Eigendur Spot anda léttar en þeim tókst að endurheimta allt þýfi eftir bíræfið stórrán á staðnum í nótt. DV greindi frá þessu í morgun.
Brotin var rúða baka til í húsnæðinu og farið þar inn. Stolið var verðmætum fyrir allt að 10 milljónir króna, ef ekki meira. Var þar meðal annars um að ræða ljóskastara, flatskjái, hátalara, magnara, verkfæri og fleira.
Í frétt DV var skorað á þá sem hefðu upplýsingar um málið að hafa samband við eigendur Spot. Fréttin hafði mikil áhrif en eigendurnir höfðu samband við DV undir kvöld og sögðu að með nafnlausri ábendingu hefði þeim verið vísað á allt þýfið og það væri núna endurheimt. Fjölmargar ábendingar bárust þeim eftir að fréttin birtist.
„Þetta er allt komið til baka og við þökkum DV fyrir,“ segir einn eigendanna.
Þetta er mikill léttir fyrir eigendur Spot eftir áfall næturinnar en þeir voru langt komnir með endurbætur á húsnæðinu. Þar má búast við mikilli gleði eftir að slakna tekur meira á samkomubanni er líður á sumarið.