fbpx
Sunnudagur 18.maí 2025
Fréttir

Brynhildur svarar gagnrýni á ritskoðun Borgarleikhússins – „Þess vegna fótósjoppuðum við sígarettuna út“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 7. maí 2020 16:44

Brynhildur Guðjónsdóttir. Mynd: Fréttablaðið/Gunnar V. Andrésson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miklar umræður hafa orðið um breytingu sem Borgarleikhúsið lét gera á auglýsingu fyrir sýninguna Níu líf sem fjallar um feril Bubba Morthens, tónlistarmannsins ástæla. Undir þrýstingi úr tveimur ólíkum áttum var sígaretta fjarlægð úr munni Bubba Morthens á íkonískri ljósmynd sem birtist af goðinu í tímaritinu Samúel árið 1981, en myndin var tekin árið áður. Morgunblaðið fjallaði um þetta í morgun.

Mörgum þykir þetta vera óverjandi ritskoðun af hálfu listastofnunar og Bubbi er á meðal þeirra sem gagnrýna ákvörðunina.  „Við erum komin í þjóðfélag þar sem stóri bróðir er kominn yfir og allt um kring, hvort sem okkur líkar betur eða verr.“ Hann segist hafa byrjað að reykja sex ára og hafa mökkreykt árið 1980 þegar myndin var tekin. „Það væri mjög ankannalegt að ætla að fara að ritskoða það með einhverjum hætti. Það er bara kjaftæði.“

Í frétt Morgunblaðsins segir enn fremur: „Bubbi segir að einhverjir haldi því fram að hann sé fyrirmynd og því sé hann að stuðla að reykingum ef hann sést með sígarettu í munnviki. Það segir Bubbi fásinnu en hann sagði þó skilið við sígarettur árið 2005.“

Höfðu lítinn tíma til að taka ákvörðun

Morgunblaðið náði ekki í Brynhildi Guðjónsdóttur Borgarleikhússstjóra við vinnslu fréttar sinnar en DV náði tali af henni eftir nokkrar tilraunir síðdegis í dag. „Þetta er kannski ekki stærsta málið á baugi hjá okkur núna,“ sagði Brynhildur og lýsti því að mikið hefði mætt á stjórnendum og starfsfólki leikhússins í kórónuveirufaraldrinum en loka þurfti leikhúsinu. Fór í gang umfangsmikil vinna við að streyma efni leikhússins, meðal annars umræddri sýningu, Níu líf.

„Svarið er að algoritmi Facebook leyfir hvorki allsberar konur né sígarettur. Þess vegna fótósjoppuðum við sígarettuna út frekar en að skipta um allt kynningarefni, því við vorum að fara að frumsýna, það var yfirvofandi heimsfaraldur og það þurfti að loka húsinu,“ segir Brynhildur.

Brynhildur segir einnig að á auglýsingaspjaldinu fyrir sýninguna utan á Borgarleikhúsinu hafi verið settur borði yfir sígarettuna. Blaðamaður bendir á að algoritmi Facebook nái ekki yfir útveggi Borgarleikhússins og segir Brynhildur að þetta hafa verið gert vegna ábendingar frá Krabbameinsfélaginu: „Við fengum ábendingu frá Krabbameinsfélaginu um að þetta væri brot á tóbaksvarnarlögum.“ Segir hún að tímaskortur og erfitt ástand hafi ráðið einhverju um að þessi ákvörðun var tekin en getur ekki svarað því hvort leikhúsið hefði brugðist öðruvísi við þessari ábendingu við aðrar aðstæður.

Brynhildur bendir á að kynningarefni inni í leikhúsinu og leikskráin séu óbreytt og þar getur því fólk fengið að sjá Bubba með sígarettu í munnvikinu. Hún segir að engin ritskoðun muni eigi sér sér nokkurn tíma stað á sjálfu leiksviðinu og þar sé ekkert dregið undan í löstum Bubba hér áður fyrr. „Við erum alltaf að segja söguna sem einu sinni var. Bubbi reykti einu sinni og hann gerði ýmislegt fleira. Það er sagan sem við erum að segja og leikhúsið segir vissulega sögur af breyskleika fólks. Því munum við halda áfram.“

Ritskoðað auglýsingaspjald Borgarleikhússins og forsíðan á októberhefti Samúels árið 1981. Ásgeir Tómasson tók viðtalið við Bubba og Björgvin Pálsson tók myndina. 

 

Lydduskapur, hjarðhegðun, púrítanismi og afskiptasemi

Málið hefur vakið hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum í dag og Ásgeir Ingvarsson skrifar meðal annars í Facebook-hóp Frjálshyggjufélagsins:

„Er ekki tímabært að setja á laggirnar hóp, hér á FB, sem safnar saman dæmum um lydduskap, hjarðhegðun, pjúrítanisma og afskiptasemi Íslendinga?

Þar mætti fyrsta færslan vera þessi frétt um þá ákvörðun Borgarleikhússins að láta undan þrýstingi tóbaksvarna-öfgafólks, og gera Bubba reyklausan afturvirkt.

Þetta er angi af fyrirbæri sem plagar bæði Ísland og önnur lönd: að sá sem móðgast mest, og gengur harðast fram í réttsýnisfrekjunni, fær sínu framgengt.

Ef þau setja á fjalirnar leikrit um Churchill, þá væntanlega skipta þau vindlunum út fyrir lakkrísrör, nema hvað þá æsast hjartveikir og kvarta yfir að lakkrís sé slæmur fyrir blóðþrýstinginn, svo skipta þarf rörunum út fyrir jerky, sem móðgar grænmetisæturnar svo skipta þarf jerky-inu út fyrir pretzel stangir, sem móðgar ketó-liðið svo skipta þarf…“

Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar og fyrrverandi þingmaður, ritar:

„Rétttúnaðurinn nær nýjum hæðum á Íslandi! Í Austurvegi þótti það í eina tíð sjálfsagt að breyta sögunni þegar það hentaði viðkomandi stjórnvöldum. Hérlendis er gengið enn lengra þó stjórnvöld eigi ekki í hlut – ömurlegt að Borgarleikhúsið skulið hafa látið undan þessu rugli, en sýnir kannski best hversu langt er hægt að ganga þegar ekki er spyrnt við fótum.“

Guðmundur Brynjólfsson, djákni og rithöfundur, skrifar:

„Þessir rétttrúnaðarþvæla er komin út yfir öll mörk. Það er eins gott að Bubbi var ekki feitur á sama tíma og hann reykti … Þá hefði verkið sjálft líklega verið bannað …“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Allt á suðupunkti í Grafarvogi: „Örfáir sem við erum búin að hitta sem eru ekki brjálaðir“

Allt á suðupunkti í Grafarvogi: „Örfáir sem við erum búin að hitta sem eru ekki brjálaðir“
Fréttir
Í gær

Svona verður veðrið í dag – 19 gráður og heiðskírt í Reykjavík en það er bara byrjunin

Svona verður veðrið í dag – 19 gráður og heiðskírt í Reykjavík en það er bara byrjunin
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Boðar grundvallarbreytingar á umgjörð elsta ríkisútvarps heims

Boðar grundvallarbreytingar á umgjörð elsta ríkisútvarps heims
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framlag ríkisins til umdeilds listaverks hefur hækkað um 10 milljónir á einu ári

Framlag ríkisins til umdeilds listaverks hefur hækkað um 10 milljónir á einu ári
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bretar undirbúa sig undir árás Rússa

Bretar undirbúa sig undir árás Rússa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kona réðst á pizzasendil og stal af honum símanum

Kona réðst á pizzasendil og stal af honum símanum