Söng- og útvarpskonan Karitas Harpa Davíðsdóttir á von á barni með Aroni Leví Beck, varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Parið á von á dreng sem væntanlegur er þann 11. maí.
Karitas birtir fallega færslu á Instagram-síðu sinni við mynd sem systir hennar, Marín Laufey, tók.
„Áður en tíminn rennur út plataði ég @mdavidsdottir til að taka nokkrar óléttu „glansmyndir“,“ skrifar Karitas og bætir við að raunin sé þó sú að „lífið er engin glansmynd og bara stundum allt annað en glans.“
Þetta er fyrsta barn Karitasar og Arons saman, en fyrir á Karitas soninn Ómar Elí, fjögurra ára. Hún segir að ýmsar tilfinningar hafi vaknað á þessari meðgöngu, svo sem „gleði, þakklæti, tilhlökkun, spennu, kvíða, þyngslum, samviskubiti og sektarkennd,“ skrifar hún og heldur áfram.
„Sektarkennd yfir því að finnast ég ekki hafa geta sinnt neinu almennilega, fjölskyldu, Ómari, vinnu, tónlist, félagslífi, áhugamálum. Sjáið til ég hef verið ofboðslega þreytt allan tímann og það hefur laggst þungt á sálartetrið. Mér hefur oft þótt ég „léleg“ í að vera ólétt, borið mig saman við óraunhæfar myndir og sett mér óraunhæfar væntingar EN það er víst engin ein leið til að gera neitt, ekki heldur að vera óléttur.“
Nú eru aðeins nokkrir dagar í drengsnáðann og eins og gefur að skilja er Karitas spennt fyrir næsta kafla í lífinu.
„Ég er orðin óskaplega spennt að fá kút í heiminn og takast á við næsta kafla, er orðin tilbúin að segja skilið við þennan í bili.“