fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Fréttir

Bókaútgefandi ber Eymundsson þungum sökum

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 9. júní 2020 13:23

Jakob F. Ásgeirsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jakob F. Ásgeirsson, eigandi bókaútgáfunnar Uglu, ber Pennann Eymundsson þungum sökum. Allar bækur forlagsins í bókabúðum Eymundsson hafa verið endursendar á forlagið og eru bækur frá Uglu ekki lengur þar til sölu. Ástæðan er sú að bækurnar eru einnig til sölu sem hljóðbækur hjá streymisveitunni Storytel. Titlar útgáfunnar hafa jafnframt verið þurrkaðir úr af vef Pennans Eymundsson.

Jakob rekur málið í löngum pistli á Facebook-síðu sinni. Þar segir meðal annars:

„Á þessu ári, 2020, hefur Ugla gefið út 18 bækur og 5–7 bækur eru væntanlegar fram á haust. Nær allar þessar bækur munu því ekki vera til sölu í verslunum Pennans Eymundsson þar sem um 90% af allri sölu nýrra bóka á almennum markaði fer fram frá janúar til október á hverju ári. Aðgerð Pennans sýnist því ætlað að stilla Uglu upp við vegg: Annað hvort hættir hún að gefa út nýjar bækur sem hljóðbækur til sölu hjá Storytel eða hún verður knésett. Jafnframt sýnist Uglu ætlað að vera víti til varnaðar fyrir aðra bókaútgefendur: Nú sjáið þið hvernig fer fyrir ykkur ef þið vogið ykkur að gera hljóðbækur úr nýútkomnum bókum og hafa þær til sölu hjá Storytel!“

Jakob bendir á að mikill vöxtur hafi verið í sölu hljóðbóka erlendis á undanförnum árum og algengt sé að erlendis komi bækur út í hljóðbókaformi, rafbókaformi og hefðbundnu bókarformi á sama tíma. Síðan segir hann:

„Sem útgefandi lít ég á hljóðbókastreymið sem velkomna viðbót við bókamarkaðinn sem hefur átt erfitt uppdráttar. Það er alls ekki reynsla mín að hljóðbókastreymið leiði til dvínandi sölu á prentuðu bókinni. Þeir sem hlusta mest á hljóðbækur gera það meðfram öðrum athöfnum, þ.e. á hlaupum, á gangi, í líkamsrækt, jafnvel í sundi, við akstur, við margvíslega líkamlega vinnu og undir svefn, auk þess sem fólk sem á við sjón- og lestrarörðugleika af ýmsu tagi að stríða tekur hljóðbókinni fagnandi. Sú tækninýjung sem felst í starfsemi streymisveitna er því leið til að stækka bókamarkaðinn og gera útgefendum kleift að ná til stærri og breiðari kaupendahóps með vöru sína. Það hlýtur að vera skýlaus réttur minn sem útgefanda að færa mér í nyt tækninýjungar til að koma útgáfubókum Uglu á framfæri við sem flesta og sömuleiðis að skipta við hvern þann smásala sem mér hugnast.“

Jakob bendir á að Penninn Eymundsson hafi ríkum skyldum að gegna sem markaðsráðandi aðili á bóksölumarkaði. Sakar hann fyrirtækið um að ætla að knésetja lítið útgáfufyrirtæki: „Ef Ugla fær ekki að selja nýjar bækur í verslunum Pennans Eymundsson er starfsemi hennar nánast sjálfhætt,“ segir Jakob.

Jakob hefur ákveðið að tilkynna ákvörðun Pennans Eymundsson til Samkeppniseftirlitsins.

Ekki náðist í Margréti Jónu Guðbergsdóttur, sölustjóra hjá Eymundsson við vinnslu fréttarinnar.

Pistill Jakobs er hér að neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt