fbpx
Laugardagur 25.maí 2024
Eyjan

Á móti vítaspyrnum – fá markmennirnir að sveigja fram hjá reglunum?

Egill Helgason
Mánudaginn 2. júlí 2018 09:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir skemmtilega undankeppni byrjar úrslitakeppni sem lítur ekki út fyrir að ætla að verða sérlega skemmtileg. Það eru búnir fjórir leikir, einn var öldungis frábær, Frakkland-Argentína, Portúgal-Uruguay var allt í lagi, en svo kom gærdagurinn með tveimur hundleiðinlegum leikjum, Spáni-Rússlandi, Danmörku-Króatíu.

Spænsku snillingarnir röktu boltann sín á milli, það var eins og að horfa á einhvers konar prjónaskap, en þetta var vita árangurslítið. Þessar stórstjörnur geta þá farið heim til sín og talið milljarðana sína. Króatísku leikmennirnir sem virkuðu svo skipulagðir og djarfir í fyrri leikjum voru eins og þeir þyrðu ekki neinu í leiknum gegn Danmörku. Þegar sendingar bárust inn í teig Dananna gerðist yfirleitt ekki neitt vegna þess að Króatíumennirnir héldu sig aftar á vellinum.

Og leikurinn fór í vítakeppni, það gerðu báðir leikirnir í gær. Maður óttast að það verði framhald þar á, fleiri leikir þar sem úrslitin ráðast í vítum.

Ég segi eins og er – ég er á móti vítaspyrnukeppnum. Sum lið spila upp á að komast í þær, telja sig eiga betri möguleika í þeim en í venjulegum leik. Mér finnst ekki skemmtilegt að horfa á vítakeppnir og þær eru algjörlega hippsum happs aðferð til að gera út um leiki.

Það væri nær að láta liðin bara spila þangað til annað hvort brotnar – og hitt skorar. Þá er leikurinn flautaður af. Fyrst framlenging, svo bráðabani. Engin von um að komast í vítin, bara leikmenn sem verða þreyttari og þurfa að fara að taka áhættu. Þetta gæti unnið gegn hinum endausa varnarleik sem gerir fótboltann leiðinlegan.

Ein hugmynd gæti líka verið að taka leikmenn smátt og smátt út af í framlengingunni, kannski einn á fimm mínútna fresti.

Svo er annað með vítakeppnir, en það er staða markmannsins. Margir vorkenna markmönnum í vítakeppnum. Fræg bók eftir Peter Handke heitir Ótti markmannsins við vítaspyrnu.

En markmennirnir hafa litlu að tapa í vítakeppnum. Ef þeir verja eina spyrnu eru þeir taldir hafa staðið sig vel, ef þeir verja tvær eru þeir hetjur. Svo getur reyndar orðið stjörnuhrap eins og hjá spænska markverðinum de Gea í gær – hann varði ekkert og hefur reyndar ekkert varið allt móti. En það er dálítið sérstakt tilfelli.

Það eru þeir sem taka spyrnurnar sem eru undir meira álagi. Sá sem klikkar – kannski sá eini úr hópnum. Það gleymist seint að klúðra víti á heimsmeistaramóti. Sumir eru máski ekkert sérstaklega frægir – þetta verður það eina sem er munað úr knattspyrnuferlinum.

En svo er það framkvæmd vítaspyrnanna. Ef ég man rétt segja reglur í fótbolta að markmaðurinn skuli standa á marklínunni þegar tekið er víti. Hann má ekki hreyfa sig þaðan, ekki stökkva fram fyrr en andstæðingurinn er búinn að sparka. Ég fékk ekki betur séð en að þetta væri meira eða minna gleymt í vítakeppnunum í gær – með markmennina stökkvandi fram af línunni undireins og þeir sáu tækifæri til. Dómarar gerðu engar athugasemdir. Þannig að hugsanlega voru einhverjar af þessum spyrnum ógildar og hefði átt að endurtaka þær.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Arnar Þór Jónsson – Við erum ekki sama krúttsamfélag og 1980

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Arnar Þór Jónsson – Við erum ekki sama krúttsamfélag og 1980
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Spurningarnar sem ekki komu

Orðið á götunni: Spurningarnar sem ekki komu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Björn Jón skrifar: Hefja þarf nám í dönsku mun fyrr

Björn Jón skrifar: Hefja þarf nám í dönsku mun fyrr
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Steinunn Ólína segist ekki vera að leggja Katrínu í einelti

Steinunn Ólína segist ekki vera að leggja Katrínu í einelti
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Byggðabót sem bragur er að

Sigmundur Ernir skrifar: Byggðabót sem bragur er að
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Gangi Alþingi fram af þjóðinni skal forseti tafarlaust vísa málinu til þjóðarinnar

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Gangi Alþingi fram af þjóðinni skal forseti tafarlaust vísa málinu til þjóðarinnar