Guðmundur Kristjánsson, kenndur við útgerðarrisann Brim, upplýsti í viðtali við Kastljós í kvöld hvers vegna hann hafi látið af störfum sem forstjóri fyrirtækisins fyrir skömmu. Áður hafði hann gefið út að hann væri hættur af persónulegum ástæðum og vakti það upp grunsemdir sumra um veikindi. Guðmundur sagði hins vegar í Kastljóssviðtalinu að hann væri við góða heilsu.
Hinar persónulegu ástæður Guðmundar eru í raun viðskiptalegar, þ.e. hann segir að sífelld afskipti Samkeppniseftirlitsins af fyrirtækinu hafi valdið því að hann ákvað að stíga til hliðar. „Ég sá að fyrirtækið gæti ekki gert neitt á Íslandi vegna þess að það væri alltaf verið að rannsaka mig.“ Aðspurður sagðist hann telja að afskiptin væru mjög bundin við hans persónu.
Samkeppniseftirlitið ætlar að hefja rannsókn á því hvort kaup Útgerðarfélags Reykjavíkur á HB Granda, sem í dag heitir Brim, hafi verið tilkynningaskyld til Samkeppniseftirlitsins, og hvort yfirráð Guðmundar og bróður hans, Hjálmars Þórs Kristjánssonar, í Brimi, hafi verið samkeppnishamlandi.
„Af hverju er Samkeppniseftirlitið að eyða svona mikilli orku í íslenskt útflutningsfyrirtæki?“ spurði Guðmundur og benti á að hann hefði haldið að Samkeppniseftirlitið ætti fyrst og fremst að vernda íslenska neytendur og samkeppni á íslenskum markaði en fyrirtæki eins og Brim væri að keppa á erlendum markaði að miklu leyti.
Guðmundur var minntur á að hann sæti áfram í stjórn Brims og yrði ekki áhrifalaus. „Ég er ekki að hætta í sjávarútvegi,“ sagði Guðmundur. Hann sagði það vera lamandi fyrir starfsemi fyrirtækja að vera árum saman undir rannsókn samkeppnisyfirvalda. Hann vildi skýrar leikreglur og gegnsæi en benti á að Eimskip hefði verið undir rannsókn í tíu ár og erfitt væri að starfa við slíkar aðstæður.
Spyrill Kastljóss sagði við Guðmund að sjávarútvegur virkaði fyrir mörgum sem mjög samansúrruð atvinnugrein og spurði hvort ekki væri rétt að Samkeppniseftirlitið hefði yfirsýn og skoðaði stóra gjörninga sem ættu sér stað. „Samkeppniseftirlit á að vera gott en það verður að vera skilvirkt, gengur ekki að verið að rannsaka menn og fyrirtæki svo árum skipti,“ svaraði Guðmundur.
Sagði hann að þríeyki Almannavarna væri dæmi um gott og leiðbeinandi stjórnvald sem gæfi út leiðbeiningar á hverjum degi. Samkeppniseftirlitið krefðist þess hins vegar að vera sífellt upplýst um viðskiptaákvarðanir jafnvel þó að kaup væru ekki gengin í gegn. Ekki væri hægt að stunda viðskipti við slík skilyrði.
Þegar Guðmundi var bent á samþjöppun kvótans á hendur tiltölulega fárra og stórra samsteypna sagði hann að Íslendingar yrðu að ákveða hvort þeir vildu hagkvæman og arðbæran sjávarútveg eða hvort hér ættu bara að vera margir og litlir aðilar. Stærstu sjávarútvegsfyrirtækin hér á landi væru ekki stór í samanburði við erlenda keppinauta á erlendum markaði og endurnýjun skipa og tækjakosts væri mjög dýr.
Guðmundur telur gegnsæi ríkja um tengda aðila í sjávarútvegi. Hver kennitala mætti ekki hafa nema 12% kvótahlutdeild að hámarki og annar aðili mætti aðeins kaupa 49% hlut í fyrirtæki sem væri með 12% kvótahlutdeild. Spyrill Kastljóss gaf í skyn að þessar reglur kæmu ekki í veg fyrir samþjöppun og sjálfur væri Guðmundur með 15,9% kvóta í gegnum þrjú fyrirtæki.
Guðmundur sagðist telja að almennt væri ekki mikil spilling í sjávarútvegi hér á landi þar sem töluvert gagnsæi væri líkt og á hinum Norðurlöndunum.