
Enzo Maresca, stjóri Chelsea, lét eigin leikmann heyra það þrátt fyrir 4-3 sigur liðsins á Wolves í enska deildabikarnum í gær.
Chelsea komst í 3-0 forystu í fyrri hálfleik áður en Wolves minnkaði muninn í seinni hálfleik, en Jamie Gittens tryggði sigurinn með fjórða marki Lundúnaliðsins. Maresca gaf nokkrum mönnum sem almennt fá minna að spila tækifæri, þar á meðal Filip Jorgensen, Jorrel Hato og Tyrique George, sem allir áttu fína innkomu.
Liam Delap kom inn af bekknum á 61. mínútu. Hann fékk tvö gul spjöld á 25 mínútum og var rekinn af velli á 86. mínútu. Þetta var fimmta rauða spjaldið hjá Chelsea í síðustu níu leikjum, en Maresca sjálfum hefur einnig verið vísað upp í stúku á þessu tímabili.
„Já, þetta er vandræðalegt þegar rauða spjaldið kemur svona. Tvö gul spjöld á innan við tíu mínútum. Þetta er ekki gott,“ sagði Maresca.
„Ég sagði honum fjórum eða fimm sinnum að róa sig. En Liam er leikmaður sem, þegar hann er inni á vellinum, virðist spila leikinn fyrir sjálfan sig og á erfitt með að hlusta á aðra.“
Delap hefur spilað fjóra leiki fyrir Chelsea á tímabilinu en hann missti af tíu leikjum vegna meiðsla. Hann verður í banni í næsta leik liðsins gegn Tottenham í deildinni á laugardag, en gæti snúið aftur þegar Chelsea mætir Qarabag í Meistaradeildinni þann 5. nóvember.