
Galatasaray er stórhuga fyrir sumargluggann og ætlar sér að fá Bernardo Silva frá Manchester City.
Samkvæmt ítalska blaðamanninum Nicolo Schira hefur Galatasaray hafið formlegar viðræður við Silva um möguleg félagaskipti þegar samningur hans rennur út í lok tímabils.
Portúgalski landsliðsmaðurinn hefur verið orðaður við brottför frá City undanfarna mánuði og mun vega og meta sína kosti á næstunni.
Silva hefur átt sjö afar farsæl ár hjá City, en þessi fjölhæfi leikmaður hefur verið lykilmaður í liði Pep Guardiola sem hefur unnið allt sem hægt er að vinna, flest oftar en einu sinni.
Schira segir að Galatasaray hyggist nýta sér það að Ilkay Gundogan, fyrrum liðsfélagi Silva hjá City, spili með félaginu í dag.
Silva er þó nokkuð eftirsóttur og vilja félög í sádiarabísku deildinni til að mynda fá hann einnig.