Palm West syngur kántrí á íslensku – Gefur í dag út sitt fyrsta lag
Í dag gefur íslenski kántrísöngvarinn Palm West út sitt fyrsta lag. Lagið, sem heitir því viðeigandi nafni Hnakkurinn, má finna á Youtube-síðu Palm West og like-síðu hans á Facebook. Kántrísöngvarinn Palm West er íslenskur, en hann hefur komið fram á hinum ýmsu stöðum undanfarið og fengið góðar viðtökur. Palm West syngur kántrí á íslensku og þykir einn sá efnilegasti á landinu sem syngur á íslenskri tungu.
„Hestar hafa alltaf verið hluti af lífi mínu,“ segir Palm West, „en afi minn ræktaði hesta í fjölda ára við góðan orðstír. Ég varði miklum tíma æsku minnar í sveitinni hjá afa mínum og ömmu í kringum hestana og öll hin dýrin.“
Maðurinn á bak við Palm West er listamaðurinn Pálmar Örn Guðmundsson, en hann syngur sem trúbador með félaga sínum, Svani Bjarka, í dúettinum DúBilló. Pálmar Örn málar einnig myndir og birtist viðtal við hann í DV árið 2015 [(http://www.dv.is/folk/2015/5/1/leitar-aevintyranna-i-myndlistinni-og-lifinu-um-leid/)]. „Hugmyndin að Palm West og kántrítónlistinni er pínu „spontant“, en þó má rekja hana til mikils áhuga míns á kúrekum í æsku og aðdáun minni á Johnny Cash,“ segir Pálmar Örn.
Þeir sem eru áhugasamir um kántrítónlist og Palm West ættu endilega að hlýða á Hnakkinn og láta sér líka við síðu Palm West.
Facebooksíða Palm West [(https://www.facebook.com/palmwestthebest)]
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=DjFYPGVOrdI&w=560&h=315]