

Skrif breskra fjölmiðla um göngumennina ungu, sem hefur hvað eftir annað verið bjargað af íslenskum björgunarsveitum, eru ærið sérkennileg. Þetta eru yfirstéttardrengir, úr hinu dýra einkaskólakerfi Bretlands.
Nú er sagt að þeim hafi borist líflátshótanir frá Íslendingum. Það er náttúrlega leitt. Því miður er það svo að margt fólk hér á landi er gjörsamlega stjórnlaust á samskiptamiðlum.
En tiltækið er náttúrlega fáránlegt, að leggja í slíka ferð svo illa undirbúnir og af slíku þekkingarleysi að björgunarmenn og þyrlur þurfa hvað eftir annað að skerast í leikinn.
Fyrir þetta er þeim svo hrósað í breskum fjölmiðlum. Bretar hafa reyndar alltaf verið veikir fyrir ákveðinni tegund af klúðrurum. Þetta birtist í einni frægustu sögu tuttugustu aldar.
Það er sagan af Robert Falcon Scott, pólfaranum sem stefndi sjálfum sér og fjölda manns í opin dauða á Suðurskautinu, þangað sem hann fór algjörlega vanbúinn og vitandi ekki neitt um aðstæður. Scott er þjóðhetja í Bretlandi og kynslóðum skóladrengja voru sagðar sögur af honum.
Á sama tíma þóttust Bretar vita að keppinautur Scotts, Norðmaðurinn Roald Amundsen, væri algjör skúrkur. Glæpur Amundsens var að vera vel undirbúinn, þekkja aðstæðurnar til hlítar og koma sér ekki í vandræði.
Í þessum leiðara úr The Times stendur að það byggi upp manndóm að mistakast – failure is character building. En nei, í þessu tilviki er svo ekki. Þetta er bara heimska og ábyrgðarleysi.
