fbpx
Laugardagur 15.júní 2024
Eyjan

„Í dómsalinn mætti lögmaður og fjórir menn í handjárnum. Ég blondínan nýútskrifuð“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 18. maí 2024 15:30

Helga Þórisdóttir Mynd: Íris Dögg Einarsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi og forstjóri Persónuverndar er nýjasti gestur Einars Bárðarsonar í hlaðvarpinu Einmitt. Hún steig fram í baráttunni um Bessastaði rétt fyrir páska og er í leyfi til að sinna því. Helga er lögfræðingur með mikla reynslu af opinberri stjórnsýslu, meðal í Brussel fyrir EFTA, hjá menntamálaráðuneytinu og nokkur ár hjá Lyfjastofnun sem forstjóri. Helga er metnaðargjörn kona sem lætur sig viðkvæm málefni varða sem við tökum ekki endilega eftir en skipta gríðarlegu máli í sífellt tæknivæddari heimi. 

Helga hefur verið gift Theodóri Jóhannssyni sjúkraþjálfara í 30 ár og saman eiga þau þrjú börn. Hún ætlaði alltaf að verða læknir, því faðir hennar var það og tvær systur hennar. 

„Á menntaskólaaldri tikkaði réttlætiskenndin inn samhliða áhorfi á þætti eins og Matlock og mér fannst lögfræðin eiga vel við mig. Það var enginn slíkur í fjölskyldunni en ég ákvað að kýla á það. Keppnismanneskjan sem ég er fann góðar glósur hjá kunningjakonu, lokaði mig af og lærði almenna lögfræði og heimspekileg forspjallsvísindi. Ég náði almennunni og þá var ekki aftur snúið.“ 

Nýútskrifuð blondína mætti fjórum mönnum í járnum 

Eftir laganámið fór Helga í sakamálin hjá ríkissaksóknara og beint í djúpu laugina þar sem hún var kölluð inn fyrir fulltrúa ríkissaksóknara, sem var upptekinn, til að mæta í þinghald. 

„Í dómsalinn mætti lögmaður og fjórir menn í handjárnum. Ég blondínan nýútskrifuð.  Einn ákærenda á málinu mætti ekki og ég var spurð hvort fulltrúi ríkissaksóknara vildi ekki leggja út handtökuskipun á hann. Ég játti því. Dómarinn skrifaði þá: Helga Þórisdóttir óskar eftir því að hann verði handtekinn. Mér fannst ég nánast réttdræp,“ segir Helga í gamansömum tón.

Hún fann þó eftir tvö ár að það vantaði meiri gleði og sköpun inn í líf hennar og hún sótti um á nefndasviði Alþingis. Þar sem hlutleysið skipti miklu máli „Þarna tók við áhugaverð sex ár, frá 1997- 2003. Þá starfaði ég með sex af tólf fastanefndum þingsins. Þarna verður lagakerfið til og bráðabirgðalögin og hlutleysi skiptir miklu máli og að kynnast uppbyggingu samfélagsins og hvernig allt verður til.“

Á þessum tíma eignuðust Helga og Theódór tvö fyrstu börnin, árin 1998 og 2000. „Á þeim tíma lærði ég að vinna mikla vinnu og að vinna á nóttunni. Það var góður og mikill skóli. Maðurinn minn hefur verið sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari frá upphafi og hann gat stjórnað sínum degi.“ 

Í framhaldinu langaði Helgu að taka viðbótarár í lögfræði í Edinborgarháskóla og sá á sama tíma laust starf hjá EFTA í Brussel. „Ég sótti um það og fékk starfið. Flutti út með fjölskylduna, börnin þriggja og fimm ára. Það var gott að búa svona á meginlandinu, matarmenningin dásamleg og hægt að aka í allar áttir til fallegra landa.“  

Tóku lyf við morgunógleði og börnin fæddust án útlima

Helga gerðist svo yfirlögfræðingur hjá Lyfjastofnun og leysti forstjórann af í eitt ár. „Þarna starfaði ég í átta ár með dásamlegu fólki. Allt háskólamenntað, aðallega lyfjafræðingar, efnafræðingar, líffræðingar og hjúkrunarfræðingar. 37 manns í ólíkum hópi og urðu hátt í 70 manns þegar hún hætti. 

„Þetta var mikil reynsla. Þarna eru markaðsleyfi fyrir lyf gefin út og eftirlit með öllum lyfjabúðum landsins. Lyfjalöggjöfin byrjar út af Thalidomide málinu árið 1965 þar sem konur sem tóku lyf við morgunógleði sem leiddi af sér að börnin fæddust með enga útlimi. Það er þetta sem skapar evrópsku lyfjalöggjöfina. Ég starfaði í umhverfi sem passar að það sé í lagi með lyfin sem eru seld á markaði.“ 

Þegar starf forstjóra Persónuverndar var auglýst fyrir tæpum níu árum sótti Helga um því henni fannst eiga best við sig að vinna með góðum hópi af fólki að sama markmiði. „Það er styrkleiki hjá mér að ná fram því besta í fólki. Við erum öll einhvers konar jafningjar og það er einhver sem þarf að leiða.“

Stóð í lappirnar gegn valdamiklu fólki 

Einar nefnir að margir spyrji Helgu af hverju hún sé að bjóða þig fram til forseta? Helga svarar því: „Ég er reynslubolti og kona á besta aldri, 55 ára. Ég er búin að standa í stafni fyrir íslenska þjóð og passa upp á persónuupplýsingar og fjárhagsupplýsingar þjóðarinnar og hef tekið slagi við sterka forstjóra í stórum fyrirtækjum sem vilja gera það sem þeim sýnist með persónuupplýsingar. Og ráðherra í ríkisstjórn. Það er enginn hafinn yfir lög. Ég hélt að Íslendingar vildu þannig manneskju sem forseta.“

Einar telur þá upp ýmislegt sem hefur verið hluti af baráttu Helgu í starfi: Hún verndaði heilbrigðisupplýsingar þjóðarinnar fyrir DeCode sem vildi seilast í gögn á Landspítalanum. Creditinfo sem var að sýsla með fjárhagsupplýsingar þjóðarinnar sem geta haft úrslitaáhrif með hvort við fáum fyrirgreiðslu í bönkum eða yfirdráttarheimild. Skólakerfið sem ætlaði að keyra smáforrit inn í alla grunnskóla en enginn var að hugsa um bakendann sem var erlent fyrirtæki sem ætlaði að koma persónuupplýsingum í verð.

Ísbúð með rafrænt eftirlit með starfsstúlkum að skipta um föt

Helga bætir við: „Landlæknir, Sjúkratryggingar, ísbúð sem var með rafrænt eftirlit með starfsstúlkum sem voru að skipta um föt. Laugardalshöllina sem vaktaði svæðið þar sem börn háttuðu sig og sváfu. Ég kem úr umhverfi þar sem við erum öll að hlúa að samfélaginu.“ Henni hefur reynst vel að vera einlæg og reynt að setja sig í spor annarra og þykja vænt um annað fólk. 

Jarðtenging á tímum berskjöldunar

„Ég er með fullkomna jarðtengingu og hjartað kallaði á þetta. Á tímum berskjöldunar á netinu og með gervigreindina sem er búin að taka okkur á bólakaf að passa að við sem þjóð séum hér til staðar og vernda íslenska tungu, lýðheilsu, menntamál og elsta fólkið sem bjó til það samfélag sem við búum í í dag. Saman getum við gert svo gott samfélag,“ segir Helga.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Að bera litinn
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jódís búin að fá nóg af sumum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins – „Orðið ansi þreytandi“

Jódís búin að fá nóg af sumum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins – „Orðið ansi þreytandi“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hvað segja lögin umdeildu sem Bjarkey segir binda hendur sínar?

Hvað segja lögin umdeildu sem Bjarkey segir binda hendur sínar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bjarni vill ræða breytingar á kjördæmaskipan og hærri þröskuld á fjölda meðmælenda forsetaframbjóðenda

Bjarni vill ræða breytingar á kjördæmaskipan og hærri þröskuld á fjölda meðmælenda forsetaframbjóðenda