fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Ragnhildur missti hægri höndina í fiskvinnsluvél – Myndir ekki fyrir viðkvæma

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 5. maí 2020 11:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Athugið! Við vörum viðkvæma við ljósmyndum sem birtast hér að neðan

Árið 1981 varð skelfilegt vinnuslys í fiskvinnslunni Miðnesi í Sandgerði er 16 ára stúlka missti hægri hönd sína í fiskvinnsluvél. Í fyrstu leit út fyrir að höndin yrði fjarlægð en lækninum Rögnvaldi Þorleifssyni tók að græða hana á stúlkuna aftur. Þessi vandasama aðgerð, þar sem þurfti að græða saman örsmáar æðar og taugar, markaði tímamót því um er að ræða fyrstu ágræðslu útlims á Íslandi.

Stúlkan sem í hlut átti heitir Ragnhildur L. Guðmundsdóttir. Ragnhildur, sem er fædd árið 1964, hefur átt farsæla en þó erfiða ævi. Hún býr í Reykjanesbæ og starfar sem kennari og náms- og starfsráðgjafi.

Atburðurinn var rifjaður upp í Morgunblaðinu árið 2013. Þar segir Ragnhildur um ástandið fyrst eftir slysið: „Þetta leit ekki vel út. Þegar á slysadeild Borgarspítalans kom sagði læknirinn á vaktinni að höndin yrði fjarlægð. Ég hvæsti á lækninn og sagðist vita það vel. Hafði annars mestar áhyggjur af því hvernig hjúkrunarfólkinu tækist að klæða mig úr peysunni. Og þar varð að fara mjög varlega, því höndin hékk á skinntætlu á milli þumalfingurs og vísifingurs og bein, sinar og taugar voru sundurskorin.“

Í gær, þann 4. maí, voru 39 ár liðin frá slysinu. Á þeim tímamótum var Ragnheiði efst í huga hvað tíminn er fljótur að líða enda er atvikið henni eðlilega ferskt í minni.

„Ég hef reyndar lent í mörgum áföllum um ævina, hef meðal annars þurft að fara í opna hjartaskurðaðgerð. En þetta krafðist mikillar aðlögunar, ég þurfti til dæmis að læra að skrifa með vinstri hendi,“ segir Ragnheiður í samtali við DV.

Atburðurinn og hið erfiða endurhæfingarferli komu þó ekki í veg fyrir að Ragnhildur sækti sér menntun en hún er með gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur einnig verið afskaplega virk í félagsstörfum, farið í framboð fyrir stjórnmálaaflið Dögun, sinnt kórastarfi og er formaður Íbúafélags Suðurnesja, svo fátt eitt sé nefnt.

Sálræni þátturinn erfiður

Í umfjöllun Morgunblaðsins frá 2013 kemur meðal annars fram að slysið hafi ekki síst verið erfitt andlega fyrir Ragnhildi, en áfallahjálp var óþekkt hér á landi á þessum árum. Slysið hafði líka mikil áhrif á samskipti Ragnhildar við jafnaldra sína. „Maður upplifði dálítið muninn á vinum og kunningjum – ég passaði ekki lengur inn í hópinn því ég gat ekki djammað eins og hinir krakkarnir því ég var í langri og strangri endurhæfingu. Svo vissi fólk ekki hvernig átti að nálgast mig eða tala um þetta svo það var bara ekki sagt neitt,“ segir hún í samtali við DV.

Henni þykir líklegt að unglingar í dag séu opnari um viðkvæm mál eins og þessi. Sjálf hefur hún sinnt sálgæslu í gegnum starf sitt við námsráðgjöf fyrir unglinga og þar hefur erfið lífsreynsla hennar frá unglingsárum eflaust nýst henni vel við að setja sig í spor unglinga í erfiðleikum.

Sem fyrr segir lifir Ragnhildur mjög virku og annasömu lífi og á hún níu barnabörn. Átján ára gömul giftist hún Rögnvaldi Helga Helgasyni og hefur hjónaband þeirra verið farsælt. Ragnhildur segir það einskæra tilviljun að eiginmaðurinn beri sama nafn og læknirinn sem græddi á hana höndina, Rögnvaldur Þorleifsson. En tilviljunin er ánægjuleg.

Myndir: Læknablaðið/LSP

Þurfti að fara í aðra aðgerð

Árið 2008 gaf Ragnhildur út bókina „Býrð þú í glerhúsi?“ sem er eins konar ævi- og ættarsaga. Í bókinni er meðal annars kafli um slysið örlagaríka. Þar kemur fram að Ragnhildur þurfti að fara í aðra aðgerð vegna handarinnar árið 1983. Textinn birtist með góðfúslegu leyfi höfundar hér fyrir neðan.

Mynd af Ragnhildi frá 2016. Ekki er hægt að greina ummerki um slysið á hendi hennar.

 

„Árið 1980 lauk ég grunnskólanámi við Holtaskólann í Keflavík sem þá var eini unglingaskólinn og ákvað að taka mér hlé frá námi, þetta varð afdrifarík ákvörðun. Ég fór að vinna við fiskvinnslu hjá Miðnesi í Sandgerði, salthúsi.

Þarna var gaman að vinna, fólk á öllum aldri og mikið sungið við vinnuna. Mér þótti það gaman í vinnunni að ég setti það ekki fyrir mig að þurfa að fara á puttanum í vinnu kvölds og morgna allan veturinn. Um vorið íhugaði ég að hafa samband austur í sveit og athuga hvort ekki væri pláss fyrir mig í sveitinni um sumarið en alltaf frestaði ég því að hringja.

Þann 4. maí 1981 lenti ég í vinnuslysi, ég var að vinna á hausingavél og stuttu eftir kaffipásuna um morguninn þá lenti ég með hægri höndina í vélinni svo hún fór af, hékk í hanskanum á smá tutlu við þumalfingur. Hefði átt að vera búin að ráða mig í sveitina.

Ég var flutt beint á Borgarspítalann þar sem ég var svo heppin að Rögnvaldur Þorleifsson læknir vildi endilega gera tilraun til þess að græða höndina á aftur. Hringt var í foreldra mína og þau látin vita hvernig komið væri og að ég hefði verið flutt á Borgarspítalann. Þegar þau komu til Reykjavíkur í hádeginu, þá var ég komin í aðgerð og það var ekkert fyrir þau að gera, það væri bara bið framundan.

Þessi aðgerð tókst það vel að ég hélt höndinni og fékk mikinn stuðning af henni og töluvert góða tilfinningu í höndina. Ég varð þó að venja mig á að skrifa með vinstri hendi sem ég og gerði strax á spítalanum.

Ég hafði svo gaman af því að leysa krossgátur og þegar vinnufélagi minn og bróðir hans komu í heimsókn og buðu mér að koma með einhverja ósk þá bað ég um krossgátublað en áttaði mig ekki á fyrr en þeir voru farnir að auðvitað gat ég ekki skrifað með þeirri hægri svo ég neyddist til að nota vinstri höndina sem varð upphafið að því að skipta yfir. Ég hef og hafði starfað mikið innan skátafélagsins Heiðabúa og þar hafði ég lært svo margt sem styrkti mig í þeim erfiðleikum sem framundan voru.

Slysið olli mér mikilli sorg, ekki það að ég gæti ekki höndlað áfallið við handarmissinn heldur hitt að flestir sem ég taldi vini mína og kunningja hurfu einn af öðrum hugsanlega hafa þeir ekki vitað hvernig þeir ættu að bregðast við og því dregið sig í hlé. Þetta var hræðileg reynsla því nóg er að upplifa svo alvarlegt slys þó ekki þurfi að upplifa frekari missi við það. Þessi upplifun vakti mig þó til umhugsunar um mannlegt eðli og þá áhuga minn á fólki, vinnu með fólki og fyrir það.

Ég þurfti að fara í endurhæfingu á Grensásdeildina um sumarið og var sko ekki sátt við það 16 ára að eiga að vera þar inni stóran hluta sumars og það innan um gamalt fólk. Þetta voru auðvitað fordómar af minni hálfu enda þegar til kom þá var því miður einnig margt ungt fólk sem var þar inni og fékk endurhæfingu eftir slys.

Ég þurfti að fara á ný í aðgerð vegna handarinnar veturinn 1983, þannig var að fingurnir stóðu beint fram og ég var iðulega að reka þá utan í svo læknirinn tók á það ráð að setja fingurna í smá beygju og þannig hefur höndin verið æ síðan og nýtist mér mun betur þannig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd