

Eins og fram hefur komið er færð erfið og miklar umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu og lögreglan segir í nýrri tilkynningu að það sé fólki á vanbúnum bílum sem eigi mikinn þátt í því.
Segir í tilkynningunni að miklar tafir séu enn á stóru umferðaræðunum til Reykjavíkur vegna umferðaróhappa og ökutækja sem séu á sumarhjólbörðum. Lögregla ítreki fyrri beiðni til eiganda ökutækja á sumarhjólbörðum um að fara ekki út í umferðina. Vanbúin ökutæki valdi einna helst þeim töfum sem séu í umferðinni núna.
Viðbragðsaðilar séu í mikilli hættu þegar þeir séu að reyna að aðstoða ökumenn sem eigi í erfiðleikum vegna þess að ökumenn aki ekki varlega í þessari færð.
Lögreglan ítrekar þau skilaboð til ökumanna að sýna þolinmæði og tillitsemi í umferðinni meðan þetta ástand varir.
Einnig kemur fram að vegna umferðaróhappa á Bústaðavegi og Hringbraut í Reykjavík þá sé umferð svo til stopp á þessum leiðum. Unnið sé að því að koma björgunartækjum að til að fjarlægja tjónuð ökutæki sem séu óökufær. Ljóst sé að þetta muni taka einhvern tíma vegna umferðarþunga.