„Í morgun var ekið á 10 ára gamlan dreng sem slapp sem betur fer við mikil meiðsli en hann var þó fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en var útskrifaður þaðan skömmu síðar. Það er með þetta eins og svo margt annað, við verðum öll að leggjast á eitt með það að gera það sem við getum til að koma í veg fyrir slysin og í sameiningu þá hjálpumst við að með það,“ segir í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum sem varar sterklega við að börn noti rafhjól á bílagötum.
Samkvæmt lögum má ekki aka á rafhjólum á akbrautum. Hins vegar er ekkert aldurstakmark varðandi notkun á hjólunum. Varað er við hættulegri notkun barna á rafhjólum og segir orðrétt:
„Krakkar sem eru á þessum rafmagnshlaupahjólum bruna oft eftir gangstéttum og framhjá innkeyrslum þar sem bifreiðum er ekið út af, að sjálfsögðu má einnig heimfæra þetta yfir á reiðhjólin en rafmagnshjólin fara þó hraðar yfir. Við þurfum að kenna börnunum okkar á umferðina og leiðbeina þeim, það er ekki nóg að kaupa hjól og hjálm og segja svo bara „farðu varlega.““