Stefnan í stjórnkerfinu og bönkunum er að hreinsa út fyrirtæki sem voru illa stödd áður en Covid-faraldurinn skall á. Það er kallað nauðsynleg leiðrétting.
Þessu er haldið fram í viðhorfspistli á vefmiðlinum Viljanum sem Björn Ingi Hrafnsson ritstýrir.
Í pistlinum er því haldið fram að margra bíði harkaleg lending þegar rennur upp fyrir fólki og fyrirtækjum að ferðamenn eru ekki á leiðinni hingað til lands í stríðum straumum næstu misserin og strípaðar atvinnuleysisbætur bíði margra með haustinu. Viðbúið sé að mörg fyrirtæki gefist upp á næstunni.
„Það verður bæði sárt og erfitt að spóla aftur á bak í tíma. Og ávísun á harkalega lendingu hjá mörgum. Það er bara óumflýjanlegt,“ segir í pistlinum.
Því er ennfremur haldið fram að þessar hreinsanir séu ástæðan fyrir því hvað langan tíma það tekur að afgreiða björgunaraðgerðir á borð við brúarlán, lokunarstyrki og stuðningslán:
„Svo er hitt, sem enginn þorir að segja –– upphátt að minnsta kosti. Sem er að stefnan í stjórnkerfinu og hjá bönkunum er að hreinsa út þá sem stóðu illa fyrir og voru í reynd komnir að fótum fram af margvíslegum ástæðum þegar kórónuveiruósköpin dundu yfir.
Þetta er kallað nauðsynleg leiðrétting.
Það er þess vegna sem allskyns björgunaraðgerðir á borð við brúarlán, lokunarstyrki og stuðningslán eru jafn lengi í fæðingu og raun ber vitni. Það er þess vegna sem ekkert af þessu er enn komið til framkvæmda, jafnvel þótt vikur og mánuðir líði og hver mánaðarmótin á fætur öðrum.
Veitingamaður einn benti í gær á að ekki hafi ein umsókn verið afgreidd enn, enda hvergi hægt að sækja um.
„Kannski á að hreinsa út litlu fyrirtækin.“
Það skyldi þó ekki vera?“