekstur Öldrunarheimila á Akureyri  að nýju og reikna með því að aðrir aðilar hafi bolmagn til að gera raunhæf tilboð í reksturinn –  og eiga þá eftir að sæta „sjálfdæmi Heilsuverndar um verðlagningu“ á leigu fyrir aðstöðuna.“

Hann segir að engar líkur séu á því að Heilsuvernd sé að sækjast eftir eignarhaldi á fasteignum öldrunarþjónustunnar til annars en að hagnast vel á því og skapa sér lykilstöðu. „Þess vegna er tilboð Heilsuverndar einkum og sér í lagi til staðfestingar á óskammfeilni rekstraraðilans og ódulbúin staðfesting á gróðasókn umfram nokkurt hóf,“ segir hann.

„Þess vegna er „samhljóða jákvætt viðbragð Bæjarráðs Akureyrar“ –  ótrúlega fáránleg afglöp og það „að skoða í pakkann og sjá hvað þeir eru tilbúnir að borga“ svo hrikalega auðvirðilegt að gömul sagnapersóna H C Andersen – hann Stóri Kláus – stekkur ljóslifandi inn á pólitíska sviðið á Akureyri í aðdraganda jólanna 2021. Að ætla að sjá til  „hvað fæst fyrir heimilið hennar ömmu“ – gerir þetta mál allt annað en „grátbroslegt“.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd