
Nýverið kom út bókin Spegill þjóðar: Fréttamyndir í fimmtíu ár og sagan á bak við þær, höfundar eru þeir Gunnar V. Andrésson ljósmyndari og Sigmundur Ernir Rúnarsson, alþingismaður og rithöfundur. Hér er á ferðinni yfirlit yfir fréttaljósmyndir frá 50 ára ferli Gunnars til ársins 2018, en þessi ástsæli blaðaljósmyndari hefur haft vakandi auga með atburðum sem gerst hafa hér á landi á hinum ýmsu sviðum mannlífsins, bæði gleðilegum og sorglegum. Sigmundur ljær myndunum nýja vídd með texta sínum, en hann hefur skrifað ljóðabækur, endurminningar, skáldsögur og viðtalsbækur. Samvinna þeirra í bókinni er einstök því raddir þeirra, hvor á sínu sviði, fléttast átakalaust saman, þar sem hvorug skyggir á hina heldur mynda eina heild, sem færir lesandanum einstaka upplifun.
Gunnar er einungis 18 ára þegar hann tekur fyrstu forsíðumyndina, sem er einnig fyrsta myndin í bókinni, en myndirnar fylgja ferli Gunnars og eru merktar ártali. Strax í upphafi má sjá að Gunnar býr yfir listrænum hæfileikum og segja má að Gunnar færi fréttaljósmyndun upp á stig listforms, því svo virðist sem myndir hans spretti ljóslifandi upp úr blaðsíðum bókarinnar. Í ljósmyndum hans er ótrúlegt samspil birtu og skugga og svo kann Gunnar þá list að fanga bæði andartakið og sjónarhornið þannig margar myndir hans eiga varanlegan sess í sameiginlegu minni fólksins hér á landi. Ef nefna á einhverjar ljósmyndir í bókinni, að öðrum ólöstuðum, má telja til dásamlega mynd af Gísla í Uppsölum, hina ógleymanlegu Vornótt í Skagafirði, svo er það myndin af hinum síkappsama Steingrími Hermannssyni í loftköstum í gifsi á stjórnarráðströppunum, allar þessar myndir eru sem greiptar í þjóðarminnið, að ógleymdri myndinni af vinunum Albert Guðmundssyni og Guðmundi jaka að tefla skák í Kringlunni í Alþingishúsinu, en marga skákina plottuðu þeir félagarnir saman.



Spegill þjóðar: Fréttamyndir í fimmtíu ár og sagan á bak við þær er einstaklega vegleg bók og allur frágangur afar smekklegur. Bókin geymir eitthvað á annað hundrað ljósmyndir og er 336 blaðsíður. Fátt er þægilegra á hryssingslegum eftirmiðdegi en að glugga í þennan gullmola með góðan kaffibolla sér í hönd. Spegill þjóðar: Fréttamyndir í fimmtíu ár og sagan á bak við þær eftir þá Gunnar V. Andrésson og Sigmund Erni Rúnarsson er sannkallaður kostagripur.