Gary Neville, fyrrum fyrirliði Manchester United hefur ekki trú á Chelsea lengur og segir að félagið geti ekki barist við bestu lið úrvalsdeildarinnar.
Chelsea tapaði illa fyrir Bournemouth um helgina, 0-3 og situr liðið nú í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 50 stig, líkt og Liverpool sem er í þriðja sætinu.
Antonio Conte, stjóri Chelsea hefur verið sterklega orðaður við brottför frá félaginu að undanförnu og hefur Conte sjálfur ekki viljað útiloka það að hann sé að hætta.
„Chelsea er ekki að reyna við sömu leikmenn og City og United. Chelsea er ekki lengur í sama flokki og þessi lið, þeir eru ekki samkeppnishæfir við bestu lið deildarinnar,“ sagði Neville.
„Þeir eru að kaupa leikmenn í 3-4-2-1 leikkerfið hans Conte, öll kaupin í janúar eru sniðin fyrir þetta kerfi en hvað gerist þegar Conte hættir? Það er talað um að hann hætti í sumar og ég held að hann muni gera það.“
„Þá kemur nýr stjóri inn og fær þessa leikmenn í hendurnar. Hvað ef hann vill spila eitthvað allt annað kerfi, ég skil þetta ekki,“ sagði Neville að lokum.