Ekki sáttur með ástandið í Sýrlandi
Birgir Örn Guðjónsson, eða Biggi lögga, birti í gær færslu þar sem hann lýsti viðbrögðum sínum og annarra nemenda við fyrirlestri sem flóttamaðurinn Khattab Omar Alomhammad hélt á föstudaginn. DV fjallaði um málið í gær. Khattab og fjölskylda eru frá borginni Aleppo í Sýrlandi þar sem nú geisar styrjöld. Í kjölfarið boðaði Birgir til mótmæla við Austurvöll í Reykjavík samdægurs, áþekkum þeim sem Khattab og fjölskylda hans standa fyrir á hverjum laugardegi við Ráðhústorgið á Akureyri þar sem þau hafa verið búsett frá því í janúar.
Birgir segir á facebooksíðu sinni: „Kæru vinir. Ég er ótrúlega þakklátur fyrir viðbrögðin sem frásögn mín af kennslustund gærdagsins hefur fengið. Þar sem ég er kominn aftur í borgina get ég ekki mætt á Ráðhústorgið á Akureyri. Ég hef samt ákveðið að mæta á Austurvöll og sýna þessu flotta fólki samstöðu. Þér er velkomið að mæta líka.“
Á Facebooksíðu sinni seint í gær segir Birgir um mótmælin: „Ég gat ekki gert ekki neitt og ákvað með stuttum fyrirvara að sýna samstöðu með málefninu og mæta á Austurvöll. Ég var að vísu einn þar með fjölskyldunni minni sem var pínu skrýtin tilfinning, en ég er engu að síður ótrúlega ánægður með að hafa gert þetta. Að hafa látið slag standa og gert það sem mér fannst rétt og mikilvægt. Ég bara gat ekki setið heima eftir að hafa hvatt fólk til að mæta á torgið á Akureyri.“
Þar sem fyrirvarinn var því miður nokkuð stuttur hjá Birgi mættu færri en hefðu viljað en á Akureyri flykktist fólk að til að sýna samstöðu með Khattab eftir eggjun Birgis. Þessu greinir mbl.is frá. „Í dag mættu mjög margir, ég hugsa að það hafi verið yfir hundrað,“ sagði ensku-kennarinn Khattab, í viðtali við mbl.is. í gær. Khattab þakkar stuðninginn sem hann hefur fengið á Íslandi og vill meina að sér og fjölskyldu sinni líði afar vel hér, þrátt fyrir töluvert kaldara loftslag heldur en í heimalandinu. Birgir segist þakklátur fyrir að eins margir og raun bar vitni hafi mætt og sýnt Khattab og hans fólki samstöðu á Ráðhústorgi á Akureyri í dag. „Ég er stoltur af ykkur. Við verðum að halda áfram að tína sandkorn á vogaskálar friðarins,“ sagði Birgir í Facebookfærslu sinni.